„Okkur finnst víða reimt og viljum sækja það,“ segir Atli Bollason um innihald nýrrar plötu Unfiled. Atli skipar ásamt Guðmundi Úlfarssyni raftónlistar- og listatvíeykið Unfiled sem nýverið sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu, samnefnda dúettinum. Platan hefur að geyma sex lög eftir þá félaga sem vinna jöfnum höndum í ólíkum listgreinum, tónlist og sjónlist, og er hún gefin út bæði í föstu formi og stafrænu, á Bandcamp og á vínyl.
Í tilkynningu frá þeim félögum segir að „uggvænleg stemning plötunnar“ sé að miklu leyti komin til vegna notkunar þeirra á rússneska hljóðgervlinum Lyru sem sagður er lífrænn-hliðrænn og hagar sér oft með nokkuð ófyrirsjáanlegum hætti, líkt og reimt væri í vélinni. „Langar spunalotur á Lyruna voru fangaðar á (stafrænt) band og svo klipptar niður, skældar og bjagaðar, og settar í nýtt samhengi. Nær öll hljóð plötunnar, utan slagverks, voru sköpuð með þessum hætti,“ segir um þann hljóðheim.
Þið segið að „vofur pólsku Detroit“ gangi aftur á þessari fyrstu plötu ykkar. Hvað er átt við með því?
„Sumarið 2022 var okkur boðið til dvalar í borginni Lótz í Póllandi. Þetta er mikil textíliðnaðarborg og okkur var boðið að vinna þarna í fyrrverandi bómullarverksmiðju. Það er hellingur af þeim en þessari hefur verið breytt í listsköpunar- og flutningsrými. Við unnum þar,“ svarar Atli og bætir við að nóg sé um slík rými í borginni og stór hluti þeirra í niðurníðslu. Önnur hafi verið endurreist í þessari borg sem lengi vel hafi verið önnur stærsta borgin í Póllandi. Í dag sé hún ekki svipur hjá sjón og mikið um risastórar og tómar byggingar.
Atli segir þetta umhverfi hafa litað andrúmsloftið á plötunni, haft mikil áhrif á hana og veitt þeim innblástur. Þeir félagar hafi líka safnað hljóðupptökum af enduróminum í þessum byggingum og þessum miklu rýmum. „Þetta á sér enn lengri sögu því við höfum verið svolítið uppteknir af því sem er liðið en samt ekki farið, hvort sem það eru hugmyndir eða einhver arkitektúr. Okkur finnst víða reimt og viljum sækja það,“ segir Atli.
Þið kallið ykkur „sjónsveit“, hvers konar sveit er það?
„Prójektið varð til þegar við ákváðum að koma fyrst fram undir þessu nafni, að nota það fyrir verkefnið sjálft en ekki bara útgáfuna. Það var í Mengi og við vorum að gera tilraunir með það sem við kölluðum „sjónleika“,“ segir Atli en á slíkum leikum eru hljóð og mynd jafnmikilvæg. „Það er ekki þannig að hljóðið sé í þjónustu við myndina eða öfugt heldur er þetta í rauninni eitt samþætt verk og flutningur. Þarna mótuðum við alls konar aðferðir sem við síðan byggðum á þegar við fórum til Lótz. Upphaflega ætluðum við ekki einu sinni að gefa fólki kost á að heyra þessa tónlist án þess að sjá sjónrásina með. En einhvern veginn, hægt og rólega, fór hún að öðlast nægilega sjálfstætt líf til að okkur þætti vit í því. En við höfum aldrei komið fram án þess að vera með ítarlega vörpun sem fylgir og höfum gert tilraunir með tvöfaldar varpanir, gert gallerísýningar líka út frá þessu þannig að sjónræni þátturinn er ekki síður mikilvægur en sá hljóðræni.“
Atli er spurður að því hvort nafn dúettsins, Unfiled, sé lýsandi fyrir listsköpunina, þ.e. að hún sé óflokkuð. „Við félagarnir stofnuðum fyrst pínulitla útgáfu sem við gáfum þetta nafn og hugmyndin var þá að það sem kæmi þar út væri kannski illflokkanlegt, getum við sagt. En „unfiled“ á líka við eitthvað sem er ekki búið að pússa, það er þessi tvöfalda merking í gangi,“ svarar Atli.
„Ég gaf út plötu í nafni þessarar útgáfu og það eru held ég sjö ár síðan. Svo gerði Guðmundur líka plötu undir sínu nafni, Good Moon Deer, og hann hafði áður gert plötur undir því nafni. Þegar við fórum að taka höndum saman í þessum útgáfu-bisness fórum við líka að gera list saman og það varð upphafið að þessu verkefni. Eins og er er enginn að gefa út hjá þessari útgáfu nema bara hljómsveitin Unfiled og okkar stöku verkefni,“ segir Atli.
Unfiled hefur bæði haldið standandi og sitjandi tónleika, þ.e. fólk hefur ýmist setið eða staðið og í Póllandi kom dúettinn fram á útisviði með hálfgegnsætt tjald milli sín og áhorfenda. „Við reynum alltaf að leika okkur eitthvað með það. Við höfum verið með tvöfalda vörpun, eina á bak við okkur og eina á gólfinu fyrir framan okkur þannig að við erum að reyna að teygja á því og munum pottþétt gera áfram,“ segir Atli.
Fyrstu „sjónleikar“ ykkar fóru fram í Mengi árin 2019 og 2020 auk þess sem þið hélduð myndlistarsýningu í Ásmundarsal árið 2020. Þessi list ykkar hentar jafnt myndlistar- og tónleikarýmum, ekki satt?
„Jú, algjörlega, og okkur finnst gaman að leika okkur á þessum mörkum,“ svarar Atli. Það sem í upphafi hafi mátt kalla hljómsveit hafi skömmu síðar staðið að gjörningi sem kalla mætti myndlistarsýningu. „Það segir eitthvað um forgangsröðunina hjá okkur,“ segir Atli. Þeim félögum þyki gaman að leika sér á þessum mörkum og sjónrásin sem fylgi hinu hljóðræna sé býsna ágeng. „Það er ekki auðvelt að kúpla sig út, þetta er alltumlykjandi og frekar mikið að taka inn,“ útskýrir Atli.
Finnst þér vanta meira af svona list á Íslandi?
„Já, alveg klárlega því þetta er mjög vaxandi og sérstaklega í öllu sem hefur með raftónlist að gera. Það eru heilu hátíðirnar erlendis, virtar og stórar, þar sem þetta er alfarið fókusinn,“ segir Atli. Slíkar sjónleikahátíðir hafi vantað hér á landi og hægt væri að nýta kvikmyndahús eða einhver óhefðbundin rými undir þær.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.