Breski stjörnuleikarinn Jason Isaacs hefur gagnrýnt aðdáendur Harry Potter fyrir dónalegar athugasemdir í garð leikarans Paapas Essiedu sem fer með hlutverk Severus Snape í nýrri þáttaröð um galdramanninn fræga. Segir Isaacs athugasemdirnar rasískar. Variety greinir frá.
Isaacs, sem tilnefndur er til Emmy-verðlaunanna í ár fyrir leik sinn í þriðju seríu HBO-þáttaraðarinnar White Lotus, er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem hinn illi Lucius Malfoy í kvikmyndunum um Harry Potter. Lýsti hann nýlega yfir ánægju sinni með að Paapa Essiedu hefði verið ráðinn í hlutverk prófessors Snapes og fordæmdi um leið viðbrögð aðdáenda sem hann sagði bæði dónaleg og einkennast af rasisma, en Essiedu er svartur á hörund. Þá vakti ráðning Essiedus, sem er ötull baráttumaður fyrir réttindum trans fólks, einnig spurningar um mögulegan árekstur við höfundinn J.K. Rowling vegna þekktra skoðana hennar á því málefni. Þáttaröðin er væntanleg á streymisveitu HBO á næsta ári.