Eitt orð
– einn steinn
í kalda á.
Einn steinn enn –
ég þarf marga steina
til að komast yfir.
Bókina Undir eplatrénu, með um eitt hundrað ljóðum norska skáldsins Olavs H. Hauge (1908-1994) þýddum af Gyrði Elíassyni, hef ég haft við höndina – á skrifborðinu, í bílnum eða á náttborðinu – síðan hún kom út í fyrravetur.
Ég hef notið þess að taka hana upp og lesa stöku ljóð eða þá mörg, endurlesa svo aftur og enn aftur; finna skýra hugsunina í fáguðum ljóðum þroskaðs skáldsins, heimssýninina í þeim og mennskuna, eins og þenjast út og skerpast. Ljóðið hér að ofan heitir einfaldlega „Eitt orð“ og má kallast dæmigert fyrir aðferð Hauges í þeim sem Gyrðir hefur valið að þýða – frumsamdar ljóðabækur hans urðu sjö og Gyrðir valdi að mestu úr þremur síðustu sem „jafnan eru taldar vega þyngst á metunum þegar verk skáldsins eru skoðuð í heild“, svo vitnað sé í káputexta. Starf skáldsins er Hauge hugleikið en líka notað sem myndmál í víðara ljósi, fyrir lífsgöngu mannsins, eins og hér þar sem hvert orð sem skáldið skrifar og verður að lokum að ljóði er jafnframt steinn í þá brú sem ferðalag mannsins gegnum lífið er.
Hauge var eitt dáðasta og áhrifamesta skáld Norðmanna á sinni tíð, virtur heima fyrir og þá hafa ljóð hans ferðast víða í þýðingum. Hann var fæddur í Ulvik í Harðangursfirði og bjó þar nær alla tíð; auk þess að helga líf sitt bókmenntum lærði hann garðyrkju og jarðrækt og vann við það, auk þess að rækta sinn eigin ávaxtagarð, og eru garðurinn og jurtir áberandi í skrifum hans. Þá var Hauge málamaður og varð stórvirkur ljóðaþýðandi, minnir þannig á Gyrði þýðanda hans á íslensku. Það vekur sífellt undrun þessa lesanda hvernig Gyrðir kemst yfir það, samhliða sínum frumskrifum, að þýða jafn mikið og hann gerir, bæði prósa og ljóð, en þetta er sjöunda bókin með ljóðaþýðingum frá hans hendi á aldarfjórðungi. Fjórar bókanna eru söfn með ljóðum margra skálda en auk þess að þýða þetta úrval ljóða Hauges hefur hann sett saman slíkt úrval með ljóðum Shuntaros Tanikawa og Ko Un.
Í bráðskemmtilegum formála rekur Gyrðir kynni sín af skáldskap og heimi Hauges í Ulvik. Þýðandinn heimsótti aldingarð skáldbróðurins, eplatrén sem vísað er til í titli bókarinnar, en fékk þó ekki að bragða síderinn eða eplavínið sem hann bruggaði – „hvernig Olav Hauge hafði tíma til að brugga þennan í vissum skilningi görótta drykk og eima jafnframt dýrasta skáldskap úr jafnvel einföldustu orðum samhliða er mér hulin ráðgáta“, skrifar Gyrðir. Og það er einmitt þetta, hvernig skáldið mótar dýrasta skáldskap úr jafnvel einföldustu orðum, sem hrífur við lesturinn á þýðingunum. Gyrðir segir síðar í formála sínum að ljóð þess stórskálds, sem Hauge svo sannarlega var, séu svo látlaus að „Einari Benediktssyni hefðu sennilega fallist hendur ef hann hefði verið settur í að leggja mat á yrkingar hans – var þó Hauge aðdáandi þess „stórslegna skálds okkar““, eins og sjá má í þessu ljóði hans um Herdísarvík sem er í bókinni:
„Við hús Einars Benediktssonar“
Lágstæð sól, háir himnar, nístandi vindur.
Víðáttumiklar hraunbreiður
undir þokuslungnum fjöllum
með fannarákum.
Í fjörunni rísa hvítir brimstrókar
við þverhníptar klappir.
Steinhleðsla liggur yfir hæðirnar,
fjósið hefur hefur grotnað niður, en
húsið stendur eftir.
Þannig er Herdísarvík þennan
desemberdag. Ég finn kaldan
gustinn frá ljóðum hans.
Ljóðin sem Gyrðir hefur snarað eru mörg, um eitt hundrað talsins, og mynda sterka og áhrifaríka heild sem gefur góða tilfinningu fyrir aðferð og rödd skáldsins, þótt hún hljómi hér á öðru máli (sem er þó býsna skylt nýnorskunni sem hann skrifaði á). Undirritaður kynntist skáldskap Hauges fyrst í bókinni Glermeistarinn sem vinur og skáldbróðir Gyrðis, Óskar Árni Óskarsson, þýddi (Bjartur, 2000). Í henni eru um fjörutíu ljóð en áhugavert að sjá að vinirnir þýða aðeins fáein þau sömu. Og sérstaka rannsókn þyrfti í að bera þau saman þótt strax sjáist hvernig stíleinkenni og orðfæri þýðendanna blandast við frummálið; ljóð sem hjá Óskari nefnist „Einn votviðrisdag staldra ég undir gömlu eikinni“ er hjá Gyrði „Ég staðnæmist undir gamalli eik á rigningardegi“. Niðurlag ljóðsins í þýðingu Óskars er svona: „Í dag stend ég hér regnvotur / laufið er byrjað að falla, / loftið mettað súrum raka, / ég finn dropana seytla / gegnum hárið.“ En hjá Gyrði eru sömu línur: „Í dag er ég ekki lengur þurr, / það er tekið að drjúpa af laufunum, / í loftinu er snörp, hrá lykt, / ég finn dropana / seytla gegnum hár mitt.“ Svona geta þýðingar verið ólíkar, eins og skáldin!
Jörðin, ljóðið, lífið. Þessi viðfangsefni birtast endurtekið í þeim ljóðum sem Gyrðir hefur þýtt eftir Hauge. Í einu knöppu yrkir hann um hugsun japanska skáldsins Issa, sem segist geta búist við að lifa mörgum lífum, verði hann góður, „en þetta hérna / ætla ég að nota / til ljóðagerðar“. Í öðru er ljóðmælandinn í lest og farþegi bendir honum á að þeir séu að fara yfir heimskautsbaug, sem kallar á hugsun um aldurinn og lífið sem styttist eftir því sem norðar dregur á lífsgöngunni: „Ég hefði ekki tekið eftir þessu / litla atviki, ef ég hefði ekki /orðið sjötugur um daginn.“
Myndmálið er oft fallega óvænt og líka skemmtilegt, eins og hér í ljóðinu „Svefn“, þar sem nóttin er ofn sem bakar þá sem sofa:
Við skulum láta okkur
líða inn í svefninn, inn
í kyrrlátan drauminn,
líða – tveir klumpar
af deigi inn í þann
góða ofn sem við
köllum nóttina.
Og vakna síðan að
morgni einsog
tveir gullnir hleifar!
Hauge beinir hugsun sinni líka stundum að samfélaginu, og getur verið beittur. Þarf bara þrjár línur hér í hinu örstutta ljóði „Valdamenn“ til að hneykslast á menntunarleysi, á menningarleysi og heimsku þeirra sem ráða:
Þeir sitja í sýsluráðinu,
og hafa ekki
einusinni lesið Platón.
En það er gróðurinn, eplatrén sem grasið, sem skáldið kemur endurtekið að og notar til að tjá hugsanir og tilfinningar til lífsins með áhrifaríkum hætti. Stutt og viðkvæmt sumarið er rétt komið hér hjá okkur og því kannski ögrandi að birta í lokin ljóð sem Hauge orti nærri ævilokum um „Sumarlok“, en það er svo lýsandi í einfaldleika sínum og tærri fegurð, hér í meðförum Gyrðis, að það er ekkert skrýtið að ljóðheimur skáldsins heilli lesendur hér sem annars staðar:
Fingurbjargarblómin
klingja sínum síðustu
rauðu bjöllum,
þessi kvöldvindur strýkur
gleymdu grasi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.