Eitthvað fútt virðist komið í líf leikarans Orlando Bloom eftir að hann og söngkonan Kate Perry slitu sambandi sínu til tíu ára í liðinni viku.
Breski leikarinn skrifaði orð á borð við: „nýtt upphaf“ og „að taka fyrsta skrefið“ í Instagram-sögu sína á mánudag.
Bloom virtist ekki taka sambandsslitin of nærri sér en hann var meðal ríka og fræga fólksins í Feneyjum í síðustu viku til að fagna brúðkaupi auðkýfingsins Jeff Bezos og Lauren Sánchez Bezos.
Sjónarvottar segja leikarann hafa tekið á því og skemmt sér svo vel að hann svitnaði í gleðinni. Félagi hans, stórleikarinn Leonardo DiCaprio, fylgdi honum á viðburðina tengdum brúðkaupinu og sáust þeir með Kardashian-systrum og leikkonunni Sydney Sweeney á hóteli þeirra í kjölfarið.
Á laugardaginn sáust svo Sweeney og Bloom á göngu saman í Feneyjum, ásamt fyrrverandi ruðningskappanum Tom Brady.