„Það er alltaf gott að fá klapp á bakið,“ segir Kjartan Ragnarsson sem hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2025 fyrir framúrskarandi og ómetanlegt framlag sitt til íslenskrar leiklistar þegar Gríman var afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi.
Morgunblaðið ræddi við hann um langan og farsælan feril hans sem leikari, leikstjóri og leikskáld. Hann rifjar upp kynni sín af Jerzy Grotowski, einum áhrifamesta leikstjóra 20. aldar, sem rak Kjartan burt frá sér þegar Kjartan vildi ekki gangast leikhúsi hans á hönd og hafna öllum öðrum leikhússtefnum.
Ferill Kjartans spannar yfir 60 ár og hefur hann sett upp fjölmargar leiksýningar bæði hérlendis og erlendis, m.a. í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víða á Norðurlöndunum. „Hann hefur átt frumkvæði að fjölmörgum leikgerðum og frumtextum, þ. á m. dramatíseringum á verkum Halldórs Laxness, Vigdísar Grímsdóttur og Einars Kárasonar, sem mörg hver hafa notið mikillar hylli. Verk hans hafa haft djúpstæð áhrif á þróun íslensks samtímaleikhúss,“ sagði í kynningu þegar heiðursverðlaunahafi kvöldsins var kynntur á svið í gær. Var þar vísað til sýninga á borð við Ljós heimsins, Djöflaeyjuna, Þrúgur reiðinnar, Grandaveg 7 og Sjálfstætt fólk.
Í þakkarræðu sinni rifjaði Kjartan upp að hann hefði ungur að árum vitað að hann vildi starfa í leikhúsinu. „Pabbi og mamma fóru með okkur bræðurna á Ferðina til tunglsins í Þjóðleikhúsinu sem mér fannst algjört kraftaverk. Sú reynsla er einhver stærsta listræna upplifun sem ég hef orðið fyrir á ævinni,“ sagði Kjartan í ræðunni. Í samtali við Morgunblaðið rifjar Kjartan upp að hann hafi fengið að stíga á svið á jólaskemmtun þegar hann var aðeins níu ára og notið þess að fá áhorfendur til að hlæja. „Ég var svo heppinn að Rúrik Haraldsson var skyldur mér og í gegnum hann fékk ég að fylgjast með æfingum og sýningum ofan af efstu svölum Þjóðleikhússins sem glæddi áhuga minn enn frekar.“
Kjartan lauk námi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 þegar hann var 21 árs að aldri og hóf feril sinn sem leikari, en átti síðar eftir að skrifa og leikstýra fjölmörgum leikritum fyrir sviðið, sjónvarp og útvarp.
Þegar hann var kynntur á svið Borgarleikhússins í gær var rifjað upp að Kjartan hefði stundað framhaldsnám í leiklist í Póllandi hjá Jerzy Grotowski, einum áhrifamesta leikstjóra 20. aldar. Í samtali við Morgunblaðið segir Kjartan að þau áform hafi ekki farið eins og til stóð. „Enda rak hann mig,“ segir Kjartan og blaðamaður hváir. „Ég sótti um að komast að í leikhópnum hans, Teatr Laboratorium í Wrozlaw í Póllandi, og fékk jákvætt svarbréf. Þegar ég mætti á svæðið í byrjun árs 1970 kom í ljós að ég var einn af um 40 sem máttu berjast um laust pláss hjá honum. Hann sendi alla í læknisskoðun til að meta hvort við værum nógu líkamlega hraust og ég var einn af þremur piltum sem stóðust það próf. Í framhaldinu vorum við í heilan mánuð í algjörum píningarbúðum þar sem hann braut okkur markvisst niður andlega,“ segir Kjartan og rifjar upp að unnið hafi verið í tíu tíma á dag.
„Að þessum mánuði liðnum sendi hann okkur heim í þrjá daga þar sem við áttum að íhuga næstu skref. Ef við vildum starfa áfram hjá honum urðum við að hafna öllum kenningum nema hans og helga líf okkar hans leikhúsi – að öðrum kosti vildi hann ekkert við okkur tala. Ég engdist í þrjá sólarhringa og endaði á því að viðurkenna fyrir honum að ég vildi gjarnan vinna með honum áfram, en myndi alltaf vilja snúa aftur heim til Íslands að einhverjum tíma liðnum enda vissi ég alltaf að íslenskt leikhús væri minn vettvangur. Þá sneri hann bara upp á sig og rak mig út,“ segir Kjartan og viðurkennir að hann hafi verið algjörlega niðurbrotinn maður fyrir vikið.
„Mér fannst óbærilegt að fara strax heim,“ segir Kjartan og rifjar upp að hann hafi til fararinnar hlotið veglegan styrk að heiman úr minningarsjóði Helgu Valtýsdóttur leikkonu. „Ég ákvað því að staldra lengur við á meginlandinu og skoða leikhúsið þar. Ég var svo lánsamur að fá að fylgjast með æfingum á Hamlet hjá einum besta leikstjóra Póllands,“ segir Kjartan og vísar þar til Adams Hanuszkiewicz.
„Síðan dvaldi ég í Svíþjóð á miklum umbrotatímum og fylgdist með sænsku leikhúsi sem var mér mjög lærdómsríkt. Þar varð ég fyrir miklum áhrifum frá pólitískri hópavinnu í leikhúsinu, sem við þekkjum svo vel í dag en þótti nýnæmi á þessum tíma,“ segir Kjartan og rifjar upp að þegar hann byrjaði að leika eftir útskrift hafi „hið dæmigerða, sálræna bandaríska leikhús“ ráðið ríkjum í íslensku leikhúsi og vísar þar til verka eftir Arthur Miller, Edward Albee og Eugene O'Neill.
„Þessi ferð mín veturinn 1970 reyndist því þegar upp var staðið mikilvæg endurmenntun fyrir mig. En það sem bjargaði mér sálrænt út úr þessu öllu saman var að Grotowski gafst á endanum sjálfur upp á eigin vinnuaðferðum og Teatr Laboratorium lagði upp laupana stuttu seinna. Hefði ég komist inn í leikhóp hans hefði ég aldrei náð að æfa nýja sýningu með hópnum.“
Kjartan rifjar upp að kynni sín af Guðrúnu Ásmundsdóttur og Bríeti Héðinsdóttur hafi haft mikil áhrif á sig sem listamann. „Ég fór að elska þær báðar, á sitt hvorn hátt. Önnur varð konan mín og hin minn helsti mentor. Bríet hvatti mig til að leikstýra þar sem ég væri alltaf að spekúlera í heildinni. Þetta söng í eyrum mér í tíu ár áður en ég spreytti mig loks sem leikstjóri og þá varð ekki aftur snúið.
Vinur minn Kalli Gúmm [Karl Guðmundsson leikari] var að þýða Morðið í dómkirkjunni eftir T. S. Eliot og leitaði álits hjá mér í orðavali. Þegar þýðingin var tilbúin fór hann til Vigdísar [Finnbogadóttur, leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur] og lagði til að ég stýrði leiklestrinum, sem ég gerði í desember 1974. Á kvennaárinu 1975 óskaði Vigdís eftir því að ég leikstýrði Þingkonunum eftir Aristófanes,“ segir Kjartan og rifjar upp að þýðing verksins hafi dregist úr hófi og til að redda málum og hafa einhvern efnivið til að vinna með fyrir leikhópinn hafi hann brugðið á það ráð að skrifa eigið verk. Úr varð að hann skrifaði Saumastofuna í sumarfríinu og leikstýrði því við miklar vinsældir. „Saumastofan og þær góðu viðtökur sem hún fékk gjörbreytti lífi mínu.
Í framhaldinu skrifaði ég Týndu teskeiðina, sem var viðbjóðsleg satírukómedía um mannát, og Blessað barnalán, sem var sannkallaður dyrafarsi í anda Flóar á skinni. Haustið 1976 leikstýrði ég Blessuðu barnaláni í Austurbæjarbíói á vegum Leikfélags Reykjavíkur, Bríet leikstýrði Týndu teskeiðinni í Þjóðleikhúsinu og Saumastofan gekk enn fyrir fullu húsi í Iðnó. Í heilan vetur var ég með þrjú verk til sýningar í þremur húsum þar sem alltaf var uppselt. Þá var gaman að lifa.“
Kjartan bendir á að þótt hann sé hérlendis fyrst og fremst þekktur fyrir eigin leikrit og leikgerðir ástsælla bóka sé hann í Svíþjóð, þar sem hann leikstýrði um árabil, aðallega þekktur fyrir uppfærslur sínar á leikritum Tsjekhovs. „Eftir að fulltrúar frá Sænska leiklistarskólanum í Málmey sáu uppfærslur mínar á Platanov og Vanja frænda í Borgarleikhúsinu var ég ráðinn leiklistarprófessor með sérhæfingu í Tsjekhov og starfaði þar í þrjú ár,“ segir Kjartan og rifjar upp að næstu sjö árin þar á eftir hafi hann árlega leikstýrt einni sýningu í Þjóðleikhúsinu og einni í Svíþjóð. „Úti var ég oftast beðinn að setja upp Tsjekhov eða aðra klassík,“ segir Kjartan og rifjar upp að meðal þeirra klassísku verka sem hann leikstýrði hér heima var Hamlet með Þröst Leó Gunnarsson í titilhlutverkinu.
Aðspurður segist Kjartan ekki vera á leið í helgan stein enda sé nóg að gera hjá Landnámssetrinu sem fagnar 20 ára starfsafmæli á næsta ári. „Við munum bjóða upp á veglega afmælisdagskrá. Vilborg Davíðsdóttir heldur áfram með Laxdælu sem slegið hefur í gegn. Í miðjum október frumsýnum við Sálminn um blómið með Jóni Hjartarsyni, sem lék Ofvitann í gamla daga. Í byrjun febrúar frumsýnum við í samvinnu við Þjóðleikhúsið Sölku Völku í leikgerð og flutningi Unnar Aspar Stefánsdóttur. Við opnuðum Landnámssetrið 13. maí 2006 og 13. maí 2026 endurfrumsýnum við Mr. Skallagrímsson með Benedikt Erlingssyni,“ segir Kjartan.