„Stutta svarið er nei,“ svaraði bandaríski utanríkisráðherrann Antony Blinken, þegar hann var spurður hvort Bandaríkin hefðu enn áhuga á að kaupa Grænland. Blaðamaður danska ríkisútvarpsins varpaði spurningunni fram í viðtali fyrr í kvöld.
„Stutta svarið er nei,“ svaraði bandaríski utanríkisráðherrann Antony Blinken, þegar hann var spurður hvort Bandaríkin hefðu enn áhuga á að kaupa Grænland. Blaðamaður danska ríkisútvarpsins varpaði spurningunni fram í viðtali fyrr í kvöld.
Þegar síðasti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, heimsótti Danmörku síðasta sumar hafði Donald Trump varpað upp þeirri hugmynd að Bandaríkin myndu festa kaup á Grænlandi, sem er nú undir stjórn Danmerkur.
„Ég vil spyrja þig að því sama,“ sagði blaðamaður DR og uppskar hlátur frá Blinken.
„Stutta svarið er nei. Hérna eru okkar áherslur: Við erum með gott samband við Danmörku og sambandið við Grænland er engin undantekning þar, það samband fer vaxandi. Það er á þeim grundvelli sem við viljum styrkja samstarf með þessum þjóðum. Ég sé mikil tækifæri í viðskiptum, tækni, menntun og túrisma. Það er það sem við þurfum að einblína á,“ sagði Blinken.
„Pompeo lagði nokkra áherslu á það að hann vildi ekki að Kína næði fótfestu á Grænlandi. Viljið þið vera eina samstarfsríki Danmerkur eða eru aðrir líka velkomnir?“ spurði blaðamaður DR.
„Þegar það kemur að Kína finnst mér mikilvægt að hafa nokkra hluti í huga. Þetta er á margan hátt erfitt samband,“ svaraði hann. Bandaríkin vildu gæta þess að Kína stæði við skuldbindingar sínar og færi eftir leikreglum sem Danir og Bandaríkjamenn hafa sett sér.