Raunveruleikastjörnurnar og vinkonurnar í LXS-hópnum, þær Birgitta Líf Björnsdóttir, Sunneva Eir Einarsdóttir, Magnea Björg Jónsdóttir, Ástrós Traustadóttir, Hildur Sif Hauksdóttir og Ína María Einarsdóttir hafa varla farið framhjá neinum síðustu ár en nú bætist óvæntur leikmaður í hópinn. Nýi meðlimurinn er enginn annar en rapparinn Birnir, sem hefur formlega gengið til liðs við skvísurnar og það með heldur óhefðbundnum hætti.
Á mánudaginn ákvað Birnir að ganga til liðs LXS með því að fá sér húðflúrið „LXS“ í lófann. Þetta er óvenjuleg leið til að skrifa undir samning en tónlistarmaðurinn knái er vanur að fara sínar eigin leiðir.
Í lok síðasta mánaðar gaf Birnir út plötuna Dyrnar þar sem eitt lagið ber heitið LXS. Í textanum vísar hann á beinskeittan hátt til LXS-stelpnanna og segir meðal annars:
„Eins og LXS-stelpurnar að ganga frá ykkur,“ sem hefur verið túlkað sem létt skot á þá sem gagnrýnt hafa hópinn.
Birgitta Líf, einn af meðlimum hópsins, birti myndband á TikTok þar sem tilkynnt var um nýjasta leikmann hópsins. Skvísurnar og Birnir fögnuðu svo áfanganum á barnum Nínu þar sem þau skáluðu fyrir nýjum kafla.