Endurupptaka í máli Erik og Lyle Menendez hefst í dag. Bræðurnir gætu fengið vægari dóm og losnað úr fangelsi eftir að hafa setið í fangelsi í þrjá áratugi.
Bræðurnir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrir að hafa skotið foreldra sína til bana á heimili þeirra í Beverly Hills árið 1989.
Talið var að bræðurnir hefðu framið morðið til að komast yfir auðæfi foreldra sinna en bræðurnir bera fyrir sig sjálfsvörn og segjast hafa verið beittir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu foreldra sinna í mörg ár.
Mikið hefur verið fjallað um mál bræðranna en áhuginn jókst enn frekar eftir að sjónvarpsþættir um mál þeirra hófu göngu sína á Netflix í haust. Endurupptakan á málinu kemur í kjölfar sjónvarpsþáttanna.
Málið fer fram fyrir luktum dyrum og er búist við að réttarhöldin standi yfir í tvo daga. Litið verður til nýrra sönnunargagna í málinu auk þess þar sem hlustað verður á vitnisburð vitna.
Lögmaður bræðranna hefur gefið út að fjölskylda bræðranna, fangaverðir og atferlisfræðingar muni bera vitni í dómsal auk þess sem mögulegt er að bræðurnir stígi í vitnastúkuna.
Bræðurnir játuðu brotin á sínum tíma og er markmiðið með endurupptökunni ekki að draga í efa saknæmi þeirra heldur þess í stað að líta til þess hvort þeir hafi endurhæfst.