Lífið á að vera skemmtilegt, eins og þar stendur, og spennusagan Morð og messufall eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur kitlar oft hláturtaugarnar en minnir jafnframt á að öllu gamni fylgir nokkur alvara.
Kósíkrimminn snýst um lífið í kirkjunni í Grafarvogi og málefni sem henni tengjast. Mál málanna eins og náttúruhamfarir, heimilisaðstæður, barnauppeldi, ábyrgð, glæpi, opinbera kerfið, meðvirkni, þunglyndi, áfengisdrykkju og fleira ber á góma með írónísku ívafi, þar sem sumar persónur virka ljóslifandi í daglegu lífi. Að ekki sé talað um afgreiðslu mála hjá hinu opinbera.
Ekki er öllum gefið gott líf í vöggugjöf og margir alast upp á brotnum heimilum. Sumum reynist það ofraun en aðrir komast út úr vandanum reynslunni ríkari og vilja spjara sig. Sif, aðalpersóna sögunnar, tilheyrir síðarnefnda hópnum. Hún er guðfræðingur og einstæð móðir, sem hefur lifað fyrir soninn Matta og námið, og sækir um starf æskulýðsprests í Grafarvogi. Það virðist vera þrautin þyngri að fá starfið en hún er tilbúin að leggja allt í sölurnar í von um betri framtíð fyrir þau mæðginin.
Reynir sóknarprestur er algjör andstæða Sifjar, karlremba af gamla skólanum, sem saknar heimavinnandi húsmæðra og lætur hana snúast í kringum sig eins og skopparakringlu og ætlast til að hún sinni verkum sem koma í raun starfi prests lítt eða ekkert við. Hann er óborganleg risaeðla og sjálfsagt er leitun að persónu eins og Sif, sem tekur boðum hans af æðruleysi án þess að missa tökin.
Sami hroki ríkir í lögreglunni. Hrefna, vinkona Sifjar, er þar í starfsnámi undir ægivaldi Björns varðstjóra, sem er „norðan við sextugt“ rétt eins og séra Reynir, og þær verða að halda vinskapnum leyndum. Sem dæmi um framkomu yfirmanna má nefna að Sif er óbeint ráðlagt að hefja starfsferilinn á Raufarhöfn og þegar henni býðst að vera umsjónarmaður kirkjunnar er hún sannfærð um að hún verði ekki prestur heldur muni daga uppi sem kirkjuvörður.
Þegar Hrefna fer ekki að fyrirmælum sér hún fyrir sér drauminn um að verða rannsóknarlögreglumaður víkja fyrir starfi öryggisvarðar í Kringlunni. „Ég verð aldrei alvörulögga.“
Kormákur er lykilmaður í sókninni, að sögn Reynis, „allt í öllu“. Snemma kemur í ljós að hann er loddari, sem nær að kjafta sig inn á alla og beitir ýmsum brögðum til að ná settu marki. „Þessi góði drengur,“ eins og séra Reynir segir, er ekki allur þar sem hann er séður.
Hann er gott dæmi um svikahrappa og afleiðingar gjörða þeirra, en framkoma hans er jafnframt skírskotun í ýmislegt misjafnt sem átt hefur sér stað á meðal þjóna kirkjunnar um víða veröld. Og reyndar annars staðar líka.
Húsbyggjendur fá einnig að finna til tevatnsins. Kirkjugluggarnir gráta, pípulagnirnar springa og fúkkalyktin er óbærileg að ónefndri myglunni. Stebbi stillans á ekki dagana sæla, þegar næst í hann. Hann er enginn Guðjón Samúels, eins og vakin er athygli á.
Foreldar Sifjar eru kapítuli út af fyrir sig, óreglufólk, sem er öllum til ama. Hólmkell, faðir hennar, sér reyndar ekkert rangt við hegðun þeirra og kann að koma fyrir sig orði, er mjúkmjáll eins og Kormákur og ekki með rörsýn eins og aðrir, að eigin mati. Finnst eðlilegt að aðrir aðlagi sig að þeirra þörfum en ekki öfugt. Sif finnur til ábyrgðar en umburðarlyndi hennar á sín takmörk.
Sagan er í léttari kantinum fram yfir miðju en síðan tekur alvaran jafnt og þétt við og undir lokin er um harðsvíraðan krimma að ræða.
Í stuttu máli er Morð og messufall skondin gamansaga með alvarlegu ívafi. Írónísk ádeila á menn og verk þeirra. Persónusköpunin er góð og einkum eru Sif, séra Reynir, Kormákur, Hólmkell og einfeldningurinn Sigurður Áki eftirminnileg. Húmorinn leynir sér ekki en ýmsir skriflegir samningar stinga í stúf við heildina og sumt undir lok sögunnar hefði mátt setja á ís. En boðskapurinn er skýr.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.