Leikarinn Justin Baldoni fékk leyfi dómara til að fá aðgang að einkaskilaboðum milli leikkonunnar Blake Lively og söngkonunnar Taylor Swift sem tengjast kvikmyndinni It Ends With Us.
Lagalegar deilur á milli leikara kvikmyndarinnar hafa staðið yfir síðan 2024. Deilurnar varða atvik sem átti sér stað við tökur á kvikmyndinni.
Baldoni, sem leikstýrði myndinni, höfðaði fyrst mál gegn Lively, eiginmanni hennar Ryan Reynolds og The New York Times eftir að leikkonan greindi opinberlega frá kynferðislegri áreitni hans.
Lively hafði áður leitað eftir verndarúrskurði til að koma í veg fyrir að deila textaskilaboðum sem lögfræðingar Baldoni óskuðu eftir. Rök Lively voru þau að samskiptin milli hennar og Swift væru málinu óviðkomandi.
Á miðvikudaginn úrskurðaði dómari að upplýsingarnar í skilaboðunum væru viðeigandi þar sem að Lively hefði sagt að Swift væri með vitneskju um kvartanir eða umræður um vinnuumhverfið við gerð kvikmyndarinnar.
Dómarinn vísaði á dögunum 400 milljóna dala gagnkröfu Baldoni gegn Lively, Reynolds og Times. Dómarinn gaf hins vegar teymi Baldoni annað tækifæri til að taka á tilteknum kröfum með því að leggja fram aðra kæru.
Lögfræðingar Lively lýstu í framhaldinu yfir sigri í málinu sem hefur vakið mikla reiði lögfræðiteymis Baldoni. Hvorki Lively né Baldoni hafa tjáð sig um málið.