Trump sagður íhuga að kaupa Grænland

Trump sagður íhuga að kaupa Grænland

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í fjölda skipta lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa Grænland og spurt ráðgjafa sína hvort það sé möguleiki, á fundum, í matarboðum og í samtölum við önnur tilefni. Þetta kemur fram í umfjöllun bandaríska blaðsins Wall Street Journal í dag.

Trump sagður íhuga að kaupa Grænland

Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti | 15. ágúst 2019

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur, samkvæmt frétt Wall Street Journal, viðrað …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur, samkvæmt frétt Wall Street Journal, viðrað það við ráðgjafa sína að ganga til viðræðna við danska ríkið um kaup á Grænlandi. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í fjölda skipta lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa Grænland og spurt ráðgjafa sína hvort það sé möguleiki, á fundum, í matarboðum og í samtölum við önnur tilefni. Þetta kemur fram í umfjöllun bandaríska blaðsins Wall Street Journal í dag.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í fjölda skipta lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa Grænland og spurt ráðgjafa sína hvort það sé möguleiki, á fundum, í matarboðum og í samtölum við önnur tilefni. Þetta kemur fram í umfjöllun bandaríska blaðsins Wall Street Journal í dag.

Blaðið tekur þó fram að hann hafi spurt að þessu í misalvarlegum tóni, en hefur þó tvær heimildir fyrir því að Trump hafi beðið aðallögfræðing Hvíta hússins að skoða hugmyndina af alvöru.

Trump mun meðal annars hafa viðrað hugmynd sína á kvöldverðarfundi með samstarfsmönnum sínum síðasta vor, eftir að hafa rifjað upp að hann ræki minni til þess að Danmörk væri í fjárhagsvandræðum vegna framlaga sinna til reksturs Grænlands. Grænland er sem kunnugt er fjárhagslega háð Dönum um sem nemur þriðjungi landsframleiðslu í styrk á hverju ári.

„Hvað finnst ykkur um það?“ á Trump að hafa spurt viðstadda. „Teljið þið að það gæti virkað?“

Sá sem hafði þetta eftir honum sagði þetta þó hafa verið sett fram í lítt alvarlegum tóni. Hann sagði einnig við WSJ að fyrst forsetinn hefði ekki minnst á þetta á einum af fjölmörgum fundum sínum með stuðningsmönnum, væri hann líklega ekki að hugsa um þetta af mikilli alvöru.

Ísjaki við Ilulisat á Grænlandi.
Ísjaki við Ilulisat á Grænlandi. mbl.is/RAX

Danir hafa áður hafnað boði Bandaríkjanna

Samkvæmt heimildum WSJ hafa sumir ráðgjafa Trumps stutt hugmyndina og sagt hana geta verið efnahagslega hagkvæma. Aðrir ráðgjafar hans álíta hugmyndina hins vegar fjarstæðu, sem muni aldrei verða að veruleika. Það er heldur ekki alveg ljóst hvernig einhver ætti að fara að því að kaupa Grænland. Bandaríkin hafa þó gert tilraunir til þess áður.

Harry Truman þáverandi Bandaríkjaforseti bauð Dönum eitt hundrað milljónir Bandaríkjadala fyrir Grænland árið 1946, en Danir neituðu að selja. Þetta var önnur tilraun Bandaríkjanna til þess að eignast landið, en árið 1867 sendi utanríkisráðuneytið bandaríska fyrirspurn til Danmerkur um kaup á Grænlandi. Þá átti Ísland raunar að fylgja með í kaupunum líka, en ekkert varð af því.

Hvorki Hvíta húsið né utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna brugðust við fyrirspurnum blaðamanna Wall Street Journal vegna málsins. Það hafa útsendarar danska ríkisins vestanhafs heldur ekki gert, né heldur embættismenn á sendiskrifstofu Grænlands í Washington né á skrifstofu Kim Kielsen, leiðtoga grænlensku landstjórnarinnar.

Þinghúsið í Nuuk, höfuðstað Grænlands.
Þinghúsið í Nuuk, höfuðstað Grænlands. AFP

Bandaríkjamenn hafa nú þegar viðveru á Grænlandi, en þar eru þeir með Thule-herstöðina í norðvesturhluta landsins. Herstöðin er hluti af eldflaugavarnakerfi Bandaríkjamanna, sem álíta Grænland mikilvægan þátt í vörnum Norður-Ameríku.

Á síðustu misserum hafa Bandaríkjamenn einnig unnið gegn því að kínversk yfirvöld komi sér í stöðu til þess að hafa afskipti af málefnum Grænlands, en bandarísk yfirvöld beittu sér fyrir því í fyrra að ekkert yrði úr fjárfestingum Kínverja í þremur flugvallarverkefnum á Grænlandi.

mbl.is