Bandaríska söngkonan Sabrina Carpenter hefur valdið talsverðu fjaðrafoki með plötuumslagi nýjustu plötu sinnar, Man's Best Friend, sem kemur út í ágúst. Umslagið sýnir Carpenter á fjórum fótum, þar sem óþekktur karlmaður heldur þéttingsfast í ljósa hárið. Myndin hefur kallað fram harðar gagnrýnisraddir, sem lýsa henni sem niðrandi fyrir konur og upphafningu á karlmannslegu valdi.
Á sama tíma hafa aðrir aðdáendur og gagnrýnendur séð myndina sem skarpa ádeilu á þá hlutgervingu kvenna sem ríkir í skemmtanaiðnaðinum. Talsmenn þessa sjónarmiðs segja Carpenter einfaldlega vera að ögra samfélagslegum væntingum með kaldhæðni og satíru.
Sálfræðingurinn Katrina Muller-Townsend telur að mismunandi viðbrögð við plötuumslaginu stafi af því sem kallað er hugrænt ósamræmi.
„Þegar fólk upplifir ósamræmi milli væntingana sinna til Carpenter og þess sem það sér á þessari mynd, verður spennan til sem veldur því að fólk annaðhvort réttlætir eða hafnar myndinni alfarið,“ segir Muller-Townsend.
Þá hefur tónlistarkonan Carly Simon komið Carpenter til varnar í nýlegu viðtali við Rolling Stone og segir myndina alls ekki vera óviðeigandi miðað við sögu tónlistarheimsins og rifjaði upp umdeilt plötuumslag sitt frá 1975, sem vakti einnig hörð viðbrögð á sínum tíma.