Var talin óæt og sögð hverfa við suðu

Furðufiskar | 29. október 2021

Var talin óæt og sögð hverfa við suðu

Ekki er óalgengt að ýmsar tegundir fáist sem meðafli á miðunum og er blágóma ein þeirra. Fiskurinn, sem er steinbítstegund, þykir ekki endilega fagur en er ágætur matfiskur þótt lítil hefð sé fyrir því að nýta hann hér á landi.

Var talin óæt og sögð hverfa við suðu

Furðufiskar | 29. október 2021

Blágóma
Blágóma Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Ekki er óalgengt að ýmsar tegundir fáist sem meðafli á miðunum og er blágóma ein þeirra. Fiskurinn, sem er steinbítstegund, þykir ekki endilega fagur en er ágætur matfiskur þótt lítil hefð sé fyrir því að nýta hann hér á landi.

Ekki er óalgengt að ýmsar tegundir fáist sem meðafli á miðunum og er blágóma ein þeirra. Fiskurinn, sem er steinbítstegund, þykir ekki endilega fagur en er ágætur matfiskur þótt lítil hefð sé fyrir því að nýta hann hér á landi.

Lengi hentu sjómenn blágómunni þar sem hún var talin óæt. Auk þess hefur því verið haldið fram að fiskurinn hyrfi við suðu, en athugun sem framkvæmd var við Háskólann á Akureyri 2013 sýndi að blágóma rýrnar um 30% við eldun og er ekki ólík hlýra á bragðið.

Blágóman er sögð sérkennileg fyrir þær sakir að hafa breitt enni, stóran haus og frekar lítinn munn sem er aðeins á ská, en í honum eru litlar oddhvassar tennur. Fiskurinn er sótrauður, dökkrauðblár eða blágrænleit á lit, lausholda og kvapmikil.

Með svartfugl í maga

Stærsta blágóma sem veiðst hefur á Íslandsmiðum var 126 sentímetrar og herma sumar heimildir að sést hafi blágóma allt að 180 sentímetrar að lengd, að því er segir á vef Hafrannsóknastofnunar.

Blágómu þrífst í köldum sjó og eru heimakynni hennar Norður-Atlantshaf og í Norður-Íshaf.

Við Íslandsstrendur er fiskurinn allt í kringum landið en algengara er að finna hann í köldum sjó norðvestan-, norðan-, norðaustan- og austanlands en sunnanlands. Blágóman heldur sig á 60 niður á rúmlega 1.200 metra dýpi og oftar uppi í sjó en við botn.

Fæða blágómunnar er slöngustjörnur, skrápdýr, hveljur og fiskar. Jafnframt hafa leifar svartfugls fundist í maga blágómu við Ísland.

Blágóma þótti lengi ekki hentug til manneldis.
Blágóma þótti lengi ekki hentug til manneldis. Ljósmynd/Havstovan

Arnar með mesta afla

Það sem af er ári hefur hefur 73,6 tonnum af blágómu verið landað hér á landi, að því er fram kemur í gögnum Fiskistofu. Sex skip hafa landað yfir tonni og er Arnar HU með mest eða 22,8 tonn. Þá hefur Guðmundur í Nesi RE komið til hafnar með 15,2 tonn, Vigri RE landað 13,5 tonnum, Örfirisey RE landað 12,3 tonnum, Blængur NK 6,8 tonnum og Björgúlfur EA 1,1 tonni.

mbl.is