Nóg er að gera hjá Fannari Inga, forsprakka hljómsveitarinnar Hipsumhaps, en hann spilar nánast hverja einustu helgi í sumar. Samhliða því vinnur hann að sinni fjórðu plötu, heldur tónleika með átrúnaðargoðum sínum og stefnir í háskólanám í haust. Hann segir hlustanir á Hipsumhaps aldrei hafa verið fleiri. „Ég held að fólk sé loksins að fatta hvað þetta er gott stöff.“
Hann segist mikið koma fram í brúðkaupum. „Það eru eiginlega skemmtilegustu giggin. Fólk er hátt uppi og einhvern veginn lenda lögin mín vel á tímamótum,” segir Fannar í samtali við blaðamann. „Ég sá þetta samt ekki fyrir mér í byrjun, að ég yrði einhver wedding singer.”
Fjórða plata Hipsumhaps á að koma út á næsta ári. Fannar vinnur nú að því að skrifa hana og stefnir á tökur í haust. „Þetta verður örugglega persónulegasta platan hingað til,” segir hann.
„Ég er að kynna mér sögu íslenskrar tónlistar mikið. Íslensk tónlist hefur ekkert endilega verið mikill áhrifavaldur á tónlistina mína hingað til. Ég hef alltaf bara hlustað á útlenskt stöff. En það er ótrúlega mikið gull sem hægt er að finna, fallegar útsetningar, lög og textar,” segir Fannar. Á plötunni verði líklegast sterk áhrif frá níunda áratugnum.
Fannar Ingi sækir mikinn innblástur við lagasmíð í aðra tónlist. „Ég geri lagalista af lögum sem ég fíla fyrir hvert einasta lag áður en ég byrja að taka það upp. Á þeim lagalistum er allt á milli himins og jarðar, svona moodboard,” segir hann.
„Ég er ótrúlega áhrifagjarn. Ég heyri eitthvað og ég bara: ‚Þetta er geðveikt, mig langar að gera svona‘ og næsta dag heyri ég eitthvað allt annað og hugsa: ‚þetta er geðveikt, mig langar að gera svona‘.“ Nafn hljómsveitarinnar, Hipsumhaps, segir Fannar því mjög lýsandi fyrir sig.
Hipsumhaps stendur nú fyrir tónleikaseríu þar sem Fannar Ingi stígur á svið ásamt átrúnaðargoðum sínum úr íslensku tónlistarlífi. Hann segir hugmyndina hafa kviknað vegna þess að hann langaði að spila á fleiri tónleikum, Hipsumhaps sé tónleikaband.
„Það er nefnilega einhvers konar óskrifað hámark á flestum listamönnum varðandi það hversu reglulega þau geta fyllt tónleikasal, svo mér datt í hug að athuga hvort tónlistarfólk sem ég lít mikið upp til væri til í að prófa þetta með mér. Svo kemur bara í ljós að fólk er yndislegt,“ segir Fannar.
Tónleikarnir verða fjórir talsins og hófust með tónleikum Hipsumhaps og Bjartmars Guðlaugssonar í Bæjarbíói. 27. september stígur Fannar á svið með Pálma Gunnarssyni, sem hann kynntist fyrst þegar hann var fjögurra ára.
„Foreldrar mínir sáu einu sinni um veiðihúsið við Selá á Vopnafirði. Sumarið 1996 kom góður gestur að veiða í ánni, stórlaxinn sjálfur, Pálmi Gunnarsson. Ég var 4 ára að verða 5 svo ég man ekki mikið eftir þessu, en hann skutlaði mér í sund á veiðijeppanum sínum, öðlingurinn sem hann er. Það er alveg pínu súrrealísk pæling fyrir mér að tæpum 30 árum síðar sé ég að halda tónleika með honum í Hörpu,“ segir Fannar.
Seinna verða tónleikar með Ellen Kristjánsdóttur og Ragnhildi Gísladóttur. Aðspurður hvernig hann hefði valið tónlistarfólkið segir Fannar einfaldlega: „Þau eru bara öll ofboðslega nett.“
Fannar segir eitt það ánægjulegasta við tónleikaseríuna vera hvernig hún brúi kynslóðir. „Þetta er geggjað tækifæri fyrir fólk á mínum aldri að skella sér á tónleika með foreldrum sínum, fyrir eina kynslóð að kynnast tónlist hinnar“, segir hann.
Í stund milli stríða í sumar segist Fannar verða að prufa að fara í fargufu og fara til Vestmannaeyja að borða á Slippnum. „Síðan ætla ég bara að njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum. Það eru allir með einhver plön svo ég ætla bara svolítið að fylgja plönum annarra, fljóta með straumnum,” segir hann.
„Ég er síðan að byrja í MBA-námi í haust í HR. Fyrsta sinn sem ég ætla mér að klára háskólanám. En guð minn góður hvað ég hef oft borgað skólagjöldin.”