Yfirlýsing frá einum umtalaðasta manni í netheimum þessa stundina, Andy Byron, forstjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Astronomer, hefur verið á miklu flugi á samfélagsmiðlum síðustu klukkustundirnar.
Birtist hún á samfélagsmiðlasíðunni X í gærkvöldi.
Færslan var þó fljótlega fjarlægð, eða eftir að samtarfsmaður Byron, Taylor Jones, sagði hana ekkert annað en uppspuna í svari sínu til fréttavefsins Men's Journal.
Byron, sem er giftur tveggja barna faðir, komst óvænt í sviðsljósið fyrr í vikunni þegar hann birtist á stórum skjá á tónleikum ensku hljómsveitarinnar Coldplay í innilegum faðmlögum með samstarfskonu sinni, Kristin Cabot, yfirmanni mannauðsmála hjá fyrirtækinu, en myndskeið af atvikinu hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og ratað inn á síður fjölmiðla um allan heim.
Í yfirlýsingunni stóð eftirfarandi:
„Ég vil ræða stuttlega um atvikið sem hefur verið á flugi á netinu og vonbrigðin sem það hefur valdið.
Það sem átti að vera skemmtilegt kvöld, mikið af tónlist og gleði, breyttist í mistök sem áttu sér stað á mjög opinberum vettvangi. Ég vil biðja eiginkonu mína, fjölskyldu og teymið hjá Astronomer afsökunar. Þið eigið betra skilið frá mér sem maka, föður og sem leiðtoga.
Þetta er ekki sá sem ég vil vera eða hvernig ég vil koma fram fyrir hönd fyrirtækisins sem ég hjálpaði til við að koma á laggirnar. Ég ætla að taka mér tíma til að íhuga, axla ábyrgð og finna út næstu skref, bæði persónulega og faglega. Ég bið um friðhelgi á meðan ég fer í gegnum það ferli.
Ég vil einnig lýsa yfir áhyggjum mínum af því hversu ógnvekjandi það er að það sem átti að vera einkaatvik varð opinbert án míns samþykkis. Ég ber virðingu fyrir listamönnum og skemmtikröftum en ég vona að við getum öll hugsað dýpra um áhrifin af því að gera líf annarra að skemmtiatriði.”
Fjölmargir hafa deilt færslunni af yfirlýsingu Byron og þar á meðal grínistinn Loni Love.