Íslenskir dansarar hafa náð frábærum árangri á heimsmeistaramótinu í dansi, Dance World Cup, sem nú stendur yfir í Burgos á Spáni. Mótið, sem hófst 3. júlí og lýkur 13. júlí, er stærsta dansmót í heiminum með þátttöku yfir 120 þúsund dansara frá meira en 50 löndum í forkeppnum víða um heim. Alls fengu 8.500 dansarar rétt til að keppa í úrslitum í ár, þar af 192 frá Íslandi.
Í ár vann Ísland í fyrsta sinn verðlaun fyrir besta samanlagða árangurinn í flokknum Song and Dance, en þessi verðlaun eru veitt því landi sem nær bestu heildarframmistöðu í hverjum flokki fyrir sig. Sigurinn er sögulegur, enda hefur England unnið þennan flokk samfleytt svo lengi sem elstu menn muna.
Danshöfundurinn Chantelle Carey, sem skipuleggur þátttöku íslensku dansaranna, er gífurlega stolt af árangrinum.
„Það eru forréttindi að sjá þessa ungu dansara, danshöfunda og skólastjóra sigra á heimsvísu. Ísland er nú orðið eitt af leiðandi öflum á stærstu danskeppni heimsins. Hjartans hamingjuóskir til allra. Þetta er mikil viðurkenning og heiður fyrir Ísland,“ sagði hún.
Íslensku skólarnir sem tryggðu landinu þennan sögulega sigur í Song and Dance voru DansKompaní, Dansskóli Birnu Björns og Ungleikhúsið. Aðrir skólar sem keppa fyrir Íslands hönd á mótinu eru: Dansakademían, Danslistaskóli JSB og Menningafélag Húnaþings Vestra.
Skólarnir hafa einnig náð frábærum árangri í öðrum flokkum og hafa hlotið fjölda verðlauna. Árangurinn sýnir gæði og öflugt starf dans- og sviðslistaskólanna hér á landi.