Í Nýlistasafninu stendur nú yfir sýning á úrvali listaverka í eigu Safnasafnsins á Svalbarðseyri.
Um er að ræða verk eftir 26 myndlistarmenn sem flestir hafa staðið utan við hinn viðurkennda listaheim á Íslandi og hafa ýmist verið kallaðir alþýðulistamenn, næfir eða æskulistamenn.
Safnasafnið var stofnað af hjónunum Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur fyrir þrjátíu árum og er skilgreint sem „höfuðsafn íslenskrar alþýðulistar“. Núverandi sýning í Nýlistasafninu er uppgjör við sögu safnsins sem birtist í lýsingum og túlkun í sýningarskrá.
Verkin á sýningunni eru fjölbreytt að gerð: teikningar, málverk og útsaumur auk þrívíðra verka í timbur, leir, pappír og blönduð efni. Einkenni sýningarinnar er óbæld sköpunargleði þar sem listamennirnir tjá sig hver með sínu nefi.
Mörg verkanna eru óhefluð og ljóst að listamennirnir hafa ekki lært hefðbundin vinnubrögð myndlistar. Þrátt fyrir það er ljóst að nostrað hefur verið við verkin af einbeitingu. Sýningin krefst sérstakrar athygli áhorfandans vegna þess að fæst verkanna eru unnin í samræmi við mælikvarða myndlistarheimsins.
Í sýningarskrá er áhugavert viðtal við Níels Hafstein þar sem hann lýsir tilurð Safnasafnsins. Það spratt upp úr þörf á að vernda verk listamanna sem almennt þóttu fáfengileg. Verkin voru eftir fjölbreyttan hóp listamanna sem ekki fóru troðnar slóðir og fundu hjá sér hvöt til þess að tjá sig í myndum.
Margir voru frístundalistamenn, oft fólk sem sinnti myndlist til að gefa lífinu tilgang eftir að starfsævi lauk. Hluti myndhöfunda safnsins telst til utangarðsmanna sem sumir dvöldu langdvölum á stofnunum en fötlun þeirra og aðrar hindranir drógu ekki úr þörf þeirra til frumsköpunar.
Sú list sem ratað hefur í bækur um sögu listarinnar hefur einatt verið listin sem höfðað hefur til valdamanna. Þeir listamenn sem voru þeim þóknanlegir hlutu oftast stranga þjálfun í viðteknum aðferðum listsköpunar.
Ráðamenn studdu stöðu sína með því að byggja upp safn listaverka. Með tímanum, allt frá miðöldum, kom upp aukin krafa um að gildir listamenn væru frumlegir, tækju upp og nýttu sér nýjungar í listsköpun. Það er á þessum grunni sem saga listarinnar er rituð.
Til hliðar við þennan opinbera listaheim hefur alltaf verið rík þörf til listsköpunar hjá almenningi. Hún hefur oft lagað sig að smekk ráðamanna en hefur jafnframt fylgt eldri hefðum, verið íhaldssöm í framsetningu sinni. Á nítjándu öld, til dæmis, nýttu viðurkenndir listamenn sér list alþýðunnar sem áhrifavald, oft til að draga fram „þjóðleg“ einkenni. Þessi áhugi leiddi til þess að áhugi jókst á að vernda dæmi um list sem ekki taldist til fagurlista.
Rætur Safnasafnsins liggja í slíkri nútímahugsun, að þörf sé á að vernda og viðhalda myndlist sem ekki hefur hlotið viðurkenningu. Safnið varðveitir fjölmörg dæmi um frumlega hugsun og nýmæli sem búið er að útrýma hjá skóluðum listamönnum sem njóta almennrar viðurkenningar. Safnið sýnir þessi verk á sömu forsendum og verk þeirra sem teljast til viðurkenndra myndlistarmanna og fær þannig áhorfendur til að taka þau alvarlega.
Sýningarskrá tíundar í 15 liðum þematísk einkenni til að greina verk Safnasafnsins, til að túlka og skilgreina flóru alþýðu- og utangarðslistar. Flokkunarkerfið inniheldur þessar kategoríur: frumleiki, rannsókn, stæling, venja, handverk, eftirlíking, þjóðernishyggja, skreyti, sakleysi, íhald, frásögn, viðbragð, stemning, ýkjur, speki.
Ekki er tilgreint hvernig flokkunarkerfið á við einstök verk á sýningunni en áhorfanda boðið upp á að fylla í eyðurnar. Þessir flokkar eru áhugaverðir fyrir þær sakir að þeir ná að miklu leyti einnig yfir þá list sem talist hefur „viðurkennd“.
Með því að draga fram þessa kenningu setur sýningin spurningu við kerfi listarinnar í heild og virðingarstiga hennar. Það er að minnsta kosti ljóst af ummælum Níelsar í sýningarskrá að dæma að hann telur að þessi einkenni alþýðulistar eigi í auknum mæli við um marga þá sem hafa gengist undir formlegt listaháskólanám.
Í heildina má hrósa sýningarstjórum fyrir að bjóða okkur upp sýningu sem er bæði vel skipulögð og uppsett. Hópur listamannanna er fjölbreyttur og áhugaverður sem birtist vel í vandaðri framsetningu sýningarinnar.
Það fer vel á því að staðsetja þrívíðu verkin í sýningarkössum við súlur salarins, á upphækkunum á gólfi og í dramatískri uppsetningu á einum veggjanna. Málverk og teikningar eru settar upp á skýran og aðgengilegan hátt á milli þrívíðu verkanna.
Sýningarskráin er frumleg, hún veitir nauðsynlegar upplýsingar um verkin og listamennina auk þess að veita áhorfanda mikilvæga innsýn í forsendur Safnasafnsins, sem er mikilvægt til að ná að skilja sýninguna í heild.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.