Á vormánuðum 2024 er nýtt uppsjávarskip væntanlegt til Hornafjarðar, en Skinney-Þinganes hefur samið við skipasmíðafyrirtækið Karstensens í Skagen í Danmörku um smíði á nýju skipi.
Á vormánuðum 2024 er nýtt uppsjávarskip væntanlegt til Hornafjarðar, en Skinney-Þinganes hefur samið við skipasmíðafyrirtækið Karstensens í Skagen í Danmörku um smíði á nýju skipi.
Á vormánuðum 2024 er nýtt uppsjávarskip væntanlegt til Hornafjarðar, en Skinney-Þinganes hefur samið við skipasmíðafyrirtækið Karstensens í Skagen í Danmörku um smíði á nýju skipi.
Skipið er hannað með það í huga að djúprista þess verði sem minnst og segir Aðalsteinn Ingólfsson forstjóri að forsenda þess að nú sé ráðist í smíði nýs skips sé að farið verði í dýpkun og aðrar nauðsynlegar aðgerðir á Grynnslunum utan við Hornarfjarðarós. Þær virðist vera í augsýn og eftir því sem hann viti best sé Vegagerðin að undirbúa útboð í verkefnið.
Nýja skipið verður 75,40 metrar á lengd, breiddin 16,50 metrar og djúpristan 6,50 metrar. Þá er miðað við að í skipinu verði um tvö þúsund tonn, en lestir skipsins verða um 2.400 rúmmetrar. Tvö uppsjávarskip eru nú í flota fyrirtækisins og ristir Ásgrímur Halldórsson SF 250 um 7,40 metra og Jóna Eðvalds SF 200 um 6,60 metra.
Nýja skipið er sérhannað af Karstensens fyrir Skinney-Þinganes og kom danska fyrirtækið með tillögu að nýju skipi með þessa eiginleika. Aðalsteinn segir að það sé á margan hátt svipað og Vilhelm Þorsteinsson EA og Börkur NK, sem komu ný til landsins fyrr á þessu ári, bæði smíðuð hjá Karstensens. Skip Hornfirðinga er þó heldur styttra og botnlagið aðeins öðruvísi.
Aðalsteinn segir að endanlegt verð fyrir skipið liggi ekki fyrir, en eftir er að velja vélargerð, spil og ýmsan annan búnað. Smíði skrokks skipsins byrjar upp úr miðju ári í stöð Karstensens í Póllandi. Þaðan verður það dregið til Skagen þar sem smíðinni verður lokið.
Jóna Eðvalds var smíðuð í Flekkefjord í Noregi 1975 fyrir norska útgerð og bar áður nöfnin Krossey SF, Björg Jónsdóttir ÞH og Birkeland. Ásgrímur Halldórsson var smíðaður á sama stað árið 2000 fyrir skoskt fyrirtæki og hét áður Lunabow.
Bæði skipin hafa verið mikið endurnýjuð að sögn Aðalsteins Hann nefnir að búið sé að taka Jónu tvisvar í gegn. Húsvíkingar hafi sett nýtt stýrishús á skipið, vélar og spil hafi verið endurnýjuð og hluti íbúða tekinn í gegn. Skinney-Þinganes hafi endurnýjað íbúðir, kælitanka og fleira þannig að í raun sé ekki mikið upprunalegt í skipinu. Ásgrímur og Jóna bera um 1.500 tonn í kælitönkum, en nýja skipið verður talsvert burðarmeira.
Aðalsteinn segir að innsiglingin til Hafnar geti verið erfið og hafi heldur farið versnandi síðustu ár. Meðal annars vegna þessa hafi verið beðið með endurnýjun uppsjávarskipanna, en nú segist hann gera sér vonir um að duglega verði tekið til hendinni við að bæta innsiglinguna á næstu mánuðum. „Það er forsenda endurnýjunar að staðið verði við fyrirheit um aðgerðir,“ segir Aðalsteinn.
Fram undan er stór loðnuvertíð eftir áramót, en Skinney-Þinganes er með 8,13% loðnukvótans eða um 51 þúsund tonn. Skip fyrirtækisins eru búin að veiða um 11% kvótans. „Það þýðir ekki annað en að vera bjartsýnn á vertíðina,“ segir Aðalsteinn. „Við sjáum til hvernig árið fer af stað, hvernig veiðist og viðrar, og það þarf margt að ganga upp á þessari stóru vertíð.“
Hann segir að byrjað verði á því að bræða loðnuna í janúar, en er líði mánuðinn verði hugsanlega farið að frysta hluta af aflanum fyrir markaði í Austur-Evrópu. Eftir því sem líði á vertíð aukist frysting og vinnsla til manneldis. Vertíðinni lýkur svo með hrognafrystingu þegar kemur fram í mars.