„Ég ætti nú ekki annað eftir en að hætta að skrifa, ég veit fátt skemmtilegra, og nú sit ég við skriftir á Eyrarbakka í litlu notalegu húsi sem rithöfundar geta skotist í til að vinna. Eyrarbakki er yndislegur staður og aðeins nokkur skref að ganga niður að sjó, ég er himinlifandi með þetta,“ segir Guðrún Hannesdóttir rithöfundur en nýlega gaf bókaútgáfan Dimma út heildarsafn ljóðabóka hennar, Ljóðasafn, sem geymir allar ljóðabækurnar tíu sem hún hefur sent frá sér undanfarin átján ár.
„Mér finnst tímamót að fá svona stóra bók, sjá og lesa þetta allt sem heild. Nú er ég að skoða mitt efni til að ákveða framhaldið, sem kallar á þó nokkuð grufl, ég þarf að endurnýja fókusinn pínulítið. Þegar ljóðin eru komin öll saman í eina bók þá sprettur munstrið í efnisvalinu fram, ég sé hvað mér hefur verið hugleiknast og kannski hefur mér smám saman orðið ljóst hvert ég ætla að stefna héðan í frá, ef Guð lofar. Það er ekki auðhlaupið að því, ég held að Thomas Mann hafi sagt að rithöfundur sé manneskja sem á erfiðara með að skrifa en annað fólk, og þó nokkuð til í því, þetta getur verið ansi mikil glíma. Ég hef meðfram ljóðagerðinni verið að þýða ljóð og allt mögulegt annað, sem ég ætla að halda áfram að gera,“ segir Guðrún sem var aðeins þriggja ára þegar hún skrifaði sitt fyrsta ljóð en þó kom fyrsta ljóðabókin hennar ekki út fyrr en hún var orðin rúmlega sextug.
„Það fer ekki hjá því að margt skýrist og sæki á þegar líður á ævina, fyrst og fremst er það hugsunin um þann trúnað sem maður verður að sýna sjálfum sér og sínu upplagi, halda sinni rödd til að ljóðin hafi einhvern styrk. Ég finn betur fyrir því þegar ég get skoðað ljóðin mín öll saman í einni bók, en þessar tíu ljóðabækur mínar hafa flestar selst upp og mér finnst alveg stórmerkilegt að sjá þær allar saman á einu bretti í þessu ljóðasafni. Ég er líka mjög ánægð með hversu myndarlega hefur verið staðið að þessari útgáfu, bókin er glæsileg og eftirmáli Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur finnst mér bæta miklu við bókina. Það er dýrmætt að geta þar lesið hennar greiningar á ljóðunum, sem ég á ekki auðvelt með að gera sjálf, en Bergljót hefur verið með auga á mínum ljóðum og skrifað um þau í gegnum tíðina.“
Guðrún segir að ljóðaskrif hennar séu sjálfsprottin, að hún sé aldrei að hugsa um viðtökur fólks, lesendur eða nokkuð annað á meðan hún setur saman ljóð.
„Þetta er bara allt saman inni í mínu höfði þar til það kemur út og birtist sem ljóð á blaði. Mér finnst aðalatriðið við ljóðagerðina að vera trú mínu upplagi, en af ljóðum mínum má vissulega sjá að ég er fædd fyrir margt löngu og að ég sæki í hluti sem eru kannski ekkert rosalega nútímalegir. Ég sæki mikið í bernskuminningar, enda eru hughrifin í bernsku sterk í manni alla tíð, í einhverju ljóði segir til dæmis frá því þegar lamb er markað með vasahníf, eitthvað sem þekkist ekki í dag. En ég skrifa líka ljóð um þjóðtrú og margt annað, einnig um nútímasamfélag og þær ógnir sem vofa yfir okkur núna. Ég er afskaplega hugsi yfir þeirri leið sem þjóðfélagið er á,“ segir Guðrún sem var í sveit á sumrin frá því hún var sjö ára og fram til unglingsára.
„Fyrir vikið eru ýmis dýr mér ofarlega í huga og þau birtast víða í ljóðum mínum. Einhverju sinni skoðaði ég og skrifaði niður hvað væri áberandi eða gegnumgangandi í ljóðunum mínum og niðurstaðan var þessi: Þjóðsöngurinn, þögnin, dauðinn, kýr og önnur dýr,“ segir Guðrún og hlær. „Ég er frá þeim tíma sem þjóðsöngurinn var spilaður í dagskrárlok útvarpsins daglega, en ég hef alltaf verið heilluð af kveðskap og orðum og var því kominn með þjóðsönginn á heilann. Hann birtist svo allt í einu á ská í fyrsta ljóðinu mínu, og jafnvel í síðasta ljóðinu líka, þetta finnst mér svolítið fyndið, ég hafði ekki alveg áttað mig á þessu fyrr en ég fór að skoða ljóðin eftir á.“
Þegar Guðrún er spurð að því hvort hún liggi lengi yfir smíði ljóðanna, meitli og lagi þau til, segir hún svo ekki vera.
„Ljóðin koma oftast nánast fullsköpuð þó ég snyrti þau auðvitað til. Ég hef safnað orðum og hugmyndum yfir langan tíma, svo er einhver neisti sem loks sýður þetta saman og allt í einu er það komið. Ég er ekki lengi að þessu, þannig séð, á meðan það er að komast á blað, þó allt hafi þetta lifað lengi með mér fram að því, alls konar hugmyndir og orð.“
Ljóð Guðrúnar bera þess meðal annars merki að hún tekur eftir hinu smáa í náttúrunni og það vekur hana til umhugsunar í stærra samhengi. Ljóðin hennar eru þrungin samkennd og næmni fyrir líðan annarra, bæði fólks og dýra. Hugsunin er djúp en þar er líka leiftrandi húmor.
„Ég hef haft áhyggjur af því að efnistökin í ljóðabókunum mínum væru tvístruð, hafði á tilfinningunni að ég þyrfti að skrifa heildstæða bók og ég gerði tilraun til þess einu sinni þegar ég skrifaði bók sem átti einvörðungu að vera um fugla, Slitur úr orðabók fugla, heitir hún. En það er ekki minn háttur að binda mig við eitthvað afmarkað. Mér finnst Bergljót ná að kjarna inntak minna ljóða þar sem hún segir í eftirmála Ljóðasafnsins að ég „yrki einfaldlega um það að vera í heiminum, landinu, náttúrunni, bókunum og ímyndunaraflinu, á lífi andspænis dauðanum og viðbrögðin við því öllu“.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.