Strangar reglur gilda nú um klæðaburð gesta í óperuhúsinu La Scala í Mílanó. Samkvæmt umfjöllun The Guardian mega gestir ekki klæðast stuttbuxum, hlýrabolum eða sandölum. Búið er að setja upp skilti við inngang óperuhússins þar sem gestir eru minntir á að klæðast í takt við tilefnið og að þeim sem klæðist fyrrnefndum fatnaði verði vísað á dyr og þeir fái ekki miða sína endurgreidda. Þessi sömu skilaboð eru líka á miðum og á heimasíðu óperuhússins.
Reglurnar voru fyrst kynntar árið 2015 til þess að koma í veg fyrir að fólk mætti á sundfötum en þeim hefur hins vegar ekki verið framfylgt fyrr en nú. „Það þarf að fylgja þessu eftir, sérstaklega nú þegar það er svona heitt úti,“ segir talsmaður óperunnar. „Það fer í taugarnar á mörgum að sjá fólk í óviðeigandi fötum, sérstaklega í rými sem er þéttsetið og nálægð mikil.“