Sex laga plata með þríeykinu Virgin Orchestra sem ber titilinn Let it Burn, eða Megi það brenna kom út í seinasta mánuði. Virgin Orchestra skipa þau Starri Holm, Stefanía Pálsdóttir og Rún Árnadóttir og var hljómsveitin stofnuð þegar þau Starri og Stefanía voru saman í námi í Listaháskóla Íslands, árið 2021, og var í fyrstu dúett en hefur verið tríó frá því sellóleikarinn Rún bættist í hópinn.
Í tilkynningu segir um nýju plötuna að þar fari „kraftmikið safn laga“ sem sameini post-pönk, klassíska tónlist, draumapopp og aðrar tónlistarstefnur í heillandi blöndu. Á undan þessari plötu hafi komið smáskífurnar „Venus In Scorpio“, „The Pathetic Song“ og „Banger“ en Let it Burn sýni hvernig Virgin Orchestra hafi vaxið sem hljómsveit og meðlimir sem lagahöfundar. „Og á vissan hátt líka sem vinir, þar sem traustið á „skrítnum hugmyndum“ hvers annars hefur dýpkað og styrkst,“ segir þar.
„Þetta var fyrst svona „avant garde“-verkefni hjá okkur Starra, þar sem við vorum að semja mjög löng verk en síðan langaði okkur að gera popptónlist, gera lög,“ segir Stefanía í samtali við blaðamann og Starri segir að þá hafi þau „veitt“ Rún og orðið að tríói.
En er tónlist þeirra tilraunakennd? Starri segir ákveðna þætti hennar vera það. „En þetta er allt sett inn í popplagastrúktúr, í raun og veru,“ segir hann og Stefanía bætir því við að einhvern veginn gangi allt upp innan poppstrúktúrsins. „Við erum bara að gera eitthvað sem við fílum,“ segir hún.
Fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Fragments, kom út fyrir tveimur árum og ritaði Arnar Eggert Thoroddsen um hana grein hér í Morgunblaðið. Taldi Arnar skífuna kirfilega staðsetta í „industrial“-heimi með viðbættu gotapoppi eða -rokki, síðpönki og níunda áratugar nýbylgju.
Blaðamaður nefnir við þau Stefaníu og Starra að mögulega þurfi maður doktorsgráðu, líkt og Arnar er með, til að ná utan um þessa greiningu. „Hann lætur þetta hljóma flókið en við erum að taka þá tónlist sem hefur gefið okkur innblástur og vefja hana inn í okkar efni. Mikið af því er að koma úr þessum áttum sem hann nefnir þarna,“ segir Starri og Stefanía er sama sinnis.
„Síðan erum við mikið að taka það sem við fílum og setja í verkefnið. Rún er klassískt menntaður sellóleikari, er mikið í útsetningum og svoleiðis og Starri er með sitt „industrial trommu-kit“ sem hann smíðaði og ég með „weird pop esthetics“ í gangi. Þannig að þetta er alveg „spot on“ hjá Arnari, myndi ég segja,“ segir Stefanía. „Þetta er ekki eitthvert skrítið „shit“ sem passar ekki saman, við vinnum mikið í hlutunum og hnoðum þetta saman og látum ganga upp.“
Hver var munurinn á milli platna hjá ykkur, hvað breyttist á þessum tveimur árum sem liðu á milli þeirra?
„Lagasmíðarnar urðu þéttari. Við vorum með meiri tíma til að semja og taka upp þessa plötu. Fyrstu plötuna sömdum við á viku og tókum hana upp á fjórum dögum en þessa plötu vorum við búin að vera að semja í u.þ.b. ár og tókum hana upp á tveimur vikum. Það var hægt að vanda hluti aðeins meira,“ svarar Starri.
Stefanía segir þau hafa gert fleiri tilraunir og prófað fleira. „Sumt gekk ekki upp og við hentum því en þarna höfðum við meiri tíma,“ segir hún og Starri segir að þau hafi verið orðin reyndari lagasmiðir.
Stefanía samdi lagatexta plötunnar og segir hún að þegar demó sé samið komi oftast einhver laglína þó enginn sé endilega textinn. Allt fari þetta eftir því hvaða sérhljóðar vilji vera þarna, ef þannig mætti að orði komast. Hún er spurð að því hvort hún hafi lært söng og segir hún svo ekki vera. „Ég hef farið á söngnámskeið og var í Borgarleikhúsinu þegar ég var krakki, í Sönglist,“ segir Stefanía.
Um hvað fjalla textar plötunnar, hvað er verið að syngja um?
„Það er aldrei eitthvað ákveðið, orðin koma bara og síðan saumar maður þetta bara saman í eitthvað sem meikar sens,“ svarar Stefanía. „Þetta bara flæðir út, kemur bara,“ segir hún um textana en hún á að baki meistaranám í ritlist og heimspeki að auki.
Bæði tónlist og textar virðast unnin af fagmennsku og það sama má segja um kynningarefni, ljósmyndir og tilkynningu. Blaðamaður veltir fyrir sér hvort þríeykið sinni fleiri listgreinum en tónlist og textasmíðum. „Ég persónulega er ekki í öðrum listum, eins og er, en hef verið í öðrum listgreinum. Ég var í myndlist, ritlist og sviðslistum en þetta verður allt að einni blöndu í tónlistinni, þetta er í rauninni allt af þessu,“ svarar Stefanía. Listin sé afurð andans en birtingarmyndir hennar ólíkar.
Mér skilst að það sé mikið fram undan hjá ykkur á árinu. Getið þið sagt mér hvað?
„Það eru útgáfutónleikar í Smekkleysu í júlí og svo erum við að skipuleggja ferð út líka,“ svarar Starri. Stefnan sé sett á Evrópu.
Þurfið þið þá að vera með fyrirtæki í að skipuleggja þá ferð?
„Já og nei. Við höfum gert þetta áður án prómótera og það hefur alveg gengið vel,“ segir Stefanía. Vissulega sé betra að vera með fólk í slíkum kynningarstörfum en á móti komi að þau vilji drífa í þessu, hamra járnið á meðan það sé heitt.
Útgáfutónleikar verða haldnir 12. júlí í plötubúð Smekkleysu.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.