„Ég og meðhöfundur minn, hann Ólíver Þorsteinsson, skrifuðum söngleik, Ormstungu, saman á öðru árinu í náminu á sviðshöfundabraut þar sem við skoðuðum íslenskan bókmenntaarf, unnum hann út frá söngleikjaforminu og fundum nýjar leiðir til að sviðsetja svona eldri sögu upp á nýtt. Okkur finnst svo gaman að skoða þennan gamla íslenska arf og styrkja íslenska menningu með því að nota sögurnar sem við eigum til. Því langaði okkur að endurtaka leikinn en prófa að fara aðeins meira í nútímann,“ segir Hafsteinn Níelsson, höfundur og leikstjóri Þorskasögu, inntur eftir því hvernig hugmyndin að verkinu hafi kviknað en það var fyrst sett upp í Borgarleikhúsinu sem hluti af útskriftarverkefni Hafsteins í LHÍ.
„Okkur langaði að skoða sögulega atburði og máta þá við söngleikjaformið og miðla sögunni á nýjan og spennandi máta með söng, dansi og stæl.“
Þorskasaga er splunkunýr söngleikur, sem byggist á bókinni Þorskastríðin þrjú eftir Guðna Th. Jóhannesson, en í verkinu fá þorskarnir loksins að segja söguna. Er sýningin hluti af uppfærslum sviðslistahússins Afturámóti í sumar og verður hún frumsýnd í Háskólabíói annað kvöld, fimmtudaginn 3. júlí.
Leikarar eru þær Gúa Margrét Bjarnadóttir, Hildur Kaldalóns Björnsdóttir, Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Salka Gústafsdóttir og Sólbjört Sigurðardóttir sem fara með hlutverk gellanna Uggu, Rákar, Sporðu, Lýsu og Hrognhildar.
„Söngleikurinn er bráðfyndinn en einnig fræðandi þar sem við köfuðum djúpt í heimildarvinnu og unnum mikið upp úr bókinni hans Guðna. Þannig er farið vel með þennan ríka efnivið ásamt nútímalegum og hressilegum lögum sem gefa þessari sögu glænýtt líf,“ segir Hafsteinn til útskýringar.
„Við gerðum svolítið grín að þessu í fyrstu, það er að skrifa um þorskastríðin þar sem efnið er svolítið þurrt, en þegar Ólíver fór að leggjast yfir bókina sáum við svo mörg tækifæri til að skapa skemmtilegar sviðsetningar. Við áttuðum okkur á hvað þetta er mikilvæg saga og stór partur af íslenskri sögu, þessi landhelgisdeila. Þegar hugmyndin kviknaði að sviðsetja þorskastríðin út frá sjónarhóli þorskanna þá small eiginlega allt saman.“
Þá segir Hafsteinn íslenskan efnivið heilla þá félaga einna mest og þá sérstaklega að vinna eitthvað nýtt úr honum.
„Það er klárlega eitthvað sem við Ólíver brennum mikið fyrir. Þetta er lítið land en við eigum svo stórskemmtilegar sögur. Það er alveg með ólíkindum hvað við erum einstök þjóð.“
Hafsteinn og Ólíver sömdu einnig alla söngtexta í verkinu við átta frumsamin og glæný lög eftir Hafstein. Aðspurður í kjölfarið hvort hann sé með einhvern bakgrunn í tónlistinni segir hann svo vera.
„Ég er með grunnpróf í harmonikkuleik, tónfræði og söng en svo fór ég líka í söngleikjadeild hjá Sigurði Demetz. Þar kviknaði mikill áhugi á útsetningum á tónlist en þar skoðuðum við mikið kórraddanir og tónfræði. Þar hóf ég að kenna sjálfum mér á hljóma og útsetningar og dundaði mér við að semja. Þegar ég var yngri var ég meira að semja söngtexta og ljóð en ég er í hljómsveit sem heitir Kebabi Boys sem ég stofnaði 2019. En þegar ég byrjaði á sviðshöfundabraut og var búinn að semja alls konar lítil lög með hljómum þá komst ég að því að ef áhuginn væri fyrir hendi þá væri allt hægt. Maður finnur bara sína eigin leið að markmiðinu,“ segir hann og hlær.
Talið berst því næst að ólíku hlutverki höfundar og leikstjóra sem Hafsteinn segir alveg sitt hvorn hlutinn.
„Þegar þú ert höfundur má líkja því við að getnaðurinn sé í gangi en þegar þú ert kominn í leikstjórasætið hefst uppeldið. Auðvitað helst þetta samt í hendur, sérstaklega ef um er að ræða þitt eigið höfundarverk. Mér finnst mjög skemmtilegt að ögra mínu eigin höfundarverki í leikstjórasætinu og skoða fleiri fleti á því sem maður var kannski ekki alveg búinn að átta sig á þegar maður var að skrifa það,“ segir hann og bætir því við að hann kjósi alltaf að vinna í stórum hópi listrænna stjórnenda, eins og aðstoðarleikstjóra og tónlistarstjóra.
„Sem í þessu tilfelli eru þau Kristinn Óli S. Haraldsson og Kolbrún Óskarsdóttir, eða KUSK, sem kemur inn með sitt element í tónlistina. Manni líður aldrei eins og einhverjum brúðumeistara þegar maður er að leikstýra heldur er maður frekar eins og leiðsögumaður, að leiða verkið í þá átt sem það kýs að fara.
Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir leikstjóra að finna góðan kjarna í verkinu strax og treysta svo ferlinu og fólkinu í kring. Þetta á bara að vera skemmtilegt ferðalag þar sem allir eru samstiga.“
Spurður í framhaldinu út í helstu áskoranir sviðshöfunda segir hann þær alls konar.
„Sviðshöfundar snerta á öllum flötum sviðslista. Það er mikill lestur og fræði í náminu sem og akademísk skrif þar sem þú ert alltaf að skoða listina út frá einhverju fræðilegu samhengi. Sviðshöfundanemar eru líka í aðferðafræði þar sem þeir skapa með ýmiss konar aðferðum sem þeir læra af mismunandi kennurum. Maður lærir líka skrif og leikstjórn og um leið og áhugi kviknar á einhverri einni aðferð er maður hvattur til að tileinka sér hana. Á þriðja ári fáum við síðan svolítið að sleppa taumnum hvað kennsluna varðar og förum loks að móta okkar heildstæðu listrænu sýn,“ segir hann og tekur fram að sér hafi þótt fræðilesturinn í náminu einna erfiðastur.
„Og að setja sviðslistir, hvað þá mínar eigin sviðslistir, í sögulegt og fræðilegt samhengi. En svo kom þetta svolítið á þriðja árinu því maður er hvattur til að hugsa mikið, skrifa sínar hugleiðingar niður á blað og miðla þeim til allra. Í sviðshöfundanáminu er líka alls konar fólk með mismunandi bakgrunn, meðal annars úr myndlist, dansi, leiklist og gjörningalist.“
Ormstunga verður frumsýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins í janúar í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Byggist verkið á Gunnlaugs sögu Ormstungu og er eins og fyrr segir eftir þá Hafstein og Ólíver. Segir Hafsteinn þessa nemendasýningu þeirra félaga hafa slegið í gegn og verið sýnd þrisvar sinnum fyrir troðfullum sal.
Síðastliðið ár hafa þeir vinirnir, í samstarfi við Gísla Örn, svo unnið að áframhaldandi þróun verksins og fengu þeir Jóhann Damian R. Patreksson, eða JóaPé eins og flestir þekkja hann, til að taka að sér hlutverk tónlistarstjóra og meðhöfundar tónlistar.
Aðspurður hvernig tilfinning það sé að koma verki sínu strax að útskrift lokinni á Stóra sviðið segir Hafsteinn hana stórkostlega.
„Við erum enn að reyna að koma okkur af þessu bleika skýi en viljum bara helst ekki gera það,“ segir hann og skellihlær.
„Þessi hugmynd okkar var búin að vera lengi í smíðum. Hún vaknaði fyrst til lífsins árið 2020 þegar ég horfði á Hamilton í covidinu. Mig langaði að skapa einhvern sambærilegan íslenskan söngleik út frá einhverju sögulegu. Ég fór svo að skoða Íslendingasögurnar því systir mín var að lesa Gunnlaugs sögu í 8. bekk og sendi í kjölfarið snapchat-skilaboð á vini mína og spurði hver vildi skrifa söngleik með mér um þá sögu.
Ólíver var sá fyrsti sem svaraði kallinu en hann er með bakgrunn í bókmenntum svo hann var klárlega sú þversögn sem ég þurfti á að halda þar sem ég vinn meira út frá tónlist og ljóðum. Hann var því púslið sem mig vantaði.“
Að sögn Hafsteins gafst nemendum loks tækifæri til að setja sín eigin einstaklingsverk á svið á öðru ári í náminu.
„Fólkið í kringum mig fór því að hvetja mig áfram og kærastan mín, Hildur Kaldalóns, sem leikur eina af gellunum í Þorskasögu, var sú sem hvatti mig hvað mest áfram að láta vaða og setja Ormstungu upp. Ólíver var auðvitað mjög svo til í þetta en á generalprufunni, þegar hópurinn hittist allur og renndi verkinu í gegn, þá sáum við fyrst hvaða gull við vorum með í höndunum. Ég varð rosalega stoltur þegar við settum þetta upp í skólanum og manni leið alveg eins og einhverri prímadonnu á frumsýningunni,“ segir hann og nefnir að lokum að mikil eftirvænting sé fyrir frumsýningunni í Þjóðleikhúsinu í janúar.
„Það er mikill heiður að fá að sviðsetja tvo söngleiki eftir sjálfan sig á einu leikári. Þetta er svo sannarlega draumur að rætast og þá tala ég fyrir okkur Ólíver báða.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.