Úthlutað var úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara í sjöunda sinn í dag. Í þetta sinn hlaut Matthías Hemstock trommuleikari styrk úr sjóðnum.
Sjóðurinn var stofnaður af fjölskyldu Kristjáns, vinum og samstarfsfélögum eftir að hann lést 22. apríl árið 2002 eftir tveggja ára veikindi, tæplega þrítugur að aldri. Er sjóðnum ætlað að verðlauna framúrskarandi tónlistarmenn.
Matthías segir styrkinn hafa komið sér mjög á óvart.
„Það er ekki oft sem ég verð mjög hissa en þegar Þórarinn Eldjárn hringdi og tilkynnti mér að ég hefði hlotið styrk úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns varð ég nú eiginlega orðlaus. Ég vinn mín störf sem tónlistarmaður án þess að reikna með viðurkenningum og fókusinn er einfaldlega á þeim verkefnum sem liggja fyrir og að reyna að leysa þau vel. En það er samt hvetjandi að heyra að fólk kunni að meta það sem maður er að fást við og skiptir tvímælalaust máli í heildarsamhenginu,“ segir Matthías en nánar verður rætt við hann á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun.
Matthías lærði við Tónlistarskóla FÍH á árunum 1984-1988 og Berklee College of Music 1989-1991. Í tilkynningu segir að Matthías hafi leikið með fjölmörgum hljómsveitum og hafa verkefnin spannað vítt svið, allt frá rokki og popptónlist til klassískrar tónlistar. Nefna má sem dæmi rokk-/popp hljómsveitirnar Geimsteinn, Stjórnin, Todmobil og Unun. Þá hefur hann starfað með mörgum tónlistarmönnum innan djassgeirans á borð við Hilmar Jensson, Óskar Guðjónsson, Eyþór Gunnarsson, Valdimar Kolbein Sigurjónsson, Skúla Sverrisson, Ragnheiði Gröndal, Jóel Pálsson, Kára Egilsson, Margréti Kristínu Blöndal, Megas, Nico Moreaux og Birgi Stein Theodórsson.
Þá hefur Matthías einnig starfað í leikhúsum og með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput hópnum og Kammersveit Reykjavíkur. Raftónlist hefur einnig skipað sinn sess, meðal annars í samstarfi við Jóhann Jóhannsson á árunum 2000 til 2012.
Matthías hefur kennt á trommusett í Menntaskóla í tónlist frá stofnun skólans og starfað sem stundakennari við Listaháskóla Íslands síðan 2020. Hann stóð fyrir útgáfu bókarinnar Hringir innan hringja eftir Pétur Östlund sem er kennslubók í tækni á trommusett og gaf út eigin kennslubók árið 2018 sem ber nafnið Línur, form og spuni sem fjallar um hvernig nýta má tónmál fyrir spuna á trommusett.