Nýjasta Karatekrakkamyndin hefst á því að Li Fong (Ben Wang) neyðist til að flytja með móður sinni, dr. Fong (Ming-Na Wen), frá Beijing til New York þegar hún fær vinnu þar.
En í raun eru mæðginin að flýja fjölskylduharmleik sem átti sér stað eftir kung fu-mót í Beijing, og New York er tækifæri til að hefja nýtt líf. Nýjar reglur móðurinnar eru skýrar, Li Fong má ekki berjast, af því að ofbeldi leiðir af sér meira ofbeldi, en það lærðu þau af erfiðri reynslu.
Kung fu-undrabarnið á erfitt með að sleppa því og ekki líður á löngu þar til Li Fong er farinn að æfa aftur. Nágrannar hans og vinir, Mia og Victor (Sadie Stanley og Joshua Jackson), skulda röngu fólki peninga og til að hjálpa þeim ákveður hann að taka þátt í karatemóti þar sem hann getur unnið háa fjárupphæð.
Li Fong leitar aðstoðar kung fu-kennara síns, hr. Han (Jackie Chan), sem biður upprunalega karatekrakkann, hinn eina sanna karatemeistara Daniel LaRusso (Ralph Macchio), um hjálp enda um karatemót að ræða. Li lærir því að slást á nýjan hátt með því að blanda saman þessum tveimur bardagagreinum, karate og kung fu, fyrir lokakeppnina.
Undarleg þróun hefur átt sér stað í þessari kvikmyndaseríu en þrátt fyrir að orðið „karate“ sé í titli myndanna virðast síðustu tvær myndir, sú nýjasta og Karatekrakkinn frá 2010 eftir Harald Zwart, fjalla meira um kung fu en karate.
Ef það væri ekki fyrir Daniel LaRusso, upprunalega karatekrakkann, væri í raun engin tenging við karate því að karatemótið undir lok myndarinnar er ekki hefðbundið karatemót heldur skipulögð slagsmál úti á götu. Að því sögðu er Daniel LaRusso því miður hvorki góður í að leika né í karate og því ekki til þess fallinn að kenna nokkrum manni karate.
Undirrituð leyfir sér að segja það þar sem hún er með svarta beltið í karate en þessi kvikmynd er greinilega ekki markaðssett fyrir þann áhorfendahóp jafnvel þó að titill myndarinnar gefi annað í skyn. Andstæðingur Li Fong, Conor (Aramis Knight), er án efa bestur í karate í myndinni en spörkin hans, yoko geri kekomi (þungt hliðarspark) og mawashi geri (hringspark), voru virkilega flott og hefðu átt að skila honum fleiri stigum.
Tæknin sem Li Fong notaði var miklu frekar kung fu en karate og þar sem Li Fong sigrar Conor undir lokin væri hægt að draga þá ályktun að myndin sé í raun að segja að kung fu sé sterkari bardagagrein en karate en af hverju fær myndin þá ekki heitið „Kung fu-krakki“?
Skortur á karate er hins vegar ekki það sem truflaði undirritaða mest heldur er hversu illa skrifuð myndin er. Undirritaðri finnst það til dæmis vera skýrt dæmi um leti hjá handritshöfundum þegar tvær persónur, sem eru að kynnast, hlæja saman upp úr þurru og áhorfendum er ekki leyft að vita hvað það er sem þær eru að hlæja yfir.
Í byrjun myndarinnar eru Li Fong og Mia að kynnast og þau keyra saman um New York á vespu og hlæja saman. Markmið atriðisins er að sýna að þau eigi vel saman og séu að verða vinir en það er gert með mjög týpískri myndfléttu af þeim saman. Áhorfendur fá aldrei að vita hvað þau eiga sameiginlegt og því er í raun engin undirstaða fyrir vináttu þeirra eða ástarsambandi.
Markmið atriðisins er einungis að sýna það að tvær persónur nái saman en áhorfendum er ekki gefið tækifæri á að kynnast þeim og fá því til dæmis aldrei að heyra hvað var svona fyndið, enda skrifuðu handritshöfundarnir líklega aldrei neinn brandara, það væri of mikil vinna. Þetta gerir það að verkum að leikararnir hafa ekkert til þess að vinna með og allar persónur virðast því flatar af því að það er aldrei farið á dýptina heldur bara sýnt nóg til að atriðin og myndin skiljist.
Lögin sem eru spiluð í myndinni eru líka mörg hver skemmtileg en eru staðsett á mjög undarlegum stöðum, sem gerir það að verkum að áhorfendur finna mikið fyrir tónlistinni. Það er til dæmis eitt mjög sorglegt atriði í myndinni en í staðinn fyrir að leyfa áhorfendum að melta atriðið tekur fljótlega við mjög hress tónlist sem er ekki í takt við tilfinningarnar sem atriðið kallar fram. Enn og aftur fer leikstjórinn, Jonathan Entwistle, ekki á dýptina með efnið heldur drífur sig í næstu senu og til verður ágætt skemmtiefni en ekkert merkilegra en það.
Karatekrakki: Goðsagnir reynir að blása nýju lífi í sígilda sögu um karatekrakkann með blöndu af gömlum hetjum og nýjum andlitum, en þrátt fyrir öflug bardagaatriði og augljósa hæfileika sumra leikaranna er kvikmyndin í heildina grunn með handrit sem treystir á klisjur fremur en innihald. Fyrir karatefólk, og aðdáendur fyrri mynda, er þetta því miður ekki nema dauf skuggamynd af þeim arfi sem hún segist byggja á.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.