Sitjum öll við sama borð

Hans klaufi (Sigsteinn Sigurbergsson) og Aron prins (Stefán Benedikt Vilhelmsson).
Hans klaufi (Sigsteinn Sigurbergsson) og Aron prins (Stefán Benedikt Vilhelmsson). mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hans klaufi er frábær sýning fyrir alla fjölskylduna og enn ein rósin í hnappagat Lottu,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um barna- og fjölskyldusýninguna Hans klaufi í uppfærslu Leikhópsins Lottu sem sýnd er í Tjarnarbíói. Uppfærslan fær 4 stjörnur. 

Hans klaufi er þriðja vetrarsýning Lottu í Tjarnarbíói. Verkinu hefur verið töluvert breytt síðan það var frumsýnt sumarið 2010. 

„Í grunninn snýst verkið sem fyrr um Hans klaufa (Sigsteinn Sigurbergsson) sem starfar við hirðina og er vinur Arons prins (Stefán Benedikt Vilhelmsson). Sölvi (Orri Huginn Ágústsson) og Ríkey (Tinna Hrönn Sigurdórsdóttir) eru ekki lengur mæðgin óskyld Aroni heldur systkini hans. Þegar drottningin móðir þeirra (Andrea Ösp Karlsdóttir) deyr erfir Aron konungsríkið, Sölvi spegil og Ríkey töfrasprota, sem er þeim eiginleikum gæddur hann lætur ekki að stjórn sé hann notaður til illra verka. Ólíkt systkinum sínum er Aron lítið upptekin af titlum og dreymir þess í stað um stéttlaust samfélag þar sem öll fái að sitja við sama borð. Ríkeyju gremst þetta og fær Sölva í lið með sér til að vinna gegn áformum Arons sem endar með því að Aroni er óvart breytt í frosk, sem er meistaralega útfært bæði í öllu gervi og leik.

Þriðja sagan sem höfundar vinna með, auk Hans klaufa og froskaprinsins, er sem fyrr Öskubuska (Andrea Ösp Karlsdóttir). Hún býr við vont atlæti stjúpsystra sinna, Heklu (Orri Huginn Ágústsson) og Kötlu (Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir). Þegar Aron býður öllum í ríkinu til veislu eru það ekki stjúpsystur Öskubusku sem koma í veg fyrir að hún geti mætt heldur sú ákvörðun Ríkeyjar að breyta boðskortunum á þá leið að aðeins fólk sem eigi fín föt sé velkomið, því þannig megi útiloka fátæklingana. Líkt og í upprunalega ævintýrinu fær Öskubuska óvænta aðstoð frá álfkonunni Álfheiði (Stefán Benedikt Vilhelmsson), sem líkt og Öskubuska reynir að vera umhverfisvæn sem útskýrir með skemmtilegum hætti hvers vegna kjóll hennar hverfur á miðnætti. Öskubusku langar fyrst og fremst á ballið í höllinni til að tala fyrir mikilvægi þess að allir íbúar Ævintýraskógarins flokki og endurvinni rusl, en verður óvænt ástfangin af Aroni sem endurgeldur hrifningu hennar.

Sem fyrr er prinsessupróf Hans klaufa fyrirferðarmikið í seinni hluta verksins þar sem Öskubuska, Hekla og Katla leysa þrautir prinsessa úr öðrum þekktum ævintýrum áhorfendum til mikillar skemmtunar, en sérdeilis flott var að sjá þegar Hekla stakk sig á snældunni. Hans klaufi er nefnilega sannfærður um að takist honum að finna stúlkuna sem Aron varð ástfanginn af rétt áður en hann hvarf (þegar hann breyttist í frosk) þá muni Aron snúa aftur. Og auðvitað fer allt vel að lokum.

Fyrir þá sem þekkja gömlu útgáfu Lottu af Hans klaufa, sem aðgengileg er á geisladiski og heyra má í Lottuappinu sem hópurinn hefur þróað og mun einnig innihalda myndrænar upptökur af öllum vetrarsýningum hópsins, er gaman að láta koma sér á óvart með nýjum snúningi á verkinu. Fyrir yngstu áhorfendurna sem eru ef til vill að kynnast Lottu í fyrsta sinn er nýja útgáfan af Hans klaufa einstaklega gott dæmi um þann mikla listræna metnað sem ávallt hefur einkennt sýningar hópsins, óþrjótandi hugmyndaauðgi, góðan húmor (þar sem allir fá eitthvað fyrir sinn snúð, jafnt börn sem fullorðnir) og samfélagsádeiluna sem orðið hefur fyrirferðarmeiri í uppfærslum hópsins á umliðnum árum. Á aðeins klukkutíma tekst forvitnilegum persónum verksins að segja skemmtilega sögu og nota til þess öll meðöl leikhússins,“ segir í leikdóminum sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 25. janúar. 

Í leikdómnum er fögrum orðum farið um frammistöðu leikhópsins. En þar segir meðal annars: „Að lokum verður að minnast á Sigstein Sigurbergsson sem er í essinu sínu í titilhlutverkinu. Sigsteinn hefur meistaraleg tök á kómískum tímasetningum og vekur hæglega samhug með áhorfendum í einfeldni sinni sem Hans klaufi. Dásamlegt var að heyra hann ítrekað „ussa“ á aumingja Aron, í gervi frosksins, með þeim orðum að bannað sé að grípa fram í, fullorðna fólkið sé að tala saman og hann verði að sýna kurteisi, sem hljómar vafalítið kunnuglega í eyrum margra áhorfenda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Loka