Dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt

Skóli fyrir alla? | 19. september 2019

Dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt

Nemendur sem vinna sjaldan eða aldrei með verkefni við hæfi fá oft skólaleiða sem jafnvel verður að skólaforðun eða síðar brottfalli úr skóla. Það er dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt þessum einstaklingum, segir Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi við Hörðuvallaskóla.

Dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt

Skóli fyrir alla? | 19. september 2019

Anna María Þor­kels­dótt­ir, kennsluráðgjafi við Hörðuvalla­skóla.
Anna María Þor­kels­dótt­ir, kennsluráðgjafi við Hörðuvalla­skóla. mbl.is/Hari

Nem­end­ur sem vinna sjald­an eða aldrei með verk­efni við hæfi fá oft skóla­leiða sem jafn­vel verður að skóla­forðun eða síðar brott­falli úr skóla. Það er dýrt fyr­ir sam­fé­lagið og skaðlegt þess­um ein­stak­ling­um, seg­ir Anna María Þor­kels­dótt­ir, kennsluráðgjafi við Hörðuvalla­skóla.

Nem­end­ur sem vinna sjald­an eða aldrei með verk­efni við hæfi fá oft skóla­leiða sem jafn­vel verður að skóla­forðun eða síðar brott­falli úr skóla. Það er dýrt fyr­ir sam­fé­lagið og skaðlegt þess­um ein­stak­ling­um, seg­ir Anna María Þor­kels­dótt­ir, kennsluráðgjafi við Hörðuvalla­skóla.

„Ég held að það mik­il­væg­asta varðandi bráðgera eða snjalla nem­end­ur sé að þar sem þeir eru oft fljót­ir að nema, þurfi þeir ekki að sýna fram á þá hæfni mörg­um sinn­um. Það er leiðigjarnt að vera alltaf að vinna með eitt­hvað sem maður kann. En ég er alls ekki hlynnt því að viðbrögð skól­ans eigi að vera að færa viðkom­andi á milli ára. Bráðger nem­andi er kannski mjög klár á sum­um sviðum, aðallega þar sem áhugi hans ligg­ur en það þýðir ekki að hann sé fram­ar jafn­öldr­um á öll­um sviðum. Ég held að til þess að skóla­kerfið geti komið til móts við alla sé best að það séu hóp­ar í kring­um verk­efni (nema fyr­ir tíma eins og bekkja­fundi) sem eru unn­in þvert á ald­urs­stig, eft­ir hæfni hvers og eins,“ seg­ir Anna María.

Hepp­in að for­eldr­arn­ir höfðu sam­band og létu vita

Í fyrra höfðu for­eldr­ar drengs í fimmta bekk sam­band við skól­ann þar sem hann var ekki jafn áhuga­sam­ur um námið og hann hafði verið áður. Hann var kom­in með bullandi skóla­leiða. Í ljós kom að hann vantaði bara verk­efni við hæfi. Hún seg­ir að í kjöl­farið hafi skól­inn farið í til­rauna­verk­efni með þess­um nem­anda og tveim­ur öðrum þar sem þeir voru að vinna með viðeig­andi verk­efni. Í vor voru um­sjón­ar­kenn­ar­ar við Hörðuvalla­skóla beðnir um að benda á nem­end­ur sem falli í hóp bráðgera nem­enda og komu upp 12 nöfn af miðstig­inu. Í kjöl­farið fengu kenn­ar­ar fræðslu um þenn­an hóp og mik­il­vægi þess að þeir væru ávalt með verk­efni við hæfi. 

Í vor voru umsjónarkennarar við Hörðuvallaskóla beðnir um að benda …
Í vor voru um­sjón­ar­kenn­ar­ar við Hörðuvalla­skóla beðnir um að benda á nem­end­ur sem falli í hóp bráðgera nem­enda og komu upp 12 nöfn af miðstig­inu. mbl.is/​Hari

„Við hjá Hörðuvalla­skóla vor­um svo hepp­in að for­eldr­ar þessa drengs höfðu sam­band við stjórn­end­ur skól­ans vegna náms­leiða hans því að við fór­um þá að skoða þessi mál sér­stak­lega hjá okk­ur og leita að leiðum til að koma til móts við þenn­an hóp. Í kjöl­farið fór­um við að velta fyr­ir okk­ur þess­um nem­end­um á ung­linga­stigi sem við upp­lif­um að séu með náms­leiða og velt­um fyr­ir okk­ur hvort að í þeim hóp séu ein­hverj­ir nem­end­ur sem hefðu grætt á því að svona úrræði hefðu verið í boði fyr­ir þá? 

Það eru ýms­ar birt­ing­ar­mynd­ir náms­leiða og við þekkj­um að hegðun­ar­vanda­mál geta líka bent til þess að náms­efnið sé of létt eða jafn­vel of þungt. Stund­um verður lít­ill tími til ann­ars í skól­um en að slökkva elda og úrræði til að vinna dýpra með uppá­kom­ur fá ekki nægt svig­rúm,“ seg­ir Anna María.

Spurð frek­ar út í dreng­inn í fimmta bekk seg­ir Anna María að hún hafi byrjað á að kenna hon­um á tví­und­ar­kerfið sem hann greip strax. Næst tóku þau fyr­ir gríska snill­inga, þar á meðal Pýþagór­as. Til þess að hún gæti aðstoðað hann þurfti hún að rifja upp Pýþagór­asregl­una sem gild­ir um tengsl hliða í rétt­hyrnd­um þrí­hyrn­ingi. „Dæm­in sem ég bjó til fyr­ir hann leysti hann um leið þannig að ég sá að ekki liði á löngu þangað til ég yrði uppiskroppa með verk­efni fyr­ir hann.“

Anna María er í hópi þeirra kenn­ara sem fylgj­ast vel með þróun í kennslu­fræðum og er óhrædd við að prófa sig áfram. Á UTIS ráðstefn­unni í fyrra, sem Anna María sótti ásamt fleiri fróðleiks­fús­um kenn­ur­um, var 20time verk­efnið kynnt og ákveðið að taka það upp í Hörðuvalla­skóla.

Mik­ill fræðimaður og hugsuður

20time er áhuga­sviðsverk­efni sem er hugsað út frá mód­eli sem Google kom með um að 20% af tíma starfs­manna átti að fara í annað en það sem fólk var ráðið til að vinna við. Anna María seg­ir að hægt sé að finna mörg verk­efni á net­inu í tengsl­um við 20time. 

„Þessi nem­andi sem kom fyrst til mín er mik­ill fræðimaður og hugsuður. Hann ákvað í gegn­um þetta verk­efni okk­ar að gera YouTu­be mynd­bönd til að kenna öðrum og auka áhuga á efna­fræði. Við lét­um hann fá kennslu­bók sem er notuð á ung­linga­stigi og hon­um fannst eins og við hefðum gefið hon­um jóla­gjöf. Hann las bók­ina spjald­anna á milli og var eft­ir það kom­inn miklu lengra en við sem vor­um að vinna mest með hon­um,“ seg­ir hún en tveir aðrir klár­ir nem­end­ur á miðstigi voru til viðbót­ar í þessu til­rauna­verk­efni. 

Það er alltaf hætta með bráðger börn að þegar þau hafa eitt­hvað sér­stakt áhuga­svið að þau hafi ekki neinn til þess að ræða við. Við vor­um aft­ur á móti svo hepp­in að í skól­an­um starfaði ung kona sem var að ljúka líf­einda- og sam­einda­líf­fræði í há­skól­an­um og hún var til í að spjalla við þenn­an nem­anda um verk­efnið og aðstoða hann. Dag­ur­inn sem þau hitt­ust er besti dag­ur þessa nem­anda frá því hann hóf nám í grunn­skóla að hans sögn. Loks­ins fékk hann ein­hvern til að spegla sig í, seg­ir Anna María.  

Hún legg­ur þó áherslu á að nem­end­ur sem eru tekn­ir úr tím­um í sér­stök verk­efni eins og þetta þurfi ein­stak­lings­nám­skrá því að verk­efn­in eiga ekki að vera íþyngj­andi á nokk­urn hátt. Ef að þeir eiga að ná öllu sem aðrir gera og gera auka­lega önn­ur tíma­frek verk­efni erum við að skapa þeim óþarfa álag og þar sem bráðger­ir nem­end­ur eru oft full­komn­un­ar­sinn­ar, þá get­ur þetta bein­lín­is verið þeim skaðlegt. Þeir eru klár­ir en eng­in of­ur­menni.

Það eru aldrei allir eins, hvort sem börn eru bráðger …
Það eru aldrei all­ir eins, hvort sem börn eru bráðger eður ei. mbl.is/​Hari

Ekki öll bráðger börn eins

Hún seg­ir að ekki sé hægt að setja öll bráðger börn und­ir sama hatt en á Vís­inda­vef Há­skóla Íslands seg­ir:

Þau börn telj­ast bráðger sem sýna framúrsk­ar­andi hæfi­leika, hvort sem er á einu eða mörg­um sviðum. Bráðger börn eru lík­legri en önn­ur börn til að:

  • Sýna óvenju snemma miðað við ald­ur mikla hæfi­leika á einu eða fleiri sviðum.
  • Hafa sterka innri áhuga­hvöt og náms­ár­ang­ur sem skýrist ekki síður af eig­in náms- og rann­sókn­ar­hvöt en áhrif­um um­hverf­is­ins.
  • Geta unnið úr fram­andi upp­lýs­ing­um og geta yf­ir­fært þekk­ingu, reynslu og inn­sæi á fram­andi aðstæður.
  • Hugsa óhlut­bundið og eiga auðvelt með að leysa fram­andi og óvænt verk­efni.
  • Fá hlut­falls­lega háar ein­kunn­ir í próf­um og öðru náms­mati.
  • Vera næm á aðstæður, sýna hlut­tekn­ingu, sam­hygð og hafa áhuga á sam­fé­lags­mál­um.
  • Vera gagn­rýn­in og koma auga á ósam­ræmi eða ósam­kvæmni.
  • Vinna skipu­lega og kerf­is­bundið.
  • Heill­ast svo af ákveðnum sviðum náms eða náms­grein­um að þau geti ekki stillt sig um að kafa dýpra eða æfa sig meira.
  • Vera rök­föst og hafa áhuga á or­saka­sam­hengi.
  • Vera óvenju­skap­andi og hug­mynda­rík.
  • Eiga auðvelt með að tjá hugs­an­ir og hug­mynd­ir.
  • Sýna leiðtoga­hæfi­leika og sætta deil­ur.
  • Sýna óvenju­lega mikla hæfi­leika í list­um, hönn­un eða íþrótt­um.

Anna María seg­ir að náms­bæk­ur geti alls ekki þjálfað alla hæfni eða náð til allra nem­enda. „Oft held ég því að þau séu ekki að fá verk­efni við hæfi og kennslu­bæk­urn­ar frá Mennta­mála­stofn­un virðast skrifaðar fyr­ir meðal­nem­anda þó að sum­ar af nýrri bók­un­um séu betri fyr­ir breiðari hóp nem­enda. Við í Hörðuvalla­skóla leggj­um mikla áherslu á að kenn­ar­ar horfi frek­ar á hæfniviðmið og geri verk­efni út frá þeim í stað þess að horfa á bók­ina sem er kannski orðin göm­ul og ekki í takt við nú­tíma áhersl­ur. Bæk­ur eiga ekki að stjórna námi og kennslu.“

Mik­il ánægja er með leik­skóla­stigið meðal nán­ast allra for­eldra þrátt fyr­ir að líða fyr­ir skort á starfs­fólki með kenn­ara­mennt­un. For­eldr­ar barna sem ekki falla inn í ákveðinn ramma kvarta oft yfir því hvernig líf þeirra breyt­ist við að fara úr leik­skóla í grunn­skóla. Hegðun þeirra versni og þeim líði illa. 

Anna María seg­ir að mik­il breyt­ing verði á lífi barna þegar þau fara af leik­skóla­stigi yfir í grunn­skól­ann. Þegar þau er í leik­skóla am­ast eng­inn við því að þau segi him­in bleik­an og að önd­in sé með rana. Í grunn­skóla séu þau oft­ar sett í ein­hvern fyr­ir­fram ákveðinn ramma.

„Þetta er átak fyr­ir þau en það má vel nota sömu hug­mynda­fræði og er í leiks­skól­um – að kenna í gegn­um leik. Verk­efni sem krefjast sköp­un­ar og tengj­ast áhuga­sviði nem­enda verða oft meiri leik­ur í þeirra aug­um og það skil­ar meiri ár­angri ef þeir tengja bet­ur við verk­efn­in en þeir gera þegar tími þeirra fer í að að svara spurn­ing­um úr bók­um. Með þessu er hægt að koma á móts við miklu stærri hóp en ann­ars væri,“ seg­ir Anna María.

20time er áhugasviðsverkefni sem er hugsað út frá módeli sem …
20time er áhuga­sviðsverk­efni sem er hugsað út frá mód­eli sem Google kom með um að 20% af tíma starfs­manna átti að fara í annað en það sem fólk var ráðið til að vinna við. mbl.is/​Hari

Þjálfa þraut­seigju

Í vet­ur eru all­ir nem­end­ur í 7. til 10. bekk með loka­verk­efni sem bygg­ist á sömu hug­mynda­fræði og unnið var með nem­end­un­um þrem­ur í fyrra vet­ur eða áhuga­sviðsverk­efn­um sem eru sett upp eins og 20time verk­efni.

Anna María seg­ir að loka­verk­efnið snú­ist ekki síst um þraut­seigju og þó svo að nem­end­ur fái ein­hverja aðra hug­mynd að verk­efni þegar líður á vet­ur­inn þá, í stað þess að skipta um verk­efni, eigi þeir að sníða það út úr upp­runa­legu hug­mynd­inni. En fyrst og fremst snýst þetta þó um áhuga­svið nem­enda og í gegn­um þessi verk­efni að gefa nem­end­um tæki­færi til að sýna hæfni sína á ein­hverju sviði sem við höf­um ekk­ert endi­lega verið að kenna og fá þau met­in inn í hæfniviðmiðin. 

„Eitt af því sem við erum ekki að þjálfa mikið í skól­um í dag er ein­mitt þraut­seigja. Nem­end­ur hoppa úr einu í annað all­an dag­inn og eiga að vera ótrú­lega áhuga­söm í stærðfræði í 40 mín­út­ur, síðan í ensku, ís­lensku og koll af kolli. Ég vil helst að loka­verk­efn­in séu ein­stak­lings­verk­efni þar sem vin­ir eru ekki alltaf með sama áhuga­svið en þeir kjósa oft­ast að vinna í pör­um og þannig fá stuðning hver frá öðrum. Um­hverf­is­mál eru þau mál­efni sem eru senni­lega efst í huga ung­menna í dag og það væri vel hægt að vinna svona loka­verk­efni út frá því. Aðal­málið er að verk­efnið sé fyr­ir ein­hvern og það hafi ein­hvern til­gang.

Í sjö­unda bekk í ár erum við að leggja meiri áherslu á þema­nám. Þar þjálf­um við m.a. ábyrgð nem­enda á eig­in námi sem er eitt­hvað sem aðal­nám­skrá legg­ur áherslu á. Við vilj­um að nem­end­ur hafi eitt­hvert frelsi til að stýra eig­in tíma og hvernig þeir komi verk­efn­um frá sér. Það geta all­ir lært og í grunn­skóla áttu að fá tæki­færi til að vinna með þína eig­in styrk­leika. Þó svo að þú eig­ir erfitt með að lesa eða les­ir hægt þýðir það ekki að þú get­ir ekki verið hrika­lega góður í ein­hverju öðru. Þú átt að fá leyfi til að blómstra og fá verk­efni við hæfi,“ seg­ir Anna María.

Eitt af því sem við erum ekki að þjálfa mikið …
Eitt af því sem við erum ekki að þjálfa mikið í skól­um í dag er ein­mitt þraut­seigja, seg­ir Anna María. mbl.is/​Hari

Spurð um hvernig nem­end­ur og for­eldr­ar taki þessu seg­ir Anna María að þetta hafi mælst vel fyr­ir en þetta er enn bara í start­hol­un­um. Sum­ir hafi þó haft áhyggj­ur af sam­ræmd­um próf­um en skólastarf eigi ekki að hverf­ast um slík próf.

„Í fyrsta lagi eru þau breyt­ing­um háð og þau ættu að mæla það sem er ekki beint kennt upp úr náms­bók­um ef þau eiga að vera eitt­hvert raun­veru­legt mæli­tæki. Það er mis­jafnt hvaða bæk­ur og hvaða áhersl­ur eru á milli skóla. Svo vit­um við ekki hvaða áhersl­ur verða þegar þessi ár­gang­ur verður í ní­unda bekk en það er eina prófið sem gæti gagn­ast nem­end­um. Við þurf­um líka að velta fyr­ir okk­ur hvaða hæfni er verið að mæla hjá nem­anda sem kann að sýna út­reikn­ing en get­ur ekki yf­ir­fært það á raun­veru­legt verk­efni.

Nem­end­ur sem eiga kannski erfitt með bók­námið eru oft að gera stór­kost­lega hluti í öðrum grein­um. Ég man eft­ir nem­anda sem er greind­ur ein­hverf­ur og hef­ur átt mjög erfitt með bók­nám. Hann fékk að njóta sín í smíðastof­unni í verk­efna­vinnu og einu sinni hitti ég hann þar sem hann var með móður­borð úr tölvu að lóða. Ég spurði hann hvers vegna hann væri ekki í tíma í fjár­mála­læsi. Hans svar að hann væri að reyna að breyta móður­borðinu þannig að ég gæti grafið eft­ir bitco­ins. Hverj­um hefði dottið þetta í hug öðrum en snill­ingi? Við kenn­arn­ir hefðum aldrei farið fram á að hann sýndi viðlíka hæfni eða for­vitni. 

Þannig hafa all­ir nem­end­ur ein­hvern styrk­leika og við þurf­um að læra að meta þá. Við ger­um það ekki með því að beita sama skala á alla. Nem­end­ur sem fá A í öllu eru lík­lega ekki með náms­efni við hæfi, ekk­ert frek­ar en þeir sem fá alltaf lág­ar ein­kunn­ir.

Til að mynda er hætta á að bráðger­ir nem­end­ur séu að skila lé­leg­um verk­efn­um miðað við eig­in getu. Við erum oft að gefa þeim gott mats­mat fyr­ir verk­efni sem er langt fyr­ir neðan þeirra getu af því það er betra en hinna.“ 

mbl.is/​Hari

Próf sem kanna þekk­ingu úr kenndu náms­efni hafa tak­markað til­gang fyr­ir nem­end­ur að sögn Önnu Maríu. Ef marg­ir fá lágt á próf­inu gæti það verið merki um að kenn­ar­inn út­skýrði efnið ekki nógu vel. Ef sömu nem­end­ur eru alltaf að fá lágt náms­mat, gæti það sýnt að kennsl­an eða náms­matið er ekki án aðgrein­ing­ar og ef að sum­ir fá alltaf hátt á próf­um eru þeir lík­lega ekki að vinna með náms­efni við hæfi. Hvernig sem litið er á þetta verða próf oft meiri próf­steinn á kennsl­una en þekk­ingu nem­enda. Ég veit að það eru ekki all­ir sam­mála mér hér en leiðsagn­ar­mat er málið að mínu mati.

Leiðsagn­ar­mat er mat sem lagt er fyr­ir nem­end­ur jafnt og þétt allt náms­árið með það að mark­miði að nota niður­stöðurn­ar til að bæta náms­ár­ang­ur og kennslu. Leiðsagn­ar­matið þarf að byggj­ast á raun­hæf­um gögn­um um stöðu og fram­vindu náms. Því þarf matið að vera fjöl­breytt og skrán­ing þess stöðug. Nem­andi og kenn­ari eru stöðugt virk­ir en frek­ar er fjallað um leiðsagn­ar­mat í viðtali við þær Eddu Kjart­ans­dótt­ur og Nönnu Krist­ínu Christian­sen. 

Anna María fór frem­ur seint í kenn­ara­nám en hún ákvað að verða dönsku­kenn­ari 38 ára göm­ul. Ástæðan var sú að börn henn­ar þrjú höfðu kvartað yfir því hvað dönsku­kennsl­an sem þau fengu væri óspenn­andi. „Ég hugsaði með mér: ég get gert þetta bet­ur og skildi ekki af hverju þetta fag þurfti að fá svona viðbrögð. Ég taldi mig geta gert þetta skemmti­legra. Ég var mjög fljót að henda út bók­un­um sem voru í notk­un þar sem mér sjálfri fannst þær leiðin­leg­ar og í staðinn láta nem­end­ur vinna meira með eig­in áhuga­svið og tengja námið við notk­un á upp­lýs­inga­tækni,“ seg­ir Anna María sem starfaði um ára­bil við Hóla­brekku­skóla.

Hún fór fljótt að nýta sér tækn­ina við kennslu og er í hópi sem nefn­ist VEXA sem vinn­ur að þróun og efl­ingu snill­ismiðja í grunn­skól­um á land­inu. Vexa hóp­ur­inn býður upp á nám­skeið sem hafa verið hald­in fyr­ir utan höfuðborg­ina hingað til en Vexa hef­ur fengið ýmsa styrki til að efla starf­sem­ina inn­an­lands en einnig Era­smus-styrk til að byggja upp er­lent tengslanet og þró­ast áfram í Maker hug­mynda­fræðinni. 

Anna María fór fremur seint í kennaranám en hún ákvað …
Anna María fór frem­ur seint í kenn­ara­nám en hún ákvað að verða dönsku­kenn­ari 38 ára göm­ul. Ástæðan var sú að börn henn­ar þrjú höfðu kvartað yfir því hvað dönsku­kennsl­an sem þau fengu væri óspenn­andi mbl.is/​Hari

Hún seg­ir að þegar hún hóf störf sem kennsluráðgjafi hjá Hörðuvalla­skóla haustið 2018 hafi hún strax í upp­hafi gengið út frá því að gera nem­end­ur meiri þátt­tak­end­ur í eig­in námi og það hafi verið leiðarljósið í henn­ar starfi inn­an skól­ans. Það hafi hún meðal ann­ars gert með því að fara yfir hæfnisviðmiðin í hverri náms­grein með hópi nem­enda í átt­unda og ní­unda bekk síðasta vet­ur. Þeir nem­end­ur munu í vet­ur aðstoða nem­end­ur á miðstigi við að skilja bet­ur hæfniviðmiðin og sýna þeim hvernig þeir geti haft meiri áhrif á eigið nám. 

„Sam­fé­lagið er að breyt­ast og áhersl­ur skól­anna líka. Við þurf­um að und­ir­búa nem­end­ur fyr­ir þeirra framtíð en ekki okk­ar fortíð eins og Andreas Schleicher yf­ir­maður mennta­mála hjá OECD hef­ur sagt og sýna þeim hvernig til að mynda tækn­in virk­ar svo þau verði ekki fórn­ar­lömb henn­ar síðar meir. Lyk­il­hæfn­in í aðal­nám­skrá er besta verk­færið sem skól­arn­ir hafa til að upp­fylla þetta. Þegar nem­end­ur fá tæki­færi til að nota og þjálfa eig­in sköp­un­ar­hæfni, þjálfast í að tjá sig og ígrunda verk­efni sín, sýna sjálf­stæð vinnu­brögð og vinna með öðrum, geta nýtt þau verk­færi sem í boði eru og metið og borið ábyrgð á eig­in námi eru þeim all­ir veg­ir fær­ir hvort sem þeir eru snögg­ir að nema eða ekki,“ seg­ir Anna María Þor­kels­dótt­ir, kennsluráðgjafi við Hörðuvalla­skóla.



mbl.is