„Við erum allar vinkonur úr Listaháskólanum, kynntumst þar og lærðum hjá sömu kennurum, svo það má eiginlega segja að við tölum allar sama tungumálið þegar kemur að tónlistinni,“ segir Bryndís Ásta Magnúsdóttir um nýstofnaða sviðslistahópinn Gjallanda sem setur upp óperuna Suor Angelica í þessari viku. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Bryndísi Ástu um sönginn, vináttuna og karllægar áherslur óperuheimsins.
Sviðslistahópurinn Gjallandi samanstendur af sjö ungum söngkonum, þeim Anne Keil, Ástu Sigríði Arnardóttur, Bryndísi Ástu Magnúsdóttur, Kristrúnu Guðmundsdóttur, Margréti Björk Daðadóttur, Ragnheiði Petru Óladóttur og Steinunni Maríu Þormar. Þær eru allar útskrifaðar úr Listaháskóla Íslands og starfa um þessar mundir ýmist við tónlist eða eru í framhaldsnámi.
Spurð hvers vegna nafnið Gjallandi hafi orðið fyrir valinu svarar Bryndís Ásta: „Þetta er auðvitað heiti á fossi, sem okkur fannst viðeigandi vegna þess að við lítum á starf okkar sem að mörgu leyti brautryðjandi. Svo er söng oft líkt við vatn eða öldur og í skólanum lærðum við til að mynda að hugsa loftflæði eins og vatnsflæði. Við vorum reyndar lengi að finna þetta nafn og það kom ekki til okkar fyrr en seint í æfingaferlinu, en þá vissum við líka strax að það smellpassaði.“
Þið kallið ykkur sviðslistahóp frekar en óperuflokk, hver er hugmyndin með því?
„Við viljum ekki afmarka okkur við óperuna heldur geta gefið okkur frelsi til þess að breyta til og setja til að mynda upp leikrit, tónleika eða tónleikauppfærslur á annars konar verkum inni á milli. Svo langar okkur líka að vinna með ólíku listafólki úr öllum áttum og fannst hugtakið sviðslistir þess vegna meira lýsandi fyrir hópinn en ópera.“
Bryndís Ásta segir frá því að það geti verið erfitt að fá vinnu sem söngkona á Íslandi, fleiri konur útskrifist úr söngnámi en karlar en kvenhlutverkin séu aftur á móti færri. Þær hafi því ákveðið taka málin í sínar eigin hendur og líta megi á Gjallanda sem ákveðið andsvar við þessu vandamáli.
„Hugmyndin er að gera eitthvað skapandi, þora að breyta til og brjóta forskrifaðar reglur óperuheimsins,“ segir Bryndís Ásta og bætir við eftir stutta umhugsun: „Auðvitað er alltaf mögnuð upplifun að sjá óperu í upprunalegri útgáfu sinni – en það þýðir ekki að það sé eina útgáfan sem á rétt á sér. Með því að breyta aðeins til er líka hægt að finna nýjar hliðar og vinkla á eldri verkum, sem býður upp á ótal tækifæri og okkur finnst ótrúlega spennandi.“
Suor Angelica varð fyrir valinu sem fyrsta sýning hópsins, en hún er ein fárra ópera sem einungis innihalda kvenhlutverk. „Við vorum lengi að velta fyrir okkur hvort við ættum að velja einhverja klassíska óperu, eins og til að mynda Hans og Grétu, og sérsníða hana að okkar röddum þannig að einhverjar myndu syngja karlhlutverk. En svo fórum við að skoða Suor Angelica og sáum að með því að sameina nokkur hlutverk hentaði verkið okkur afskaplega vel.“
Bryndís Ásta tekur fram að auk Gjallanda komi einungis konur að uppsetningunni: Ólína Ákadóttir leiki á píanó, Bryndís Guðjónsdóttir fari með listræna ráðgjöf, Matthildur Anna Gísladóttir sjái um óperuþjálfun og Andrea Pedersen sé ljósamaður.
Suor Angelica er ópera úr þríleik Puccinis Il Trittico og á sér stað yfir einn dag í 17. aldar klaustri á Ítalíu. Hún segir frá einrænu nunnunni Angelicu sem á lítið við hinar nunnurnar að sælda og býr yfir stóru leyndarmáli. Þegar frænka hennar birtist upp úr þurru í klaustrinu með óvæntar fréttir fer síðan allt úr böndunum. „Framan af er andrúmsloftið nokkuð rólegt en þegar frænkan kemur í heimsókn snýst allt á hvolf og daglegu lífi nunnanna er umturnað. Sagan verður dimm, dramatísk og töff,“ segir Bryndís Ásta og útskýrir að verkið hafi snert djúpt við öllum í hópnum. Meginviðfangsefnin, einmanaleika og söknuð, eigi flestir enda auðvelt með að tengja við.
„Þó að sögusviðið sé fjarlægt og nunnuklaustur á 17. öld virðist kannski í fljótu bragði ekki eiga margt sameiginlegt með Íslandi í dag, þá talaði verkið sterkt til okkar. Persónurnar upplifa vandamál sem eru bæði venjuleg og mennsk og ég held að flestir ættu að geta kannast við. Óperan, og tónlistin almennt, er einmitt svo frábær leið til þess að takast á við flóknar tilfinningar.“
Aðspurð segir Bryndís Ásta æfingaferlið og undirbúninginn hafa gengið vel. Mikið traust ríki innan hópsins enda þekkist söngkonurnar sjö vel og séu vanar því að vinna saman. „Við eigum auðvelt með að tala opinskátt hver við aðra og segja hvað okkur raunverulega finnst, sem er mjög dýrmætt. Svo erum við allar mjög frjóir hugsuðir og hugmyndirnar eru endalausar. Helsta áskorunin hefur kannski einmitt verið að læra að sleppa sumum hugmyndum og henda þeim í ruslið, sem ég held reyndar að sé hollur og nauðsynlegur lærdómur fyrir alla listamenn.
En svo langar mig líka að taka fram að við hefðum ekki getað gert þetta án þess að fá styrk úr menningarsjóði FÍH og Hvatningarsjóði fyrir unga hönnuði og listamenn í Garðabæ. Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar hjálpaði okkur líka alveg sérstaklega mikið.“
Og það er á Bryndísi Ástu að heyra að ævintýri Gjallanda séu rétt aðeins að hefjast. Járnin í eldinum eru mörg og draumarnir ófáir. Þá dreymir hópinn til að mynda um að ferðast með Suor Angelica um landið næsta sumar fái hann styrk fyrir því. „Það er nóg af hugmyndum í pottinum hjá okkur, það er bara spurning hvað við veljum. En ég get lofað því að þetta verður ekki það síðasta sem Gjallandi tekur sér fyrir hendur,“ segir Bryndís Ásta að lokum kímin.
Aðeins tvær sýningar á Suor Angelica eru á dagskrá eins og stendur, í kvöld kl. 20 og á föstudaginn kl. 20. Óperan verður sýnd í Tónlistarskóla Garðabæjar og fara miðakaup fram í gegnum tix.is.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.