Líkamsræktaráhrifavaldurinn Tammy Hembrow og raunveruleikastjarnan Matt Zukowski eru skilin eftir aðeins sjö mánaða hjónaband. Hembrow staðfesti þetta sjálf í myndbandi á TikTok þann 21. júní síðastliðinn og sagði þar að ákvörðunin væri henni erfið og hún myndi ekki ásaka neinn annan en sjálfa sig.
„Ég er með svo mikinn kvíða yfir þessu … ég ætla að skilja,“ sagði Hembrow meðal annars í myndbandinu. Hún bætti við að hún hefði ekki alltaf tekið bestu ákvarðanir þegar kæmi að samböndum en fyrir þetta hjónaband hefði hún verið trúlofuð tvisvar áður.
Hembrow hefur lengi verið áberandi á samfélagsmiðlum en hún hefur meðal annars vakið mikla athygli fyrir líkamsvöxt sinn og þá sérstaklega hvað hún hefur verið fljót að ná sér eftir meðgöngu barna hennar. Það virðist sem að líkami hennar sé fljótari en flestir að jafna sig eftir barnsburð.
Samband þeirra hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum en parið kynntist haustið 2023 og trúlofaði sig eftir aðeins þriggja mánaða samband. Þau giftu sig svo þann 23. nóvember 2024.
Zukowski, sem varð þekktur fyrir þátttöku sína í Love Island Australia, staðfesti skilnaðinn í færslu á Instagram.
„Við Tammy höfum ákveðið að skilja. Þetta var erfið ákvörðun fyrir okkur bæði en nauðsynleg fyrir okkur og börnin hennar þrjú,“ skrifaði Zukowski.
Eftir tilkynninguna hefur athygli beinst að framkomu Zukowski á samfélagsmiðlum. Hann hefur meðal annars líkað við athugasemdir frá aðdáendum hans sem fögnuðu nýfengnu „frelsi’’ hans og svarað öðrum athugasemdum sem margir túlkuðu sem óviðeigandi gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni. Þegar ein athugasemdin vísaði til Tammy sem „drauma-stelpan’’ svaraði Zukowski: „Þú þekkir hana ekki...“
Fólk á samfélagsmiðlum hefur velt mikið fyrir sér ástæðum skilnaðarins og reynt að fylla í eyðurnar. Margir fylgjendur hafa lýst yfir stuðningi við Hembrow og haldið því fram að Zukowski hafi nýtt sér frægð hennar. Aðrir hafa aftur á móti velt því fyrir sér af hverju hún virðist ítrekað kynna nýja maka fyrir fjölskyldunni og almenningi.