„Ég er að leika mér að menningararfinum og hvernig hann kemur fram í dag. Þetta er einhver heimþrá, held ég, sem maður er haldinn eftir 40 ára fjarveru,“ segir Arthur Ragnarsson myndlistarmaður um sýningu sína Draumur völvunnar sem stendur nú yfir í SÍM Gallery við Hafnarstræti í Reykjavík.
Blaðamaður Morgunblaðsins fékk að forvitnast um sýninguna og ræddi við Arthur um völvur, drauga og óhefðbundið sköpunarferlið sem mótast af aðferðafræði súrrealismans.
Arthur á að baki fjölbreyttan feril og hefur meðal annars starfað sem sjómaður, tónlistarmaður og leikmyndahönnuður. Þá hefur hann alla tíð flakkað um heiminn.
„Ég var á skaki, línu og trolli milli námsára og síðan á millilandaskipi. Sjómennskan vakti áhuga minn á erlendum löndum og seinna átti ég eftir að ferðast um alla Evrópu sem hljóðfæraleikari á tónleikaferðalögum. Þannig að það má segja að ég hafi alltaf verið svolítið á ferðinni.“
Á ferðalögum sínum kynntist Arthur meðal annars kenningum og aðferðum súrrealista sem hann átti eftir að tileinka sér í listsköpuninni síðar meir. Hann útskýrir að í því felist að gefa sig undirmeðvitundinni á vald og leyfa hendinni að teikna frjálst án umhugsunar.
„Myndirnar eru eiginlega dreymdar fram og verða svo að segja til af sjálfu sér. Þannig að ég stjórna sköpuninni í raun ekki sjálfur, heldur verður teikningin til ósjálfrátt,“ segir Arthur og getur þess að aðferðin nefnist einmitt ósjálfráð teikning. Líta megi á sjálft vinnuferlið sem kennara.
„Það fer þannig fram að ég hef strigann á gólfinu og reyni að koma mér í ákveðið vinnustuð. Það má orða það þannig að ég fer í ákveðinn farveg og fylgi honum síðan. Nú er ég búinn að vera að æfa þetta í mörg ár og ferlið verður sífellt auðveldara.“
Spurður nánar út í það hvernig hann kynntist þessari sérstöku vinnutækni og hvers vegna hann hafi ákveðið að tileinka sér hana svarar Arthur:
„Í Myndlista- og handíðaskóla Íslands lærði ég alls konar tækni, til að mynda hvernig eigi að blanda liti og haga myndbyggingu og slíkt, og aðhylltist hana lengst framan af. En svo fór ég að fá á tilfinninguna að ég hefði kannski aldrei fengið almennilega listræna útrás með því sem ég hafði lært og þá fór ég að rannsaka sjálfan mig og vinnuferlið. Á endanum hætti ég síðan að blanda liti og fór að teikna. Mér varð hugsað til gömlu súrrealistanna frá því um 1920 sem gerðu alls konar tilraunir til að fanga undirmeðvitundina með ósjálfráðum teikningum, og ákvað að skoða það nánar. Svo fór ég að æfa mig og blanda þeirri tækni saman við þá hefðbundnu og komst að því að þetta átti vel við mig.“
Arthur segir myndlistina ávallt hafa verið líflínu sína að upprunanum og með verkunum á sýningunni sé hann að leita að heimkynnum í samfélagi sem sé orðið sér ókunnugt.
En hvaðan kemur yfirskriftin, Draumur völvunnar, og hver er þessi völva?
„Verkin eru draumur völvunnar og líka draumur minn. Og draumurinn er Ísland og náttúran. Völvurnar eru fleiri en ein, stundum eru þær til að mynda forfeður mínir sem heimsækja mig bæði í listinni og í draumi.“
Viðbrögðin við sýningunni hafa verið góð að sögn Arthurs sem vill þó meina að verkin höfði sérstaklega til annarra listamanna.
„Þetta er frekar óhefðbundið og teikningar eru nú ekkert ofboðslega vinsælar sem listaverk. Yfirleitt eru þær frekar notaðar til að gera skissur sem síðan verða listaverk.“
En svo notarðu líka akrýlliti. „Já, liti úr íslenskri náttúru. Ég reyni að nota tæra liti sem líkja eftir loftslaginu og veðrinu og margir eru þeir frá því þegar ég var á sjónum. Til að mynda litir bátanna, hafnarumhverfið og siglingamerki. En það er líka oft margt á sveimi í myndunum, einhvers konar hreyfing. Það er veðrið, rigningin og rokið sem brýst þar fram. Ég teikna með eyra bassaleikarans og það má segja að teikningarnar séu rytmískar. Ef þú spilar á hljóðfæri veistu kannski hvað ég meina. Ég þarf að ná fram vissum áherslum og hrynjandi.“
Þá á Arthur einnig verk á samsýningu norðlenskra listamanna á Listasafni Akureyrar, Mitt rými, sem opnuð var fyrr í mánuðinum og stendur fram í miðjan september. Verkið hefur titilinn „Draugurinn“ og er innblásið af atburði úr barnæsku Arthurs.
„Ég er alinn upp á Siglufirði og bjó þar í litlu húsi með foreldrum mínum. Eitt sinn þegar ég var sex ára vaknaði ég um miðja nótt og fór fram úr til að fara á klóið. Þá mætti hann mér á ganginum, þessi draugur, sem hefur fylgt mér síðan. Ég náði honum ekki alveg í þessu verki en ég veit að hann kemur aftur til mín.
En svo er verkið líka sjálfsmynd og talar inn í þessa tilfinningu að ég sé orðinn hálfókunnugur samfélaginu. Svolítið eins og draugur,“ segir Arthur og bætir við, léttur í bragði:
„En það hefur sína kosti að vera svolítið eins og draugur, því þá get ég séð draugana í kringum mig. Það er eitthvað sem ég mun halda áfram að rannsaka á næstunni. Draugar samtíðarinnar. En eins og ég sagði líka áðan þá veit ég ekki hvað verður til á striganum fyrr en það bara birtist.“
Barnæskan á Siglufirði er Arthuri afar kær þrátt fyrir draugaganginn og er hann sérstaklega ánægður með að hafa verið fenginn til að reisa þar verkið Síldarstúlkuna sem stendur á bryggjunni við Síldarminjasafnið. Þar var hún reist fyrir tveimur árum og stendur enn.
„Siglfirðingafélagið í Reykjavík bað mig um að koma með hugmynd að minnisvarða til heiðurs framlagi síldarstúlkunnar til íslensk efnahagslífs. Þar sem ég er kominn af fólki á síldarplaninu tók ég þetta að mér og öll vinna við verkið gekk ótrúlega vel,“ segir Arthur.
„Og ég er svo þakklátur öllum sem tóku þátt í Síldarstúlkuævintýrinu.“
Frá heimaslóðunum berst talið að lokum að íslenskri náttúru og náttúruvernd sem er Arthuri einnig afar hugleikin. Honum þykir leitt að hulduveröldin, sem að hans mati lýsir tengslum manns við náttúruna á einstaklega fallegan hátt, sé smám saman að hverfa úr hugum fólks.
„Náttúran er svo töfrandi. Við megum ekki skemma hana.“
Sýningin Draumur völvunnar var opnuð í byrjun mánaðar og stendur til 26. júní. Þá stendur samsýning norðlenskra listamanna á Listasafni Akureyrar, Mitt rými, til 14. september. Frekari upplýsingar er m.a. að finna á arthurra.se.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.