Stærri skrúfa hefur verið lykillinn að kraftmiklu skipi með minni vél sem sparar mikla olíu og minnkar þar með kostnað og losun.
Stærri skrúfa hefur verið lykillinn að kraftmiklu skipi með minni vél sem sparar mikla olíu og minnkar þar með kostnað og losun.
Stærri skrúfa hefur verið lykillinn að kraftmiklu skipi með minni vél sem sparar mikla olíu og minnkar þar með kostnað og losun.
„Nesfiskur vildi fá ódýrt en gott vinnsluskip og við unnum þetta algjörlega með þeim og með það í huga að fá stóran öflugan vinnslutogara í stað gamla Baldvins Njálssonar. Við beittum sömu aðferðum og í Breka VE og Páli Pálssyni ÍS. Við erum með tiltölulega lítið vélarafl en stóra skrúfu og náum þess vegna feiknalegu togafli með mikilli spyrnu og góðum ganghraða úr tiltölulega lítilli vél,“ svarar Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, spurður um helstu einkenni hönnunar nýs Baldvins Njálssonar GK-400.
„Þetta er minnsti togarinn sem er með allan afla á brettum. Framleiðslan er sett á bretti og róbóti um borð flokkar afurðina niður á bretti og síðan er lyftari sem tekur við brettunum og ekki er gott að stafla brettum hátt í veltingi þannig að lestin er á tveimur hæðum,“ bætir hann við.
Þá vekur hann athygli á því að eftirtektarvert sé hvað hafi tekist að gera mikið í skipi sem er þó ekki stærra en 65,6 metrar að lengd og 16 metrar að breidd. „Þetta er sérstakt skip. Rosalega öflugur frystitogari með tæplega áttatíu tonna togspyrnu. Gott veiðiskip með fullkomna vinnslu.“
Skipið hefur góða orkunýtingu að sögn Sævars. „Þarna er vél frá Wartsila og skipið með 80 tonna togspyrnu. Með því að stækka skrúfuna um einn metra gátum við minnkað vélina um tvo sýlindra úr átta í sex sýlindra vél. Ávinningurinn af þessu er ekki bara að það sparist tugir prósenta í olíu, heldur er einnig hægt að stytta vélarrúmið og stækka lestina.“
Spurður nánar út í stærð skrúfunnar, svarar hann: „Fimm metra skrúfa er ekkert svo stór skrúfa. Hún er kannski stór miðað við stærð skipsins eða vélaraflið sem við setjum á hana, en stærstu skipsskrúfurnar eru ellefu metrar. Við komum ekki skipum í íslenskar hafnir með meiri skrúfustærð en sjö eða átta metra. Það takmarkar okkur við þessa skrúfustærð, annars er engin ástæða til að hætta þarna. Allar helstu vélar snúast þúsund snúninga, þessar díselvélar. Til þess að geta haft svona stóra skrúfu þarftu að koma snúningunum í um sjötíu til áttatíu. Þá þarftu gríðarlega stóran gír og það hafa menn ekkert átt til fyrr en þess var krafist af framleiðendum.“
Sævar segir það hafa verið spennandi að fá að taka þátt í verkefninu og að hann sé ánægður með afraksturinn. Þá hafi aðkoma útgerðarinnar skipt miklu máli. „Þeir eiga mikinn þátt í þessu Nesfisksmenn. Þetta er allt hannað í fullu samráði og samstarfi við þá. [...] Skipið hefur vakið athygli og virðist vera áhugi hjá skipasmíðastöðinni Armon á Spáni að smíða fleiri skip af þessari tegund.
Það er mjög gaman að vinna með þessari skipasmíðastöð og þessum fyrirtækjum sem hafa komið að þessu. Ég hef komið að smíðum víða og það gengið vel en þessi smíði er það sem mér hefur fundist ganga best.“