Nýjasta og jafnframt önnur kvikmynd Celine Song í fullri lengd, Efnishyggjufólk, flokkast sem rómantík en sú kvikmyndagrein er vinsæl undirgrein, í spennu- og hryllingsmyndum er til dæmis oft líka einhver ástarsaga þótt hún sé ekki aðalviðfangsefnið. Gullöld rómantískra kvikmynda og sérstaklega rómantískra gamanmynda er hins vegar liðin.
Yfirleitt er talað um að gullöld rómantískra gamanmynda hafi byrjað með hinni klassísku kvikmynd Þegar Harry hitti Sally (e. When Harry Met Sally) eftir Noru Ephron árið 1989 og staðið í rúm 20 ár. Þá voru gerðar margar rómantískar gamanmyndir sem eru enn vinsælar í dag, eins og til dæmis Svefnlaus í Seattle (e. Sleepless in Seattle, 1993) eftir Noru Ephron, Notting Hill (1999) eftir Roger Michell og Hvernig maður losar sig við gæja á 10 dögum (e. How to Lose a Guy in 10 Days, 2003) eftir Donald Petrie svo að eitthvað sé nefnt.
Ýmsar tilraunir hafi verið gerðar til að endurvekja kvikmyndagreinina að fullu en það hefur ekki tekist. Sjarma fyrrnefndra kvikmynda virðist vanta í kvikmyndagreinina í dag, leikararnir eru aðeins of sykursætir og vel máli farnir og hin stafræna tökuvél gerir það að verkum að það er augljóst að um sé að ræða búninga og leikmynd og að aðalpersónan vakni fullkomlega förðuð í rúminu á hverjum morgni. Þessi sömu mistök eru gerð í nýjustu mynd Celine Song, Efnishyggjufólki.
Celine Song fékk mikið lof og margar tilnefningar fyrir fyrri mynd sína, Fyrra líf (e. Past Lives, 2023). Song hlaut til dæmis fimm tilnefningar á Golden Globe-verðlaununum, meðal annars fyrir bestu dramamyndina. Hún var líka tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu kvikmyndina og fyrir besta frumsamda handritið. Í nýjustu mynd sinni, Efnishyggjufólki, heldur hún áfram að skoða sjálfsmyndina, nútímasambönd og síðast en ekki síst fyrirbærið ást.
Kvikmyndin fjallar um hina ungu og fallegu Lucy (Dakota Johnson) sem er hjónabandsmiðlari, þ.e.a.s. hún vinnur við að para fólk saman. Lucy hefur hins vegar sjálf ekki áhuga á að fara í samband nema með mjög efnuðum manni. Í byrjun myndarinnar, í brúðkaupi hjá fólki sem hún paraði saman, hittir hún draumaprinsinn og fjárfestinn Harry Castillo (Pedro Pascal), bróður brúðgumans, sem sýnir henni áhuga.
Lucy hafnar honum fyrst og stingur frekar upp á því að hann verði viðskiptavinur hjá hjónabandsmiðlun hennar Adore. Í sama brúðkaupi hittir hún svo óvænt fyrrverandi kærasta sinn og eina manninn sem hún hefur orðið ástfangin af, John (Chris Evans). Hann vinnur þar sem þjónn en reynir samhliða því að eltast við draum sinn um að verða leikari. Lucy stendur frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að velja á milli fátæka fyrrverandi kærasta síns Johns og heillandi milljarðamæringsins Harrys. Lucy veit hins vegar ekki hvort hún á að hlusta á höfuðið eða hjartað.
Efnishyggjufólkið er skemmtileg áhorfs og það er gaman að sjá hvernig Celine Song leyfir sér að fara í klisjur greinarinnar með því til dæmis að nota mörg krúttleg rómantísk lög á borð við „Sweet Caroline“ eftir Neil Diamond, en hefur líka hugrekki til að gera eitthvað nýtt. Það er til dæmis engin löng myndflétta af ástfangna parinu að kynnast eða aðalpersónunni að prófa mismunandi dress, eins og tíðkast, þess í stað eru mörg hæg atriði þar sem áhorfendum er leyft að melta en það sýnir öryggi leikstjórans.
Hins vegar hefði líklega verið hægt að velja betur í hlutverkin svo að áhorfendur gætu tengt betur við persónurnar, sem er sérstaklega mikilvægt fyrir myndir innan greinarinnar því að rómantískar myndir eru oft mjög persónudrifnar.
Áhorfendur trúðu því til dæmis að þeir gætu heillað gömlu kvikmyndastjörnur rómantísku gamanmyndanna, Tom Hanks og Meg Ryan, upp úr skónum en þeir vita að þeir eiga ekki séns í Dakota Johnson, Chris Evans og hvað þá sjarmatröllið Pedro Pascal, enda mun fallegri og ríkari. Eða eins og hjónabandsráðgjafinn Lucy myndi segja: Reikningsdæmið gengur einfaldlega ekki upp.
Þetta gerir það að verkum að áhorfendur eiga erfitt með að samsama sig persónum. Undirrituð er ekki að gagnrýna leikarana fyrir að vera fallegir heldur er hún að gagnrýna leikstjórann, Song, og leikarana fyrir að takast ekki að sannfæra áhorfendur um að þeir eigi eitthvað sameiginlegt með persónunum, en þá á undirrituð sérstaklega við Lucy og John þar sem þau eiga að leika svokallaða „venjulega“ fólkið í myndinni.
Undirrituð sá til dæmis aldrei John heldur alltaf bara Chris Evans í hlutverki misheppnaða og blanka leikarans. Hann er farðaður og í búningi að lesa upp úr handriti en tekst hins vegar aldrei að koma persónunni til skila. Hans eigin persóna er alltaf fyrir. Efnishyggjufólk kemst ekki í sama klassa og rómantísku gamanmyndirnar sem við elskuðum á gullöld greinarinnar, en hún er engu að síður skemmtileg tilbreyting í heimi þar sem ofurhetju- og spennumyndir ráða ríkjum í bíóhúsum. Celine Song dregur fram sígild þemu eins og ást, sjálfsmynd og valið milli hjartans og skynseminnar og gerir það á einlægan hátt. Hún leyfir sér að leika sér með klisjur, en þorir líka að stokka upp í greininni.
Þrátt fyrir að aðalpersónurnar virki oft aðeins of glansandi og óaðgengilegar fyrir venjulegt fólk, og tengingin við raunveruleikann rofni stundum, er myndin samt hjartnæm og skemmtileg áhorfs. Hún er til dæmis tilvalin fyrir rómantíska kvöldstund, hvort sem það er með maka, fjölskyldu eða jafnvel á fyrsta stefnumóti.
Efnishyggjufólk skilur eftir sig spurningar um ást, lífsviðhorf og væntingar og jafnvel þótt hún marki ekki nýtt upphaf fyrir kvikmyndagreinina þá minnir hún okkur á hvers vegna við elskum rómantískar myndir.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.