Blá bergmál/Blue echo er yfirskrift sýningar Karenar Aspar Pálsdóttur í Þulu Hafnartorgi. Verkin eru olíumálverk unnin með kóbaltbláum lit.
„Ég hef unnið nær einungis með kóbaltbláan lit síðan 2019. Undantekning frá því er ein samsýning,“ segir Karen Ösp.
„Uppáhaldsliturinn minn er gulur en það er áhugi minn á litafræði sem veldur því að kóbaltblár varð fyrir valinu. Mér finnst saga þessa litar mjög áhugaverð. Hann var búinn til sem hinn fullkomni blái litur sem hentaði vel til að mála himininn.
Ég blanda litina mína fyrirfram og mér finnst þetta hinn fullkomni litur til að mála í mörgum tónum, hvort sem ég er með ljósan eða dökkan kóbaltbláan. Ef ég ynni með uppáhaldslitinn minn, gulan, þá fengi ég nær eingöngu brúna og pastelgula tóna.
Mér finnst skemmtileg áskorun að nota einn lit því þá þarf að passa að tónarnir verði ekki of ljósir eða of dökkir og áferðin þarf að fá að skína í gegn.“
Það má greina alls kyns smáatriði í myndum hennar.
„Þegar ég mála pæli ég alltaf mikið í tækninni. Stundum einblíni ég of mikið á hana og ég er að reyna að færa mig frá því. Núna er ég að láta málverkin líta meira út eins og málverk en ekki eins og ljósmyndir. Ég nota þrívíð módel til að búa til form sem ég set yfir myndina sem ég er að fara að mála og bý um leið til alls konar smáatriði sem verða dálítið brengluð. Mér finnst skemmtilegt að fókusera á ófullkomin smáatriði.“
Karen Ösp hefur sýnt víða, meðal annars í París, Annecy, London, New York og Reykjavík, bæði á einkasýningum og alþjóðlegum samsýningum. Verk hennar hafa einnig birst í fjölda tímarita og útgáfa, þar á meðal New American Paintings, Create! Magazine, SFMOMA, Hyperallergic og El País.
Hún lærði myndlist við Maryland Institute College of Art (MICA) í Baltimore þar sem hún lauk BFA-gráðu með aukagrein í listasögu árið 2013. Hún bjó tuttugu ár í Bandaríkjunum en er nú flutt heim til Íslands.
„Foreldrar mínir eru vísindamenn og fóru að vinna að krabbameinsrannsóknum í Bandaríkjunum og þar gekk ég í menntaskóla. Sem barn var ég alltaf að teikna og mála og málaði líka mikið í menntaskóla og svo fann ég góðan háskóla úti, MICA.“
Spurð hvernig hafi gengið að koma sér á framfæri í myndlistinni í Bandaríkjunum segist Karen Ösp hafa verið heppin.
„Það er erfiðara í Bandaríkjunum en hér heima að koma sér á framfæri sem listamaður. Ég bjó í New York og gat séð á hverjum degi sýningar með verkum uppáhaldslistamanna minna, sem var auðvitað dásamlegt. Tvær konur frá fyrirtækinu La Pera á Spáni sáu verk mín á auglýsingaskilti í Baltimore og höfðu samband við mig. Þær eru vel tengdar, komu mér á framfæri og seldu verk eftir mig.“
Nú er Karen Ösp flutt til Íslands.
„Það kallaði á mig að koma heim. Andrúmsloftið í Bandaríkjunum núna er ekki alveg eins skemmtilegt og það var. Þar er verðbólga og það hefur þrengt að varðandi margt. Ég kom heim í jólafrí og fannst svo gott að vera hér að ég ákvað að fara ekki aftur út í einhvern tíma. Svo var reyndar ekki skynsamlegt fyrir mig að fara á milli landa því í febrúar síðastliðnum sýndi ég í SÍM-salnum með vinkonu minni Petru Hjartardóttur sem er frábær listakona og svo er þessi sýning. Ásdís, sem rekur Þulu, hafði samband við mig í covid og ég átti að sýna þá en komst ekki heim í tvö ár. Nú er loksins komin sýning.“
Sýningin stendur til 12 júlí.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.