Það er komin nokkurs konar hefð fyrir því að Sönghátíð í Hafnarfirði ljúki með óperutónleikum og það var engin undantekning gerð á hátíðinni í ár. Hátíðin var sú níunda í röðinni en yfirlýst markmið hennar er „að koma list raddarinnar á framfæri með tónleikum og námskeiðum“. Af tvennum tónleikum sem ég sótti á hátíðinni í ár þori ég að fullyrða að þetta markmið náðist.
Á lokatónleikum hátíðarinnar, sem haldnir voru í Hafnarborg sunnudaginn 29. júní síðastliðinn, var boðið upp á býsna fjölbreytta dagskrá. Alls voru tólf atriði eftir átta tónskáld sungin úr óperum og óperettum en segja má að dagskráin hafi verið af léttara tagi.
Tónleikarnir hófust á þremur atriðum úr Rakaranum í Sevilla eftir Gioachino Rossini (1792-1868). Baritónsöngvarinn Jóhann Kristinsson reið á vaðið og fór á kostum í aríu Fígarós, „Largo al factotum“. Þá sungu þeir Jóhann og tenórinn Eggert Kjartansson býsna vel saman dúettinn „All'idea di quel metallo“ áður en Jóhann flutti dúettinn „Dunque io son“ með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur. Hann var ágætlega fluttur og bæði Jóhann og Guðrún Jóhanna leyfðu sér að draga seiminn öðru hvoru, sem er vel. Hér var ekki alveg sagt skilið við Rossini því eftir hlé fengu tónleikagestir að hlýða á Guðrúnu Jóhönnu syngja niðurlagið úr Öskubusku (Rossini), „Nacquì all'affanno … Non più mesta“. Flutningurinn hefði að ósekju mátt vera örlítið meira gangandi.
Eftir Rossini var komið að óperettum, fyrst dúettinn „Tanzen möcht’ ich“ úr Die Czàrdàsfürstin eftir Emmerich Kálmán (1882-1953) sem Bryndís Guðjónsdóttir og Eggert Kjartansson fluttu með nokkuð sannfærandi hætti. Hins vegar er Bryndís með töluvert stærri rödd en Eggert og jafnvægið milli þeirra var því á köflum ójafnt. Stærðin (e. volume) á rödd Bryndísar kom líka berlega í ljós í aríunni „Klänge der Heimat“ úr Leðurblökunni eftir Johann Strauss II (1825-1899). Hér var söngur Bryndísar hreint út sagt frábær og þó að annað á tónleikunum hafi oftast verið prýðilega flutt stóð þessi flutningur ofar öðru sem ég heyrði flutt í Hafnarborg að þessu sinni. Flutningur þeirra Bryndísar og Jóhanns á klukkudúettinum („Uhren-Duett“) úr sömu óperettu eftir Johann Strauss II var líka fínn og þó svo að söngurinn hér hafi kannski ekki náð sömu hæðum og arían var um að ræða einkar músíkalska túlkun.
Annað óperettuatriðið sem var flutt í Hafnarborg var svo dúettinn „Mein Liebeslied muss ein Walzer“ úr Im Weissen Rössl eftir Robert Stolz (1880-1975). Söngur þeirra Eggerts og Guðrúnar Jóhönnu var ágætur, ekki síst hæðin sem Eggert býr yfir og hljómaði alltaf áreynslulaus. Síðasta atriðið fyrir hlé var svo kvartettinn „Non ti fidar, o misera“ úr Don Giovanni eftir Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791), vel valið atriði. Allar raddirnar blönduðust vel saman og leikur og látbragð söngvaranna fjögurra var til fyrirmyndar.
Eftir hlé fengu áheyrendur að hlýða á afbragðsgóðan flutning Eggerts Kjartanssonar á „La fleur que tu m'avais jetée“ (blómaaríunni) úr Carmen eftir Georges Bizet (1838-1875). Þessi flutningur bar af því sem Eggert söng á tónleikunum í Hafnarborg.
Flutningur þeirra Guðrúnar Jóhönnu og Bryndísar á bátssöngnum „Belle nuit, ô nuit d'amour“ úr Ævintýrum Hoffmanns eftir Jacques Offenbach var góður og sýndi raunar enn og aftur hve rödd Bryndísar er stór. Að lokum stigu svo söngvararnir fjórir á svið og sungu kvartettinn „Bella figlia dell'amore“ úr Rigoletto eftir Giuseppe Verdi (1813-1901) og gerðu það vel (til að mynda var hrein unun að hlýða á algjörlega áreynslulausan söng Eggerts).
Fagnaðarlátum í Hafnarborg ætlaði aldrei að ljúka og fengu áheyrendur að taka þátt í flutningi á aukalaginu, Smávinum fögrum eftir Jón Nordal (1926-2024), en að lokum langar mig sérstaklega að hrósa píanista tónleikanna, Elenu Postumi. Meðleikur hennar var alltaf músíkalskur og þannig fylgdi hún söngvurunum í einu og öllu.
Ég vona að skipuleggjendur Sönghátíðar í Hafnarborg haldi sig áfram við þá hefð að enda hátíðina á óperutónleikum. Hún fagnar líka tíu ára afmæli á næsta ári og er raunar búin að festa sig rækilega í sessi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.