Bandaríska leikkonan Kristen Bell er ein þeirra sem hlutu tilnefningu til Emmy-verðlaunanna á miðvikudag.
Bell, sem er hvað þekktust fyrir leik sinn í þáttaröðunum Veronica Mars og The Good Place, er tilnefnd í flokki leikkvenna í aðalhlutverki í gamanþáttaröð fyrir hlutverk sitt í Netflix-þáttunum Nobody Wants This.
Eiginmaður Bell, leikarinn og hlaðvarpsstjórnandinn Dax Shepard, óskaði eiginkonu sinni hjartanlega til hamingju með tilnefninguna á Instagram-síðu sinni skömmu eftir að þær voru gerðar opinberar.
Shepard birti heldur skondna mynd sem vakti mikla athygli á samfélagsmiðlasíðunni, en ljósmyndin sem um ræðir sýnir Bell nánast á evuklæðunum, klædd í háa sokka, að gera jógaæfingar í garðinum við heimili þeirra.
Við færsluna skrifaði hann: „Fólk veit kannski ekki allt sem gerist á bak við tjöldin til að skapa Emmy-tilnefnda frammistöðu eins og hjá Kristen. Þetta var kannski ekki beint hluti af þjálfun hennar en það virðist hafa gengið. TIL HAMINGJU!!!!!“
Leikkonurnar Uzo Adubo, Quinta Brunson, Ayo Edebiri og Jean Smart eru tilnefndar í sama flokki og Bell.
Emmy-verðlaunahátíðin verður haldin í 77. sinn 14. september í Los Angeles.