„Í A-sal Hafnarhússins stendur nú yfir sýning á vídeóverki Ragnars Kjartanssonar, „Heimsljós – líf og dauði listamanns“.
Verkið er fjögurra rása vídeóverk sem varpað er á fjóra fleti í kringum miðrými salarins. Verkið er allt hluti af sömu myndheild sem birtir sviðsetningu á senum úr skáldverki Halldórs Laxness, „Heimsljósi“. Þetta er í annað sinn sem verkið er sýnt í Listasafni Reykjavíkur, en það var upphaflega sýnt á yfirlitssýningu um feril Ragnars árið 2017. Ástæðan sem gefin er fyrir því að sýna verkið svo fljótt aftur er 70 ára afmæli Nóbelsverðlauna Halldórs, auk þess sem tíu ár eru liðin frá upphaflegri sýningu verksins.
Verkið varð til sem mánaðarlangur gjörningur á sýningu í TBA21 í Vínarborg árið 2014. Þar dvaldi Ragnar með hópi vina og bjó til sviðsetta mynd byggða á ritverki Laxness. Allan mánuðinn áttu gestir þess kost að fylgjast með æfingum, framsetningu og þróun verksins, sem allt var tekið upp á vídeó. Það efni varð hráefni núverandi innsetningar, um tuttugu klukkustunda verk sem skiptist í fjóra hluta sem allir eru sýndir samhliða.
Bakgrunnur Ragnars er fjölbreyttur. Hann ólst upp við leikhúslíf frá unga aldri og var virkur í hljómsveitarstarfi á unglingsárum, þar á meðal í hljómsveitinni „Trabant“ sem vakti athygli í upphafi aldarinnar. Þessir þættir hafa spilað stóra rullu í myndlistarþróun hans undanfarin ár; hann samtvinnar ólíka reynslu í gjörningatengdri myndlist sinni.
Hann vinnur gjarnan með klisjukennda þætti dægurmenningar og listhugmynda, ekki ólíkt mörgum samtímamanna sinna. Hann vinnur á beinskeyttan hátt og það er erfitt að greina kaldhæðni eða beina menningarkrítík í verkum hans. Þar má greina tengsl við bandaríska listamanninn Andy Warhol sem vann gjarnan með umdeild málefni en setti þau fram á blákaldan og oft fáránlegan hátt.
Sterkt þema í mörgum verkum Ragnars er hin klisjukennda hugmynd um hinn rómantíska listamann sem er misskilinn og þjáist fyrir snilligáfu sína. Þetta er grunnþemað í „Heimsljósi“, þar sem persóna Ólafs Kárasonar er misskilinn og auðmýktur listamaður sem Ragnar nýtir sér til að skapa myndrænar senur. Hér endurómar í verkinu rómantísk táknmynd íslenskrar þjóðernishugsunar.
Málverkið skipar mikilvægan sess í verkinu sem landslag í bakgrunni. Í sviðsetningunni birtist áhugaverð vísun í grundvöll íslenskrar málaralistar sem var í upphafi nátengd leikhúsinu. Á nítjándu öldinni og í upphafi þeirrar tuttugustu unnu fyrstu málararnir, þeir Sigurður Guðmundsson og Þórarinn B. Þorláksson, málverk sem voru sviðsmynd fyrstu leiksýninganna.
Uppsetning verksins byggist á leiknum senum sem vinir Ragnars og félagar til langs tíma taka þátt í. Ragnar sjálfur birtist sem nokkurs konar kynnir í gervi heimsmannsins. Þetta hlutverk hefur lengi verið gjörningapersóna hans; hann íklæddur fínum jakkafötum, með uppgreitt hár og rauða nellikku í hnappagati. Þessi persóna var til dæmis í meginhlutverki í verkinu „Guð“ í Nýlistasafninu árið 2007 þar sem Ragnar söng ítrekað sama harmþrungna stefið við undirleik djasshljómsveitar.
Í verkinu sem hér er til umfjöllunar vinnur Ragnar ekki með endurtekninguna á sama hátt og í mörgum öðrum verkum sínum og hann gerir hér meira til að brjóta upp heildarmyndina. Í þekktasta verki hans, „The Visitors“, er kvikmyndin sýnd á mörgum tjöldum í senn og atburðarásin er endurtekin í sífellu. Heildarmyndin er þó skýr og tímalegt samræmi á milli ólíkra mynda. Þar er hljóðrásin einnig ein. Í þessu verki er uppsetning aftur á móti þannig að heildarmyndin er stöðugt rofin.
Áhorfandinn getur ímyndað sér að um línulega framvindu sé að ræða, enda verið að fylgja skáldsögu. Þessi atburðarás er þó sífellt rofin með því að hlutir utan sögurammans trufla framvinduna. Hér ræður gjörningurinn ríkjum, atriði eru endurtekin og þættir sem tengjast gerð verksins rjúfa heildina, eins og það að hafa klippispjaldið með í endanlegri útgáfu.
Það skapar einnig rof að verkið er sýnt á fjórum skjám í einu og hljóðmyndin er sambland af öllum fjórum, ósamstæð. Þótt áhorfandinn geri sér far um að fylgjast með atburðarás í einni mynd í senn truflar það sem er að gerast í öðrum myndum upplifun hans. Það er því engin leið fyrir samviskusaman áhorfanda að ná utan um heildarmynd þessa tuttugu klukkustunda verks.
Ljóst er að verkið nýtur sín mun betur í núverandi sýningu í Hafnarhúsinu en það gerði fyrir sjö árum. Rýmisvirknin er mun sterkari og meira í ætt við sýningu verksins erlendis. Verkið er mikilvægur hlekkur í höfundarverki Ragnars, eitt af hans meginverkum.
Það má þó setja spurningarmerki við það hvers vegna ástæða þótti til að sýna verkið nú, einungis átta árum eftir að það var síðast sýnt hér á landi. Það má til dæmis sjá fyrir sér að þessari sýningu gætu fylgt nýrri verk sem gerðu fólki kleift að setja hana í nýtt samhengi, fremur en að tengja sýninguna, að nauðsynjalausu, við áfanga í lífi Halldórs Laxness.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.