Lovísa Ósk Gunnarsdóttir tekur við starfi listdansstjóra Íslenska dansflokksins 1. ágúst næstkomandi.
„Ég er þakklát og full tilhlökkunar fyrir komandi tímum. Ég starfaði sjálf sem dansari hjá Íslenska dansflokknum í um sextán ár og þykir því undurvænt um þessa stofnun. Það er mikil gróska í danssenunni á Íslandi í dag, við eigum dansara og danshöfunda á heimsmælikvarða og að mínu mati er það eitt af hlutverkum Íslenska dansflokksins að stuðla að framþróun í faginu og fóstra næringarríkan jarðveg fyrir danslistafólkið okkar til að vaxa og þroskast. Danslistin er stöðugt að endurskilgreina sig og mér finnst hugrekki og frumleiki einkenna senuna. Það er stöðugt verið að sprengja ramma og kanna nýjar leiðir til að vinna þvert á listgreinar.
Það felast líka ótal spennandi tækifæri í útrásinni. Dansinn er alþjóðlegt tungumál sem getur snert hug og hjörtu þvert á menningarheima, þvert á tungumál og á hverju ári eru íslensk dansverk sýnd víða um heim. Nú í sumar hefur Íslenski dansflokkurinn til að mynda bæði farið í sýningarferðalag til Noregs og er nýkominn frá Amsterdam þar sem hann sýndi á hinni virtu danshátíð Julidans. Með auknum sýningaferðum gefst dýrmætt tækifæri til að hafa áhrif á samtímann og um leið kynna listina, land og þjóð.
Ég hef einnig óbilandi trú á dansinum sem samfélagslegu afli og mig langar að styrkja samfélagslegar tengingar Íslenska dansflokksins á ólíkum sviðum, skapa tækifæri fyrir fólk að dansa með okkur og færa danslistina meira út í samfélagið,“ segir Lovísa Ósk.
Dansinn hefur alla tíð verið stór hluti af lífi hennar. „Á fyrsta aldursárinu var ég eyrnabólgubarn og það eina sem róaði mig var ef foreldrar mínir dönsuðu með mig í fanginu við taktfasta tónlist Boney M. Fjögurra ára gömul fór ég að halda danssýningar í stofunni heima, sex ára byrjaði ég í djassballett og stundaði svo samfellt dansnám þar til að ég útskrifaðist sem atvinnudansari 18 árum seinna og hef starfað við danslistina síðan.“
Lovísa lauk atvinnudansaranámi frá Balletakademian í Stokkhólmi árið 2002, meistaranámi í sviðslistum við Listaháskóla Íslands árið 2020 og 2022 lauk hún MPM-gráðu í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.
Lovísa var um árabil dansari í Íslenska dansflokknum en hefur einnig starfað sem sjálfstæður danshöfundur, dansari og listrænn stjórnandi. Hún hefur hlotið tilnefningar og verðlaun fyrir dansverk sín og túlkun.
Þegar hún var 39 ára slasaðist hún og neyddist til að hætta að dansa í dágóðan tíma.
„Ég var þá í fullu fjöri, starfandi hjá Íslenska dansflokknum og nýbúin að hrósa happi yfir því að vera enn með sterkan líkama og færni til að starfa sem atvinnudansari. Þrátt fyrir það hafði ég reglulega fengið spurninguna um hvað ég ætlaði að gera þegar að ég hætti að dansa, nánast eins og „best fyrir“-dagsetningin væri óumflýjanleg og handan við hornið og ekkert annað í stöðunni en að snúa sér að einhverju öðru.
Ég hef sjálfsagt storkað örlögunum því skömmu seinna fékk ég brjósklos í háls og mjóbak og var kippt úr leik. Ég þurfti hjálp við að standa á fætur og þekkti ekki lengur þennan líkama sem gat allt í einu varla hreyft sig. Bataskrefin voru hæg en eftir á að hyggja var þetta gjöf og opnaði nýjar dyr.
Til að koma mér aftur af stað byrjaði ég að þróa, ómeðvitað og út frá innsæinu, daglega æfingu. Þessi æfing snerist í stuttu máli um að fara út í göngutúr, leyfa lagi að koma til mín og dansa svo við lagið heima í stofu. Til að byrja með var dansinn hægur og stirður en hægt og rólega fór mér að líða betur og þetta varð mikilvægur hlekkur í endurhæfingunni. Ég fór líka að tengja á nýjan hátt við danssöguna mína því þegar hreyfigetan fór að aukast og hræðslan að minnka fóru að birtast, í þessum stofudansi, gömul spor og stílar frá ólíkum köflum dansferilsins míns. Nokkurs konar hlaðborð af minningum sem líkaminn var að bjóða mér upp á. Þetta vakti forvitni mína og ég fór að taka þennan daglega dans upp á símann minn til að reyna að skrásetja.
Á þessum tíma hélt ég líka að ég væri að byrja á breytingaskeiðinu og varð mjög hissa þegar ég uppgötvaði að ég hafði aldrei hugsað út í það og vissi sama og ekkert um það. Ég fór að lesa mér til og fékk þetta smá á heilann.
Eitt leiddi að öðru og ég upplifði sterka þörf fyrir að vinna úr reynslunni minni, skoða leiðir til tengjast reynslu og sögu líkamans betur eftir öll þessi ár sem dansari og kafa dýpra ofan í þetta blessaða breytingaskeið. Ég hætti því í dansflokknum og fór í meistaranám í sviðslistum.“
Útskriftarverkefni Lovísu Óskar úr sviðslistanáminu var dansverkið When the Bleeding Stops sem var formlega frumsýnt á Reykjavík Dance Festival árið 2021. Síðan þá hefur verkið verið sýnt í yfir 25 borgum í Evrópu við afar góðar viðtökur. Það komst til dæmis á topp 10 lista Guardian yfir bestu danssýningar ársins 2024.
„Þetta hefur verið mikið ævintýri. Eftir frumsýninguna í Reykjavík var okkur meðal annars boðið að koma á alþjóðlega danshátíð í Dublin þar sem stjórnendur ýmissa danshúsa, leikhúsa og hátíða mæta til að velja verk til sýninga. Eftir það byrjaði boltinn að rúlla og við höfum verið að ferðast um með verkið síðan.
Það skemmtilega við þessa sýningu er að hún tekur stöðugum breytingum því ásamt frábæra teyminu sem ferðast með mér frá Íslandi vinn ég á hverjum stað fyrir sig með konum á aldrinum 40-65 ára. Ég leiði þær rafrænt í gegnum daglegu dansæfinguna mína, þær senda mér dansmyndbönd og að lokum býð ég þeim á sviðið með okkur. Það er því stöðugt að bætast við efniviðinn og hver sýning er innblásin af þeim konum sem taka þátt á hverjum stað fyrir sig.
Í sýningunni erum við að fjalla um breytingaskeiðið og tíðahvörf en líka hvernig sjálfið okkar breytist eftir því sem við eldumst og hversu mikilvægt það er að fagna öllum aldursskeiðum.
Ég skal viðurkenna að ég átti alls ekki von á því þegar ég hætti í dansflokknum að sjö árum seinna yrði ég enn á sviðinu að ferðast um heiminn með danssýningu, enda innbyggt í mann að ferill dansarans sé stuttur og stundum talað um að dansarinn deyi tvisvar. Sem betur fer er þetta að breytast. Mér finnst danslistafólk vera að spyrna aðeins við þessari hugmyndafræði. Ef listin á að endurspegla lífið er eitthvað skakkt við það að danslistin endurspegli lífið einungis til fertugs,“ segir Lovísa Ósk.
Lovísa er nýkomin heim af danshátíðinni Julidans í Amsterdam, þar sem hún sýndi verk sitt ásamt því að fylgja eftir Íslenska dansflokknum sem sýndi verkið Rómeó og Júlíu í nærmynd eftir þær Ernu Ómarsdóttur fráfarandi listdansstjóra og Höllu Ólafsdóttur.
„Það var mjög gaman að verða vitni að því hvað danslist frá Íslandi var gert hátt undir höfði á þessari virtu danshátíð en nú tekur við smá sumarfrí og svo lokaundirbúningur fyrir næsta dansár sem ég hlakka til að kynna. Það er gaman að segja frá því að strax í haust mun Íslenski dansflokkurinn sýna aukasýningu af verðlaunasýningunni Hringir Orfeusar og annað slúður sem var valin sýning ársins á Grímuverðlaunahátíðinni í júní síðastliðnum. Þetta er í annað sinn sem danssýning hlýtur þessi aðalverðlaun Grímunnar og þetta er sýning sem engin má láta framhjá sér fara.“
Að lokum hvetur Lovísa Ósk alla til að dansa í sumarfríinu. „Fjölmargar rannsóknir sýna hvað dans hefur heilandi áhrif á líf og heilsu fólks og ég trúi því að heimurinn yrði aðeins betri ef við dönsuðum öll svolítið meira.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.