Undirrituð hefur aðeins séð eina aðra mynd um Ofurmanninn og það er Ofurmaðurinn III eftir Richard Lester frá 1983 þar sem Christopher Reeve leikur Clark Kent eða Ofurmanninn. Ástæðan fyrir því er að sú mynd varð eftir í spólusafninu sem hún fékk frá eldri bróður sínum. Þrátt fyrir að hafa ekki séð fleiri Ofurmannsmyndir áttar undirrituð sig á því hversu mikil ábyrgð það er að leikstýra kvikmynd um Ofurmanninn. Ofurhetjan kom fyrst fram í teiknimyndablaði árið 1938 og aðdáendahópur hennar er gríðarlega stór.
Leikstjóri þessarar nýjustu myndar, James Gunn, er þekktur fyrir að leikstýra frekar óhefðbundnum ofurhetjum eins og þeim í Útvörðum alheimsins (e. Guardians of the Galaxy, 2014-2023) og Sjálfseyðingarteyminu (e. The Suicide Squad, 2021). Það kom því kannski einhverjum á óvart að James Gunn skyldi valinn til að leikstýra og skrifa Ofurmannsmynd þar sem Ofurmaðurinn er ferkantaður, hvítur, gagnkynhneigður karlmaður. En eins og aðdáendur ofurhetjunnar vita, þá er Ofurmaðurinn geimvera og með því að leggja áherslu á að ofurhetjan sé ólögleg geimvera í Bandaríkjunum tekst James Gunn að gera samanburð við ólöglega innflytjendur í Bandaríkjunum sem bandaríska útlendingaeftirlitið (ICE) hefur handtekið, sett í gæsluvarðhald og vísað úr landi í miklum mæli nýverið. Gagnrýni Gunns á ICE er mjög áberandi í einu atriði þar sem Ofurmaðurinn gefur sig fram þegar grunur leikur á að hann ætli sér að yfirtaka heiminn en ekki vernda hann, sem er að sjálfsögðu lygi. Þegar Ofurmaðurinn gefur sig fram og er handtekinn gerir hann athugasemd við það að enginn hafi lesið honum réttindi sín en honum er þá bent á að þar sem hann sé ólögleg geimvera hafi hann engin réttindi þrátt fyrir að hafa búið í Bandaríkjunum frá því hann var ungbarn og þjónað þjóðinni alla sína ævi. Atriðið er dæmi um það sem James Gunn gerir svo vel í kvikmyndinni.
Sumir halda því fram að þessi mynd um Ofurmanninn sé líkust upprunalegu teiknimyndasögunum en samt tekst Gunn að segja stærri sögu með hverju atriði og varpa ljósi á raunveruleg vandamál samtímans. Sum atriðin virðast í fyrstu ekki hafa stærri merkingu, eins og til dæmis þegar áhorfendur komast að því að illmenni myndarinnar, Lex Luthor, sem Nicholas Hoult leikur listilega, er með marga apa í fullri vinnu við að eyðileggja orðspor Ofurmannsins með því að skrifa neikvæða statusa og athugasemdir um hann á netið. Það er auðvelt að líta fram hjá þessu atriði en það má líka skoða það sem gagnrýni á hættulegu samfélagsmiðlatröllin sem fela sig bak við skjáinn og apa hvert eftir öðru.
Undirrituð er síkvartandi í dómum sínum yfir því að ofurhetjumyndir séu að taka yfir kvikmyndaiðnaðinn en þessi útgáfa af Ofurmanninum er nákvæmlega það sem heimurinn þarf á að halda í dag. David Corenswet leikur hann í þetta skiptið og er fullkominn í hlutverkið. Honum tekst að leika ofurmenni sem er ekki síður viðkvæm og ljúf sál og það er einmitt það sem gerir hann að góðri ofurhetju og um leið mannlegan þrátt fyrir að hann sé í rauninni geimvera. Það er eitthvað virkilega sterkt og fallegt við það að gera eina af karlmannlegustu ofurhetjunum að svona mikilli tilfinningaveru.
Ofurmaðurinn eftir James Gunn er því ekki bara enn ein sagan um hetju sem þarf að bjarga jörðinni frá illmenni heldur saga um hetju sem þarf að svara fyrir gjörðir sínar jafnvel þótt þær séu góðar. Í byrjun myndarinnar er Ofurmaðurinn strax kominn í klemmu. Tilraunir hans til að stöðva stríð milli Boravíu og Jarhanpúr eru umdeildar, þar sem Bandaríkin eru í bandalagi með Boravíu. Illmennið Lex Luthor, sem græddi áður stórfé á vopnasölu til Boravíu, reynir nú að sannfæra bandaríska varnarmálaráðuneytið og almenning um að Ofurmaðurinn sé hættulegur. Átökin milli Boravíu og Jarhanpúr eru í brennidepli og undir lok myndarinnar má sjá íbúa Jarhanpúr, suma aðeins börn, nálgast landamærin með prik og steina, á meðan hermenn Boravíu beina rifflum að þeim. Hvorki James Gunn né nokkur í teyminu hefur opinberlega sagt að sagan fjalli um Ísrael eða Palestínu en margir áhorfendur hafa bent á líkindin.
Jafnvel þótt myndin sé beitt þá er hún jafnframt ótrúlega skemmtileg. Margar persónur sem aðdáendur þekkja úr teiknimyndasögunum koma fram og það er alltaf stutt í grínið, jafnvel þótt það sé mikið í húfi fyrir mannkynið. Tæknibrellurnar eru stundum gervilegar og hálfklaufalegar en áhorfendur fyrirgefa það þar sem myndin er svo skemmtileg og auk þess fylgir þeim líka einhver sjarmi. Ofurmaðurinn eftir James Gunn er, eins og fram hefur komið, hins vegar ekki bara afþreying; hún endurspeglar okkar raunveruleika. Með myndinni spyr Gunn áhorfendur erfiðra spurninga um valdamisvægi, réttlæti og mannúð og svarar þeim með hlýju, húmor og von.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.