Mara kemur í heimsókn nefnist ný ljóðabók rithöfundarins Natöshu S. og fjallar um heimkomu hennar til Rússlands eftir langa fjarveru. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Natöshu um bókaútgáfu á stríðstímum, ótta við ritskoðun og möruna sem hún segir hvíla á sér hverja stund.
Samtal okkar fer fram í gegnum fjarfundarbúnað enda er Natasha stödd í Moskvu um þessar mundir vegna veikinda föður síns sem bókin fjallar að stórum hluta um. Eftir nokkrar hringingar birtist hún brosmild á tölvuskjánum og heilsar hlýlega. Í bakgrunninum er hvítmálaður gluggi með útsýni yfir fallega verönd og gróðursælan garð. Ég hef orð á því að veðrið líti út fyrir að vera gott og Natasha svarar, eilítið sposk: „Tja, já, en það er samt óttaleg rigning, bara eins og á Íslandi.“
Það er á henni að heyra að hún sakni Íslands, en rúmt ár er nú liðið frá því að fjölskyldan fékk þær fréttir að krabbamein föður hennar færi versnandi og hún dreif sig af stað til Rússlands. Hún hafði þá verið búsett hér á landi í um áratug og látið til sín taka í íslenskri bókmenntasenu á þeim tíma, svo sem með ljóðabókinni Máltöku á stríðsímum (2022), ljóðasafninu Pólifónía af erlendum uppruna (2021) og greinasafni innflytjenda á Íslandi, Skáldreka (2023), sem hún ritstýrði.
Spurð hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að skrifa nýja ljóðabók svarar Natasha að fyrir því hafi verið nokkrar ástæður. „Ætli hugmyndin hafi ekki byrjað að mótast í kollinum þegar við fengum þær fréttir að pabbi væri kominn með meinvörp. Ég var á listamannalaunum þá og var svolítið á milli staða, mikið að ferðast og í vissu millibilsástandi. Á ferðalögum mínum rakst ég á þetta orð, mara, og varð alveg heltekin af því,“ segir Natasha og útskýrir að mara sé til á mörgum tungumálum og þýði eins konar næturdraugur eða óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Hún komi til dæmis fyrir í orðum eins og mar-tröð eða á ensku night-mare.
Upp frá þessu hafi maran síðan farið að elta hana á röndum og orðið yrkisefni nokkurra ljóða sem hún skrifaði á meðan hún var á Íslandi, þó ekki endilega með það fyrir augum að úr yrði heil bók. „Eftir að ég kom til Rússlands fann ég hins vegar að það var svo margt sem mig langaði að segja frá en mig vantaði einhvern vettvang. Þá fór ég að skrifa fleiri ljóð. Það var akkúrat smá hlé á öðru verkefni sem ég var í svo ég ákvað að nota tímann og skrifa ljóðabók. Mara, sem hafði fylgt mér um tíma, varð síðan persóna í bókinni.“
Hvað geturðu sagt mér meira um hana Möru? Hver er hún fyrir þér? „Hún Mara er eins konar þyngsl sem ég finn. Mér fannst hjálpa að sjá hana fyrir mér sem persónu sem ég get horft á og reynt að skilja. Það má segja að hún sé ákveðin tilraun mín til að gera þyngslin aðeins léttari. Og hún er ekki mjög næs persóna en smám saman fór ég samt að finna til með henni. Ég er heldur ekki sú eina sem á sér Möru, hana þekkja fleiri.“
Mara kemur í heimsókn er uppgjör við pólitískt og menningarlegt ástand, eins og segir einmitt í káputexta, en hún er sömuleiðis frásögn af margslungnu sambandi dóttur við foreldra sína. Í bókinni eru þó nokkur ljóð sem fjalla um ástina. Fannst þér mikilvægt að kærleikurinn fengi pláss í ljóðunum rétt eins og öll þyngslin og pólitísku spurningarnar? „Já, það fannst mér mikilvægt og kærleikurinn er einmitt líka stórt umfjöllunarefni í fyrri ljóðabókinni minni um stríðið, Máltöku á stríðstímum.
Þetta var meðvituð ákvörðun sem ég tók, að skapa rými fyrir ástina. Þegar ég kom til Rússlands var ég bæði óttaslegin og hrædd, þetta var rétt eftir að Navalní lést og það voru kosningar á næsta leiti, svo að ástandið var vægast sagt óstöðugt. Þrátt fyrir það ákvað ég að reyna að njóta þess að vera með pabba mínum, fjölskyldu og vinum í Rússlandi. Og njóta alls þess sem ég sakna þegar ég er á Íslandi.
Margir rússneskir vinir mínir sem búa í útlöndum hata allt sem kemur héðan og sniðganga allt rússneskt. Ég skil þau mjög vel því þessa dagana er svo auðvelt að hata – og svo margt að velja úr. Það krefst hins vegar meiri orku að elska. Hatur er sjálfseyðileggjandi tilfinning og ég vil ekki gefa mig henni algjörlega á vald eins og þau sem hefja stríð og drepa fólk og fremja stríðsglæpi. Ég vil helst skilja mig eins mikið frá þeim og hægt er. Að reyna þess vegna að elska líka en ekki bara að hata.“
Í bókinni er því lýst hvernig ljóðmælandi fer í gegnum gömul skilaboð, skráir sig út af samfélagsmiðlum og eyðir leitarsögunni á tölvunni áður en hún fer til Rússlands af ótta við að vera handsömuð af þarlendum stjórnvöldum. En óttaðistu að gefa bókina út? Varstu hrædd við ritskoðun? „Stundum. Það voru nokkur orð í bókinni sem við breyttum af því að við óttuðumst að þau væru of sterk. En óttinn er líka tól sem er notað til þess að hræða fólk og stoppa og ég nenni ekki að leika þann leik. Ég var mjög stressuð þegar Máltaka á stríðstímum kom út fyrir þremur árum en nú langar mig ekki lengur að vera hrædd. Ég skrifa auðvitað líka á íslensku sem fáir hér geta lesið.“
Þá segir Natasha frá því að um þessar mundir eigi sér stað ný bylgja ritskoðunar í Rússlandi. „Nýverið voru nokkrir útgefendur frá stórum útgáfuhúsum hér í Rússlandi handteknir og nokkrar sjálfstæðar bókabúðir fengu sekt vegna þess að þær voru að selja bækur með samkynhneigðum sögupersónum. Þetta er ný bylgja ritskoðunar og um leið tilraun til þess að hræða fólk í bókabransanum. Hún er að sjálfsögðu áhrifarík en ég held þó að það sé ekki hægt að þagga bókmenntaraddirnar algjörlega niður. Auðvitað er fólk samt hrætt og það verður sífellt erfiðara að gefa út bækur.“
Talið berst þá að voninni sem unnið getur gegn óttanum upp að vissu marki. Sjálf segist Natasha þó ekki bjartsýn á að ástandið batni. „Ég er ekki bjartsýn, en mér finnst ég samt sjá einhverja von. Til að mynda í bókmenntunum: nýlega las ég flestar þær skáldsögur sem komið hafa út í Rússlandi á síðustu tveimur árum og lýsa veruleikanum hér eftir að stríðið hófst. Það gefur mér von að þessar bækur komi út og séu lesnar.
En þetta með bjartsýnina er athyglisvert. Um daginn var ég að tala við gamla vinkonu mína héðan sem er ólétt og hún sagðist vera bjartsýn á að þessu færi öllu bráðum að ljúka og eitthvað annað og betra tæki við. Ég varð svo hissa vegna þess að það er sjaldgæft að heyra einhvern segjast vera bjartsýnn svona opinskátt. Og sjálf er ég ekki svo viss um að eitthvað betra muni taka við.
Svo er auðvitað annað, sem er að ef maður les ekki fréttirnar er lífið hér næstum því venjulegt. Þegar ég horfi í kringum mig sé ég glaðvær börn að leika sér á leikvöllum og fólk úti að labba með hundana sína í almenningsgörðum eins og ekkert sé, drekka með vinum sínum á bar, lesa bækur á kaffihúsum og fara í leiðsagnir um miðborgina. Það er ekki minnst á stríðið.“
Þú lýsir því meðal annars í bókinni hvernig veruleikasýn þín og foreldra þinna stangast á, en ykkur greinir meðal annars mikið á um pólitík. Hefurðu lesið ljóðin fyrir foreldra þína? „Nei, ég hef ekki gert það og held ég muni aldrei gera. Þau komust samt að því fyrir stuttu að þau gætu notað Google Translate til að þýða ljóðin mín og þá hugsaði ég bara: ó, nei.
Pabbi hefur lesið fyrsta ljóðið í bókinni, sem fjallar um það þegar hann greinist með meinvörp, og sagði að sér hefði fundist það dapurlegt. Við töluðum ekki meira um það en ég sagði að það væri kannski gott ef hann sleppti því að lesa restina af bókinni og hann féllst á það. Mamma hefur ekki sagt mér það en ég veit að hún hefur lesið eitthvað af ljóðunum. Ég vildi samt hálfpartinn líka að hún hefði látið það vera.“
Spilar þetta inn í þá ákvörðun þína að skrifa á íslensku? „Já, ég held það. En ég hef skrifað ljóð á rússnesku og ef ég á að segja eins og er leist mér bara alls ekkert á þau. Mér finnst ljóðin mín einfaldlega virka miklu betur á íslensku. Af hverju það er veit ég ekki, kannski hefur það eitthvað að gera með fjarlægðina, íslenskan er fjær mér og erfiðari en rússneskan. Þegar ég skrifa á íslensku þarf ég stöðugt að vera að stoppa og hugsa út í beygingar og réttan greini og önnur málfræðileg atriði og það getur tekið svo langan tíma því það eru hindranir í hverri setningu.
Það er auðveldara að skrifa prósa á rússnesku og ég er einmitt núna að vinna að sjálfsævisögulegri bók um innflytjendaferðalag mitt frá Rússlandi til Svíþjóðar og Íslands. Það hefur verið mjög frelsandi að geta bara sest niður og byrjað að skrifa án þess að hugsa of mikið út í tungumálið. En ég vona að með tímanum læri ég líka að skrifa ljóð á rússnesku.“
Áður en ég kveð Natöshu og þakka henni fyrir spjallið nefnir hún að margir hafi stungið upp á því að hún skrifi bók um Ísland núna á meðan hún er í Rússlandi. „En hún yrði þá kannski á rússnesku, svo það er ekki víst að margir vinir mínir á Íslandi myndu skilja hana,“ bætir hún við og hlær góðlátlega.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.