Það er stundum sagt að íhaldsmenn séu kenndir við „íhald“ vegna þess að þeir vilji einmitt „halda í“ það sem þeir þekkja og dá. Klassíski tónlistarheimurinn getur nefnilega verið mjög íhaldssamur (og skoðanir mínar og smekkur eru þar engin undantekning).
Þess vegna skal ég alveg fúslega viðurkenna að ég var efins þegar ég sá að Harpa auglýsti komu kammersveitarinnar Geneva Camerata með fimmtu sinfóníu Dmitríjs Shostakovítsj (1906-1975) í farteskinu. Og það var ekki bara það að kammersveit ætti að leika þetta risavaxna verk, heldur voru einnig dansarar með för og var boðað að þeir myndu taka þátt í flutningnum. Ég var ekki viss en það kom á daginn að efasemdir mínar voru byggðar á sandi.
Geneva Camerata er skipuð um það bil fimmtíu hljóðfæraleikurum en sveitin hefur einmitt vakið athygli fyrir nýstárlega nálgun sína á klassíska tónlist. Það var því ekki um að ræða 90 manna sinfóníuhljómsveit sem lék í hefðbundinni uppstillingu, heldur tóku hljóðfæraleikararnir þátt í sviðsetningunni (konseptinu) með dansi og hreyfingum ásamt dönsurunum. Í efnisskrá stóð að til yrði sýning „sem á engan sinn líka í hinum sinfóníska tónleikasal, ófyrirsjáanleg, gríðarlega spennandi og á köflum hættuleg!“ Þetta reyndist hverju orði sannara.
Áheyrendur í Eldborg fengu fyrst að heyra um það bil tólf mínútna verk, Battle Zone, eftir svissneska tónskáldið og básúnuleikarann Alexandre Mastrangelo (f. 1989). Hann er jafnframt einn hljóðfæraleikara í Geneva Camerata. Verkið er innblásið af krumpdansi en þar takast á andstæðir pólar í nokkurs konar danseinvígi.
Frá fyrstu töktum var greinilegt að um mjög rytmískt verk var að ræða og segja má að tónlist, dans, sviðshreyfingar og lýsing hafi þar runnið saman í eitt. Snúinn hjómsveitarparturinn, sem sveitin lék utanbókar, var mjög vel fluttur og raunar listilega vel útfærður. Þar kölluðust andstæður á í sífellu, kannski rétt eins og vinsælustu sinfóníu Shostakovítsj, þeirri fimmtu, sem var flutt strax í kjölfarið en það er verk sem ég þekki býsna vel.
Fyrir það fyrsta vil ég hrósa hljóðfæraleikurum Ceneva Camerata sérstaklega fyrir að leika verkið utanbókar, fumlaust, enda má segja að sviðsetningin hafi krafist þess að meðlimir sveitarinnar væru hreyfanlegir og þannig ekki háðir nótum á púlti. Ég veit satt best að segja ekki hvort fólk áttar sig á hvers konar afrek það er að leggja hljómsveitarpart fimmtu sinfóníu Shostakovítsj á minnið.
En hér með er þó málinu hvergi nærri lokið. Aftur, eins og í fyrra verkinu eftir Mastrangelo, tóku hljóðfæraleikararnir fullan þátt í sviðsetningunni, bæði með dansi og hreyfingum.
Sagan af tilurð fimmtu sinfóníunnar hefur margoft verið sögð. Í janúar árið 1936 birtist nafnlaus leiðari þar sem Shostakovítsj var úthrópaður og sakaður um að misbjóða áhorfendum, meðal annars með ómstríðum hljómum og ópum í óperunni Lafði Makbeð frá Mtsensk.
Fram að þessu hafði Shostakovítsj notið mikillar velgengni í Sovétríkjunum en leiðarinn gerði frægð hans að engu á örskotsstundu. Frumflutningi fjórðu sinfóníunnar (1936) var frestað og það var ekki fyrr en með fimmtu sinfóníunni (1937) sem frægðarsól hans tók að rísa aftur, enda var hún nefnd svar við réttmætri gagnrýni.
Fimmta sinfónían sló í gegn þegar hún var frumflutt í nóvember árið 1937. Ráðmenn í Kreml túlkuðu verkið sem glæsilega hetjuhljómkviðu um lífið í Sovétríkjunum en sjálfur á Shostakovítsj hins vegar að hafa sagt í meintum endurminningum sínum (Testimony) að sigurinn í lokatöktum verksins (það er að segja fögnuðurinn) sé í raun og veru þvingaður – þannig laminn áfram með kylfum – og sá sem skilji það ekki sé fífl.
Sýn hljómsveitarstjórans Davids Greilsammer á fimmtu sinfóníu Shostakovítsj var gríðarlega sannfærandi. Tökum fyrsta þáttinn sem dæmi: Lúshægur inngangur myndaði þannig skýra andstæðu við innkomu málmblásaranna þar sem hraðinn var aukinn. Greilsammer hægði svo aftur á í niðurlagi kaflans en allt skapaði þetta hárfína spennu sem túlkuð var af hipphopp-dönsurum og hljóðfæraleikurum á sífelldri hreyfingu á sviðinu.
Einleiksstrófur ólíkra hljóðfæra voru líka dregnar fram í kastljósið með því að láta viðkomandi hljóðfæraleikara standa berskjaldaða, stundum fremst á sviðinu, stundum uppi á flygli. Sama átti við þegar tvö hljóðfæri áttu með sér „samtal“, svo sem horn og flauta í fyrsta þætti.
Svonefndur krumpdans varð til vestur í Bandaríkjunum upp úr síðustu aldamótum en hann einkennist af áköfum og kraftmiklum hreyfingum. Á sínum tíma myndaði dansstíllinn nokkurs konar andsvar við kynþáttahyggju og lögregluofbeldi. Tilgangurinn var að tjá reiði og sorg yfir félagslegu óréttlæti. Hér er því komin bein hliðstæða við fimmtu sinfóníu Shostakovítsj en bæði hún og dansstíllinn komu fram sem mótmæli gegn ofríki og kúgun.
Flutningur Camerata Geneva var frábær. Sem fyrr segir léku hljóðfæraleikarar verkið utanbókar. Með því myndaðist sérstök kemestría milli sveitarinnar, dansara og hljómsveitarstjórans og þannig gátu hljóðfæraleikarar jafnvel leyft sér að snúa baki í stjórnandann endrum og sinnum (hann var líka á sífelldri hreyfingu á sviðinu).
Slíkt afrek er ekki á færi margra og það eru ströng skilyrði fyrir því að slíkt gangi yfirleitt upp. Hver og einn hljóðfæraleikari þarf ekki aðeins að kunna partinn sinn utanbókar (upp á tíu), heldur þurfa allir meðlimir sveitarinnar að hlusta á hvað aðrir eru að gera. Slíkt hlýtur alltaf að vera forsenda fyrir vel heppnuðum tónlistarflutningi.
Þar sem hljóðfæraleikarar voru sífellt á hreyfingu meðan á flutningnum stóð varð jafnvægið milli einstakra hljóðfærahópa ólíkt öllu því sem hlustendur eiga að venjast. Þannig lentu einstaka raddir í forgrunni sem liggja alla jafnan þétt grafnar undir þykkri hljómsveitarútfærslu Shostakovítsj og ég heyrði því margt sem hefur kannski ekki blasað beint við þegar fimmta sinfónían er flutt með hefðbundnum hætti.
Mikilvægast af öllu var samt „frásögnin“ í flutningi beggja verka: Hér blasti nístandi veruleikinn við, fullur af andstæðum sem túlkaðar voru í tónum og með dansi og lýsingu. Allt myndaði þetta eina heild eða nokkurs konar samruna hljóðheims og þess myndræna. Útkoman var einkar frumleg og eitthvað sem áheyrendur upplifa ekki annars staðar.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.