Sjálfvirkar vélar sjá um mörg erfiðustu og flóknustu verkefnin hjá Dögun. Samkeppnin á rækjumarkaði er hörð og þurfa rækjuvinnslur að geta tekist á við sveiflur af ýmsum toga.
Sjálfvirkar vélar sjá um mörg erfiðustu og flóknustu verkefnin hjá Dögun. Samkeppnin á rækjumarkaði er hörð og þurfa rækjuvinnslur að geta tekist á við sveiflur af ýmsum toga.
Sjálfvirkar vélar sjá um mörg erfiðustu og flóknustu verkefnin hjá Dögun. Samkeppnin á rækjumarkaði er hörð og þurfa rækjuvinnslur að geta tekist á við sveiflur af ýmsum toga.
Íslenskur rækjuiðnaður hefur tekið töluverðum breytingum undanfarna áratugi og þá ekki síst vegna mikils samdráttar í veiðum. Á blómaskeiði greinarinnar, á seinni helmingi 10. áratugarins, veiddust að jafnaði um 50 til 70.000 tonn af rækju á Íslandsmiðum ár hvert en í dag er rækjukvótinn aðeins um 10% af þeirri tölu og íslenskar rækjuvinnslur mjög háðar hráefni erlendis frá.
Óskar Garðarsson, framkvæmda- stjóri rækjuvinnslunar Dögunar á Sauðárkróki, segir mikla uppstokkun hafa átt sér stað og fá félög eftir sem eru helguð veiðum og vinnslu á rækju. Dögun var stofnuð árið 1983 og starfa í dag á bilinu 25 til 30 manns hjá fyrirtækinu. Frá 2016 til 2020 gerði Dögun út rækjuveiðiskip sem félagið seldi svo frá sér og snýst reksturinn í dag alfarið um vinnslu í landi en auk starfseminnar á Sauðrárkróki á Dögun hlut í öflugri rækjuútgerð í Eistlandi.
Á dæmigerðu ári framleiðir Dögun afurðir úr u.þ.b. 6.500 til 8.500 tonnum af hráefni og kaupir félagið mikið magn af rækju sem veidd er í Barentshafi, við strendur Grænlands og Kanada og eftir atvikum frá öðrum löndum sem stunda veiðar á kaldsjávarrækju, einkum á Norður-Atlantshafi.
„Undanfarið hafa verið sveiflur í rækjuveiðum á milli landa. Er það helst á Grænlandi að veiðarnar hafa haldist tiltölulega stöðugar en í Kanada drógust veiðar nokkuð hratt saman í kringum 2014 og allt fram til 2019. Veiði í Barenshafi hefur verið í þokkalegu jafnvægi. Allt hefur þetta áhrif á heimsmarkaðsverðið enda flæðir rækja sem hráefni á milli landa,“ útskýrir Óskar.
„Heildarmagn rækjuveiða íslenska flotans hefur verið í kringum 4.000 til 6.000 tonn undanfarin ár og myndi það duga til að anna þörfum einnar rækjuvinnslu en í dag eru 3-4 verksmiðjur stærstar á þessu sviði: Dögun, Hólmdrangur á Hólmavík, Rammi á Siglufirði og Kampi á Ísafirði.“
Aðspurður hvað það var sem olli skörpum samdrætti í rækjuveiðum og hverjar horfurnar eru á næstu árum segir Óskar að fylgni sé á milli rækjustofnsins, þorskstofnsins og loðnustofnsins. „Í sumar hefur veiðin verið nokkuð góð og rækjan stærri en oft áður og virðist vera í góðu ástandi. Eru því einhver teikn á lofti um að stofninn kunni að vera að braggast. Nýleg rannsókn á stöðu innfjarðarstofna í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi sýnir þó aðra þróun. Þar er minna af rækju að sjá, en aftur mun meira af ýsu, sem einnig étur rækjuna.“
Þorskurinn étur rækju en virðist þó frekar sækja í loðnu ef henni er til að dreifa. „Ef loðnan er af skornum skammti þá getur það bitnað á rækjustofninum, en að sama skapi getur rækjunni vegnað vel ef nóg er af loðnu í hafinu. Saman við þetta fléttast hitasveiflur í hafi en kaldsjávarrækjan forðast heitari sjó og færir sig þá norðar. Afránið er þó afgerandi þáttur, annars hefði stofninn náð sér upp aftur þar sem veiði hefur verið langt undir því sem áður var.“
Það hráefni sem ekki er hægt að kaupa á Íslandi er, sem fyrr segir, flutt til landsins frá rækjuútgerðum erlendis og kemur hráefnið til Sauðárkróks með skipi. Þar sem um frystivöru er að ræða fer lokaafurðin sömuleiðis með skipi frá Sauðárkróki á erlenda markaði og selur Dögun 95% af framleiðslu sinni úr landi.
Undanfarin ár hefur verið fjárfest í tæknivæðingu Dögunar til að auka afköst og gæði og létta starfsfólki erfiðustu störfin. Segir Óskar að á venjulegum degi geti 35-40 tonn af vigtuðu hráefni farið í gegnum verksmiðjuna, sem gerir í kringum 8-10 milljón stakar rækjur. Eru hámarksafköst á sólarhring um 60 tonn.
„Fyrst af öllu er rækjan sett í hráefnistanka þar sem hún er þídd upp í einn sólarhring í blöndu af vatni og salti. Þaðan er rækjan færð yfir í sjóðara og soðin rétt rúma mínútu áður en hún er kæld lítilsháttar og því næst send yfir á sjálfvirkar pillunarvélar,“ lýsir Óskar en þar er vöðvinn losaður frá skelinni.
„Næsta skref er myndavélagreining og er hver einasta rækja mynduð og send aftur í pillunarvélina ef tölvan greinir leifar af skel eða löppum. Þá tekur við hreinsiband þar sem starfsfólkið okkar gerir lokaskoðun á afurðinni og fjarlægir rækju sem ekki samræmist okkar gæðastöðlum. Rækjunni er síðan rennt í smá saltpækil til að kæla hana niður áður en hún fer í lausfrysti, og 10% íshúð sett á rækjuna til að verja vöðvann gegn hnjaski og hitasveiflum. Millifrystir í rækjuvinnslunni getur geymt allt að 10 tonn af rækju, en sjálfvirkar vélar sjá um flokkun og pökkun í mismunandi pakkningar, og róbóti sér um að stafla kössum á vörubretti, allt undir vökulu auga reynsluboltans Hilmars Ívarssonar sem stýrir framleiðslu félagsins.“
Binda eigendur Dögunar vonir við að tæknivæðing verksmiðjunnar muni veita fyrirtækinu forskot í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á rækjumarkaði. Bendir Óskar á að margir séu um hituna og ófáar erlendar rækjuvinnslur njóti fyrirgreiðslu sem íslenskum rækjuvinnslum stendur ekki til boða.
„Einn af risunum á markaðinum er Royal Greenland sem er í eigu grænlensku landsstjórnarinnar, og hefur félagið átt það til að keyra niður verð í krafti stærðar sinnar svo að hin fyrirtækin á markaðinum eiga fárra annarra kosta völ en að fylgja þeim eftir. Við þurfum líka að sætta okkur við að rækjuiðnaðurinn í Kanada nýtur ríkulegs ríkisstuðnings og var t.d. einn af keppinautum okkar að fjárfesta nýverið fyrir jafnvirði 100 milljóna króna í nýjum tæknilausnum og stóð ekki á kanadískum stjórnvöldum að styrkja fyrirtækið sem nam allri upphæðinni.“
Þýðir þetta rekstrarumhverfi að íslenskar rækjuvinnslur þurfa að vera á tánum og hafa getuna til að taka á sig niðursveiflur þegar svo ber undir. „Greinin býr yfir töluverðum umframafköstum og þegar mikil samkeppni er um hráefnið er freistandi að bjóða óþarflega hátt verð fyrir hráefnið, sem svo þýðir að fyrirtækin ganga nærri sér í afkomu. Ef eitthvað breytist, s.s. að krónan styrkist verulega, getur þurft lítið til að fyrirtæki lendi í vanda og jafnvel í greiðsluþroti. Brexit jók á óvissu í geiranum enda Bretlandsmarkaður íslenskum framleiðendum mikilvægur,“ segir Óskar og undirstrikar að fyrirtækin í greininni þurfa að hafa fjárhagslegan styrk til að bregðast við og jafna út sveiflur.
„Rekstur Dögunar hefur styrkst á undanförnum árum og félagið fékk meðal annars viðurkenningu frá Creditinfo í vikunni, sem framúrskarandi fyrirtæki í rekstri.“
Óskar segir að vandaður samanburður leiði í ljós að kaldsjávarrækjan er allt annar matur. „Kaldsjávarrækjan hefur sitt sérstaka bragð og áferð, en það má samt skipta kaldsjávarrækju út fyrir heitsjávarrækju í sumum réttum án þess að neytandinn verði þess endilega var. Heitsjávarrækjan er af ýmsum gerðum og litum, oft gráleit, en það er ekki algilt. Áferð og bragð er einnig breytilegt eftir tegundum og svæðum.“
Eru vörurnar þó nógu líkar til að fylgni sé á milli heimsmarkaðsverðs kaldsjávar- og heitsjávarrækju, þrátt fyrir að framleiðslukostnaðurinn sé fjarri því sá sami. „Það fæst hærra verð fyrir kaldsjávarrækjuna en kaupendur nota iðulega heitsjávarrækjuna sem viðmið og bregðast við ef þeim þykir verðmunurinn á tegundunum orðinn of mikill,“ útskýrir Óskar.