Bandaríska leikkonan Kristen Wiig fékk fólk til að gapa af undrun þegar hún fékk sér sæti á fremsta bekk, við hlið kanadísku tónlistarkonunnar Alanis Morrisette, á tískusýningu franska hátískuhússins Celine í París á sunnudag.
Ástæða þess var unglegt, glansandi og flekklaust útlit leikkonunnar, en Wiig, sem er hvað þekktust fyrir leik sinn í Saturday Night Live og kvikmyndum á borð við Bridesmaids, sem hún samdi ásamt handritshöfundinum og leikkonunni Annie Mumolo, Zoolander 2 og Ghostbusters, þykir hafa tekið miklum útlitsbreytingum undanfarið.
Wiig hefur aldrei viðurkennt að hafa gengist undir fegrunaraðgerðir þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, en fjölmargir lýtalæknar hafa fjallað um útlitsbreytingar Wiig í gegnum árin og staðfest þrálátan orðróm þess að leikkonan hafi lagst undir hnífinn og látið flikka upp á sig.
Leikkonan er sögð hafa farið í ennis- og/eða andlitslyftingu, nefaðgerð og augnlokalyftingu ásamt því að vera áskrifandi að fylliefnum til að draga úr hrukkum, móta varir, kinnbein og kjálkalínu.