Löngun glæpasagnahöfundarins vinsæla Ragnars Jónassonar til að taka meiri þátt í gerð sjónvarpsþáttaraða og kvikmynda var kveikjan að nýstofnuðu framleiðslufyrirtæki hans sem tilkynnt var um fyrr í dag.
Með honum um borð í Dimmu Pictures eru fyrirtækið Stampede Ventures og framleiðandinn John-Paul Sarni, sami hópur og vann með honum að þáttunum Dimmu.
„Við unnum saman að því að gera þættina Dimmu fyrir ári síðan. Það samstarf gekk mjög vel og við vorum báðir spenntir að gera eitthvað meira, en mig langaði kannski að taka meiri þátt og hafa meira um þetta að segja,” segir Ragnar aðspurður og á þar m.a. við handritaskrif. Hann var staddur í Hay-on-Wye í Wales þegar blaðamaður ræddi við hann en þar var þetta nýjasta verkefni hans kynnt fyrir fjölmiðlum.
Þótt hlutverk Ragnars við gerð Dimmu-þáttanna hafi ekki verið stórt segist hann hafa verið duglegur að mæta á tökustað og fylgjast grannt með gangi mála.
„Ég hugsaði að það gæti verið skemmtilegt að þróa mínar bækur meira og vera nær verkefnunum og þeim leist vel á það. Það er upphafið að þessu,“ greinir hann frá en Greg Silverman hjá Stampede Ventures er fyrrverandi forstjóri Warner Brothers.
Fyrsta þáttaröðin, The Girl Who Died, byggð á bók Ragnars, Þorpinu, er í undirbúningi með Önnu Friel í aðalhlutverki og kveðst hann vera afar spenntur fyrir verkefninu.
Ragnar viðurkennir að langþráður draumur sé að verða að veruleika að reyna fyrir sér sem handritshöfundur og fikra sig áfram í sjónvarps- og kvikmyndabransanum.
„Mér finnst þetta áhugaverður heimur og öðruvísi nálgun en maður er samt alltaf bara að segja sögur. Þetta er líka aðeins meira samstarf en að skrifa bók þannig að maður kynnist fleira fólki og hittir aðra listamenn sem eru frábærir á sumum sviðum og það er gaman að vinna með þannig fólki,“ svarar hann.
Aðspurður segist Ragnar ekki hafa í hyggju að draga úr hefðbundnum glæpasagnaskrifum þrátt fyrir nýja fyrirtækið og verkefni því tengdu. Hann sé þegar að vinna að næstu bókum. Þó kveðst hann vera búinn að vinna sér aðeins í haginn og er til að mynda að ljúka núna við bók fyrir jólin 2026.
Óvíst er hvenær fyrsta þáttaröð Dimmu Pictures lítur dagsins ljós. Fyrst þarf að finna sjónvarpsstöð til að sýna hana en ef allt fer að óskum verður hægt að hefja tökur á næsta ári, bætir hann við og segir marga mismunandi þætti þurfa að smella saman, ólíkt bókaskrifunum þar sem hann situr einn við skriftir.
„Anna [Friel] er mjög spennt fyrir þessu og með manneskju eins og hana um borð þá vona ég að þetta geti gerst hratt.”
Til stendur að búa síðar meir til þætti eða kvikmyndir byggða á efni eftir aðra höfunda en Ragnar. Ekkert er þó í hendi þar. Beðinn um að nefna draumahöfund í því samhengi kemur uppáhaldshöfundur hans fyrst í hugann.
„Ég myndi segja helst Agöthu Christie svo maður sé ekki að mismuna neinum sem eru enn á lífi," svarar hann í léttum dúr. „Hún hefur alltaf verið sú manneskja sem ég hef lært mest af en við erum að leita að einhverjum nýjum röddum,” bætir hann við.