Salteyri nefnist skáldaða þorpið á Vestfjörðum sem er sögusvið nýjustu bókar Júlíu Margrétar Einarsdóttur, Dúkkuverksmiðjunnar. Um er að ræða sannkallaða þorpssögu þar sem heilu samfélagi eru gerð skil og fellur hún vel að íslenskri bókmenntahefð.
Fyrir miðju sögunnar eru vinirnir Milla og Reynir sem hafa alist upp saman og í gegnum tíðina ýmist verið elskhugar eða ekki. Milla ólst upp í Dúkkuverksmiðjunni svokölluðu sem hýsir veitingastað þar sem foreldrar hennar, Stína og Grímur, ráða ríkjum. Milla var langþráð viðbót við það tvíeyki en hefur í gegnum tíðina reynt á þolinmæði þess. Lesendur kynnast einnig foreldrum Reynis sem og ýmsum öðrum bæjarbúum.
Það rúmast merkilega mikið í þó ekki lengri sögu. Hver persóna er dregin skýrt fram, með kostum og löstum, og Júlíu Margréti tekst á undraskömmum tíma að fá lesandann til að þykja vænt um alla þessa breysku þorpsbúa. Það er kannski helst Súsanna, starfsmaður á bensínstöð bæjarins, sem hefur ekki nógu skýrt hlutverk. Hún stendur aðeins utan við söguna og hennar baksaga skiptir minna máli fyrir framvinduna. Lesendur fá þó aðeins annað sjónarhorn á söguhetjurnar með samskiptum þeirra við Súsönnu.
Alvitur sögumannsröddin grípur mann á fyrstu síðu. Hún er fyrirferðarmikil, sérstaklega framan af og gefur sögunni skemmtilegan tón. Sagan hefst með skelli, það verður snjóflóð og óttast um manntjón.
„Til að þú áttir þig á því hvað Margrét Hrafnlilja óttast á þessum tímapunkti að hverfi af yfirborði jarðar þarftu að skilja samfélagið sem hún ólst upp í. Þú skilur Millu ef þú þekkir sögu Salteyrar. Sögu um ást, brostnar vonir og kramin hjörtu. Sögu um baneitrað slúður en líka kærleika og samstöðu í litlum smábæ á Vestfjörðum. Og hrafninn auðvitað, Tulugaq.“ (12)
Þar með hefst sagan, farið er aftur á bak í tímann og sögusviðið þrætt aftur á bak og áfram. Það lúra leyndarmál í þorpinu og sögumaðurinn afhjúpar þau á hárfínan hátt. Hann virðist hafa fullkomna stjórn á sögunni sem hann ætlar að segja.
Persónur bókarinnar eru hins vegar ekki með allt sitt á hreinu. Þær eru óþolandi lélegar í samskiptum og virðast aldrei ætla að geta sagt það sem þær eru að hugsa. En það fer þessari sögu vel og þjónar skýrum tilgangi. Þetta minnir svolítið á persónurnar í bókum írska metsöluhöfundarins Sally Rooney, ekki leiðum að líkjast. Tilfinningarnar eru á köflum yfirdrifnar en þær eiga sér skýringar sem eru afhjúpaðar þegar á líður.
Andrúmsloftið í sögunni er heillandi. Það er ákveðinn ljómi yfir Vestfjörðunum og þorpið verður að ævintýralegum stað. Persónurnar og atburðir eru svolítið ýktir og einhverjum gæti þótt þetta allt saman hálfótrúverðugt. En lesandinn verður hreinlega að leyfa sögumanninum að teyma sig áfram í gegnum þessa skrautlegu sögu því ferðalagið er sannarlega ómaksins vert.
Sagan minnir að mörgu leyti á síðustu skáldsögu Júlíu Margrétar, Guð leitar að Salóme, frá 2021. Aftur höfum við að gera með smábæjarsamfélag og sögu ólíkra kynslóða. Í báðum bókunum má finna nostalgískt sögusvið og forvitnilega fléttu með leyndarmáli sem er afhjúpað þegar líður á söguna.
Í káputexta Dúkkuverksmiðjunnar er Júlía Margrét sögð sögumaður af guðs náð og eftir að hafa lesið bókina er ég ekki frá því að ég skilji þessa fullyrðingu. Um miðbik sögunnar segir af móður og syni og er sá hluti áberandi vel heppnaður, sláandi sorglegur og ber vitni um færni og ekki síður tilfinninganæmi höfundar.
Það gengur næstum allt upp í þessari hlýlegu en dramatísku þorpssögu. Höfundurinn hefur tvennt á valdi sínu sem er lykilhráefni í góðri skáldsögu; að grípa lesandann og halda honum og fá hjarta hans til að slá í takt við söguna. Séu lesendur reiðubúnir að ganga skáldskapnum og lögmálum hans á hönd býður Júlía Margrét upp á þrælgóða lestrarupplifun með þessari nýjustu skáldsögu sinni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.