Margir þekkja Aðalheiði S. Eysteinsdóttur myndlistarmann fyrir tréskúlptúra og lágmyndir af mönnum og dýrum. Nú sýnir hún hins vegar á sér aðra hlið en hinn 27. júní verður opnuð sýning á 60 nýjum blýantsteikningum í Kaktus við Kaupvangsstræti á Akureyri.
Um eins konar rannsókn er að ræða en frá 14. febrúar til 15. mars sl. teiknaði Aðalheiður hádegisverð sinn annars vegar og hægðir sínar eins og þær litu út í salerninu um það bil 24 tímum síðar.
„Þessi sýning er hliðarskref. Fram til þessa hef ég verið að fjalla um rými, t.d. með innsetningum, en nú er ég að fjalla um mitt innra rými og hvað gerist þar. Við höfum öll þessar grunnþarfir sem snúast um að borða og maturinn sem við innbyrðum hefur mismunandi áhrif á okkur. Þá þurfa sumir að fylgjast með mataræðinu, eru með ofnæmi eða hafa einfaldlega ekki efni á að kaupa sér það sem þeir vilja borða. Fólk þarf þá að stilla sig inn á hvað má borða og hvað má ekki borða.
Ég er ein af þeim sem þarf að athuga mjög vel hvað ég borða en síðan er ég líka mikill áhugakokkur og finnst gaman að gera stórar veislur. Ég hef notað mat í alls kyns gjörninga í gegnum tíðina eða með nánast hverri einustu sýningu sem ég hef sett upp en þær skipta nú hundruðum.
Oftast er ég að vinna úr mat sem er aflagður og ekki hægt að selja í búðum. Hann er kannski kominn á síðasta söludag en ekkert þó athugavert við hann og með þessu er ég að vekja athygli á matarsóun og endurnýtingu. Fyrir sjö árum var ég t.d. með gjörning sem stóð yfir í þrjár vikur þar sem ég eldaði alla daga frá kl. 12 til 17 úr rusluðu fæði fyrir gesti og gangandi,“ segir Aðalheiður.
„Í vetur fór ég svo í sjálfsskoðun en með hækkandi aldri fer maður að hugsa um hvað er liðið, hvað er gengið, hvað maður hefur gert og hvað er eftir. Ég hef alltaf verið á fullu og stend fyrir mikilli menningarstarfsemi á Siglufirði allan ársins hring en þarna var ég stödd í gestavinnustofu í Bergen í Noregi þar sem ég náði að róa mig mikið niður og einbeita mér að sjálfri mér.
Ég fann mig knúna til þess að fylgjast mjög grannt með því sem ég borðaði og búa til dagatal þar sem ég tók stöðuna á því hvað fór inn og hvað út. Ég raðaði matnum upp á disk og var meðvitað að hugsa um myndbyggingu og svo 24 tímum síðar þá skilaði þetta sér í salernið.
Þetta gerði ég í mánuð til að sjá áhrif matarins á líkamann og þetta framtak fékk mig til að líta mér nær og horfast í augu við það hvernig maður lifir lífinu í raun og veru. Fyrr á öldum þóttu svona rannsóknir mjög mikilvægar og fólk skoðaði gjarnan saurinn sinn til þess að draga ályktanir um heilbrigði líkamans og við gerum þetta með ungbörn enn í dag. Þetta reyndist því mjög áhugaverð stúdía.“
„Þá fannst mér að fyrst ég var að fara í grunninn á frumþörfunum okkar þá væri líklega skemmtilegast að útfæra teikningarnar með þessu grunnverkfæri sem blýanturinn er. Eins fannst mér fallegt að hafa teikningarnar svarthvítar því það hlutleysir viðfangsefnin og saurinn og maturinn verða mjög lík.“
Gastu dregið einhverjar ályktanir eftir rannsóknina?
„Það er erfitt að alhæfa eitthvað þar sem þessi rannsókn tók ekki til alls matarins sem ég borðaði á tímabilinu heldur aðeins til hádegisverðar. En ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart hvað ég var yfirleitt að borða hollan mat og hversu reglulegar hægðirnar voru daglega.
Ég hélt mig vel við ákveðnar fæðutegundir og borðaði t.d. mikið af tómötum og avókadó og athöfnin að raða á diskinn varð virkilega hluti af sköpunarferlinu. Ég hlakkaði til alla daga að útbúa mér lítinn matarskúlptúr á disk. En aðaláhrifin af þessari vinnu voru á hugarástand mitt. Að ná að róa mig niður til núvitundar og njóta þess að teikna.“
Aðspurð hvort hún hafi ekki verið feimin eða hikandi við að berskjalda sig með þessum hætti segir Aðalheiður svo ekki vera. „Listamenn eru alltaf að berskjalda sig með öllum þeim listaverkum sem þeir skapa. Fyrst þegar ég var að byrja fannst mér þetta skrítið en svo urðu þessar teikningar bara svo fallegar og fyrir mér varð þetta alltaf eðlilegra og eðlilegra enda urðu þetta sextíu teikningar í heildina. Þá varð vinnan sjálf að einhvers konar hugleiðslu eða innhverfri íhugun og mér finnst þessi rósemd skila sér í verkunum.
Við erum yfirleitt feimin við allt það sem viðkemur okkur persónulega og ég viðurkenni alveg að þetta horfði líklega öðruvísi við ef ég væri ung og hraust kona. Ég er ekki að reyna að hneyksla neinn, verkin fjalla einfaldlega um eðlilegan hluta af lífinu. Hér er 62 ára gömul kona að fjalla um tilveru sína og ég held að fólki muni ekki verða misboðið. Ég hef alla tíð fjallað um lífið í kringum okkur og hvernig hlutirnir hafa áhrif á mann. Ég er ekki eina manneskja í heiminum sem er að hugsa um þetta ferli sem er sammannlegt og ég held að verkin höfði til margra sem hafa áhuga á næringu á einn eða annan hátt.“
Á opnuninni á föstudaginn verður Aðalheiður með gjörning. „Ég verð með þátttökugjörning þar sem ég mun bjóða gestum að búa sér til listrænan hádegisverð. Ég verð með allt hráefni og fólk getur raðað saman mat á disk og tekið myndir af honum. Vonandi verða til margir fallegir skúlptúrar úr hráefninu sem ég vonast til að geta fengið frá verslunum sem ætla sér ekki að selja matinn, t.d. vegna útlitsgalla, en oft er það þannig að ef paprika er aflöguð þá viljum við ekki kaupa hana.
Að endingu mun fólk borða listaverkin sín og þá snýst gjörningurinn líka um upplifunina sem fæst með að borða saman sem skiptir okkur svo miklu máli,“ segir Aðalheiður en þess ber að geta að sýningin í Kaktus stendur aðeins yfir þessa einu helgi og er opin frá kl. 12 til 17.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.