Skógarhöggsmaður og grískur guð

Pink Street Boys á Húrra.
Pink Street Boys á Húrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hófst í gær í óvenjuhlýju veðri miðað við árstíma. Fyrsti í hátíð var nær eingöngu íslenskur, aðeins einn erlendur tónlistarmaður á dagskrá, Vox Mod frá Seattle sem fór mikinn á litla tónleikastaðnum Húrra. Eins og alltaf þegar kemur að Airwaves þurfti að sníða sér dagskrá, velja og hafna og tók ofanritaður þá stefnu að sjá nokkrar hljómsveitir sem hann kunni engin deili á og/eða hafði aldrei séð á tónleikum, útlendinginn fyrrnefnda og rokkarana í Agent Fresco þar sem þeir senda brátt frá sér plötu. Eins og við var að búast kom margt skemmtilega á óvart og annað leiðinlega.

Fjörugur Vox Mod

Kvöldið hófst á Húrra fyrrnefndum, mátulega skítugum tónleikastað fyrir neðan Gaukinn á Tryggvagötu. Þar lék pönkrokksveitin Börn og fór fremst í flokki grænhærð söngkona sem virkaði feimin í fyrstu en sótti í sig veðrið er leið á tónleika. Leikur Barna var heldur stirður í fyrstu lögum en varð svo samstilltari. Lögin voru fulllík hvert öðru og samskipti söngkonunnar við gesti hefðu mátt vera meiri.

Á eftir Börnum, kl. 20, mætti Vox Mod til leiks, flutti dúndrandi taktfasta raftónlist og var í ógnarstuði. Einkar dansvænt hjá pilti en fáir gestir nenntu að hreyfa sig, vildu heldur sötra bjór og fylgjast með Vox Mod hamast líkt og hann væri sjálfur Dýri í Prúðuleikunum. Fullsnemmt fyrir næturklúbbsstemningu, að því er virtist. Vox Mod ræddi við gesti milli laga, virkaði hinn mesti ljúflingur, sagðist m.a. hafa gleymt að hringja í afa sinn sem ætti áttræðisafmæli og óska honum til hamingju.

Á Gauknum hamaðist harðkjarnasveitin Conflictions sem mest hún mátti, hljómsveit sem landaði 3. sæti í síðustu Músíktilraunum. Þau örfáu lög sem blaðamaður heyrði heilluðu ekki, þó söngvarinn gæfi sig sannarlega allan í flutninginn og hvetti ítrekað til partíhalds.

,,Getur einhver stöðvað þennan náunga!“

Í sætalausu Gamla bíói beið fyrsti óvænti glaðningur kvöldsins, Júníus Meyvant ásamt níu manna hljómsveit. Júníus Meyvant er listamannsnafn Unnars Gísla Sigurmundssonar og fer þar tónlistar- og myndlistarmaður sem vert er að fylgjast með. Blaðamaður þekkti aðeins eitt lag með Júníusi, hið mjög svo grípandi „Color Decay“ og langaði að heyra fleiri. Var það allt saman prýðilegt, hljómsveitin vel samstillt og m.a. með þrjá blásara og fiðluleikara innanborðs. Júníus og félagar fluttu sálarskotna alþýðupopptónlist (eða eitthvað í þá veru). Jók hún vellíðan enda eflaust til þess gerð. 

Það var stutt í grínið hjá Unnari/Júníusi, hann spurði m.a. hversu margir gestir væru frá Trékyllisvík og í eitt skiptið benti hann óvænt út í salinn og sagði æstur: „Getur einhver stöðvað þennan náunga! Hann skuldar okkur peninga!“. Og talandi um peninga þá sagðist Júníus hafa borgað fjölskyldu sinni fyrir að koma á tónleikana.

Næstu tónleikar í Gamla bíói voru með Agent Fresco og tilkynnti Arnór Dan, söngvari sveitarinnar, að hljómsveitin myndi aðeins leika lög af væntanlegri plötu og að rauði þráðurinn í textasmíðinni væru samtöl hans við sjálfan sig og neikvæðar tilfinningar. Þungur þráður það. Lögin nýju voru nokkuð krefjandi áheyrnar, óvenjulegur trommutaktur líkt og einkennt hefur lög hljómsveitarinnar áður og Arnór fullmálglaður milli laga, í ljósi þess hversu stuttan tíma hljómsveitin hafði til leiks.

<a href="https://instagram.com/p/vCgirZm9Eh/" target="_top">What a finish!!! FM Belfast at gamla bio #airwaves14 @fmbelfast</a>

A video posted by icelandairwaves (@icelandairwaves) on Nov 11, 2014 at 5:05pm PST

Trymbill á nærhaldinu

Harpa var stútfull af Airwaves-gestum enda leikið í þremur sölum. Fyrir tónleika Ásgeirs (sem áður hét Ásgeir Trausti) mynduðust mjög langar biðraðir og hafa eflaust færri komist á Ásgeir en vildu. Blaðamaður ákvað að skera sig úr fjöldanum og sjá heldur Árna í öðru veldi í Kaldalóni, þ.e. Árna Val og Árna Grétar. Sveimteknó þeirra félaga, skreytt með myndbandi af sjávarföllum, var allt að því dáleiðandi, þyngdist er á leið með margs konar furðuhljóðum. Flott tónlist en hélt þó blaðamanni ekki í sætinu nema í um korter. Hvar var eiginlega fjörið?

Jú, það var auðvitað á Húrra í boði Pink Street Boys, hljómsveitar sem blaðamaður hafði aldrei heyrt minnst á fyrr en hann fór að skoða dagskrá Airwaves. Á vef hátíðarinnar segir að Pink Street Boys leiki HÁVÆRA tónlist, svo háværa að það sé oftast nær ólöglegt. Kraftinum líkt við spark í magann. Það reyndist rétt lýsing. Söngvari og gítarleikari sveitarinnar fór hamförum í söng, gítarleik og svívirðingum. „Fuck you!“ heyrðist oftar en einu sinni, þ.e. ef blaðamaður heyrði rétt í gegnum nauðsynlega eyrnatappa. Löngutangir fór oftar en einu sinni á loft á hinum fúlskeggjaða gítarleikara, til frekari áherslu, á milli þess sem hann lét gítarinn grenja.

<a href="https://instagram.com/p/vCWnHUlboT/" target="_top">PINK STREET NOISE!!! #airwaves14</a>

A video posted by Reykjavik Grapevine (@rvkgrapevine) on Nov 11, 2014 at 3:38pm PST

Pink Street Boys var býsna skrautleg að sjá, fyrrnefndur gítarleikari eins og ofvirkur skógarhöggsmaður en trymbillinn, á nærbuxum einum klæða, líkari grískum guði. Sá hniklaði vöðvana að loknum tónleikum, gestum til mikillar gleði og þá ekki síst ungum konum. Rokkið var fjölbreytt, flutningur hljómsveitarinnar kraftmikill og innlifunin mikil. Bleikstrætisdrengir segjast vera háværasta hljómsveit Íslands. Ekki hefur það verið vísindalega staðfest, svo vitað sé til, en hún er ábyggilega með þeim allra háværustu.

Júníus Meyvant ásamt níu manna hljómsveit í Gamla bíói.
Júníus Meyvant ásamt níu manna hljómsveit í Gamla bíói. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Pönksveitin Börn á Gauknum í gærkvöldi.
Pönksveitin Börn á Gauknum í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Goðum líkur trymbill Pink Street Boys.
Goðum líkur trymbill Pink Street Boys. Eggert Jóhannesson
Afastrákurinn Vox Mod.
Afastrákurinn Vox Mod. Eggert Jóhannesson
Gestir gerðu góðan róm að Pink Street Boys á Húrra.
Gestir gerðu góðan róm að Pink Street Boys á Húrra. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Forðastu allar skyndiákvarðanir í fjármálum og gættu þess að hafa þá með í ráðum sem máli skipta. Hikaðu ekki við að bera hugmyndir undir fólk sem þú treystir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Forðastu allar skyndiákvarðanir í fjármálum og gættu þess að hafa þá með í ráðum sem máli skipta. Hikaðu ekki við að bera hugmyndir undir fólk sem þú treystir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney