Bandaríska leikkonan Sarah Michelle Geller, sem flestir þekkja úr unglingaþáttaröðinni Buffy the Vampire Slayer, minntist vinkonu sinnar og kollega, leikkonunnar Shannen Doherty, á Instagram-síðu sinni í gærdag, en eitt ár er liðið frá andláti Doherty.
Doherty, best þekkt fyrir leik sinn í þáttaröðunum Beverly Hills, 90210 og Charmed, lést þann 13. júlí á síðasta ári eftir margra ára baráttu við brjóstakrabbamein. Hún var 53 ára gömul.
Geller, sem stóð þétt við bakið á Doherty í gegnum veikindabaráttu hennar, deildi fallegu myndskeiði sem sýnir þær vinkonurnar í gegnum árin. Við myndskeiðið birti hún lyndistákn af brotnu hjarta.
Geller og Doherty kynntust á tíunda áratug 20. aldar þegar þær unnu fyrir framleiðslufyrirtækið Warner Bros. og ekki leið á löngu þar til mikill vinskapur tókst með þeim.