Uppbygging humarstofnsins mun taka mörg ár

Humarveiðar | 9. janúar 2022

Uppbygging humarstofnsins mun taka mörg ár

Óvissan er mikil og ef-in mörg þegar kemur að stöðu og uppbyggingu humarstofnsins. Það er þó ljóst að Hafrannsóknastofnun leggur til veiðibann á humri á þessu ári og því næsta. Hæpið er að það dugi til eitt og sér.

Uppbygging humarstofnsins mun taka mörg ár

Humarveiðar | 9. janúar 2022

Vísbendingar eru um að humri kunni að fjölga en stofninn …
Vísbendingar eru um að humri kunni að fjölga en stofninn mun þurfa fleiri ár að ná fyrri styrk. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhildur Egilsdóttir

Óvissan er mikil og ef-in mörg þegar kemur að stöðu og uppbyggingu humarstofnsins. Það er þó ljóst að Hafrannsóknastofnun leggur til veiðibann á humri á þessu ári og því næsta. Hæpið er að það dugi til eitt og sér.

Óvissan er mikil og ef-in mörg þegar kemur að stöðu og uppbyggingu humarstofnsins. Það er þó ljóst að Hafrannsóknastofnun leggur til veiðibann á humri á þessu ári og því næsta. Hæpið er að það dugi til eitt og sér.

„Við erum alltaf að bíða eftir að sjá jákvæðar breytingar, sem ég viðurkenni að við höfum ekki séð mikið af síðustu árin,“ segir Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun. Þegar hann er spurður hvenær þess megi vænta að ráðgjöfin hljóði upp á um tvö þúsund tonn eins og var fyrir áratug, segir hann líklegt að verið sé að tala um 15 ára tímabil að lágmarki. Til að svo megi verða og stofninn nái sér á strik þurfi aðstæður að vera humrinum hagstæðar og góð nýliðun að koma til, en lítið hefur sést af unghumri síðustu ár.

Humarafli 1970-2021
Humarafli 1970-2021 mbl.is

Jónas segir að staða stofnsins hafi aldrei verið jafn slæm. Hann útilokar þó ekki að stofninn geti skilað góðri nýliðun skapist réttar aðstæður og segir að stofninn verði að fá að njóta vafans.

Hann nefnir jákvæð teikn eins og að humarlirfur hafi sést síðustu ár í yfirborðssjónum, en enn séu árgangarnir mjög veikir. Þá segir hann að sandsílið hafi tekið við sér aftur þannig að eitthvað hafi ástandið breyst í sjónum. Langsótt sé að draga makrílinn til ábyrgðar vegna ófara humarsins því nýliðun humars hafði hrakað mikið áður en hann kom til sögunnar.

Jónas Páll Jónasson.
Jónas Páll Jónasson. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Engar beinar rannsóknir

Spurður um fyrirhugaðar rannsóknir á humarstofninum í ár segir Jónas að lítið verði um beinar rannsóknir á humri. Ákvörðun liggi fyrir að fara í talningar á holum annað hvert ár og verður farið í slíkt verkefni 2023.

Meðan staðan sé eins slæm og raun beri vitni sé það mat manna að ekki sé knýjandi að telja holur á hverju ári. Ráðgjöfin sé nú til tveggja ára og þó svo jákvæðar niðurstöður fengjust í ár myndi það ekki breyta ráðgjöf um tveggja ára veiðibann á þessari hægvaxta tegund. Aðspurður segir Jónas að fjárhagur Hafrannsóknastofnunar spili þarna inn í, en vegna þeirrar stöðu þurfi að forgangsraða.

Nýliðun er í sögulegu lágmarki og árgangar frá 2005 mjög litlir. „Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins. Komi til aukinnar nýliðunar á næstu árum má búast við að stofninn muni ekki taka verulega við sér fyrr en 5 til 10 árum eftir að nýliðunin kemur fram,“ segir í tækniskýrslu með ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, sem gefin var út 17. desember síðastliðinn.

Lítill þéttleiki humarholna

Stórlega var dregið úr sókn í humarstofninn þrjú síðustu ár samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar vegna bágs ástands stofnsins og aðeins leyfðar svokallaðar könnunarveiðar. Gögn benda hins vegar til að þrátt fyrir minni sókn undanfarin ár fari ástand stofnsins enn versnandi og nýliðun sé lítil sem engin. Þannig hefur stofnstærð humars minnkað um 27% á tímabilinu 2016-2021 og er nú í lágmarki, segir í tækniskýrslunni.

Þéttleiki humarholna við Ísland 2021 var metinn með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) veitir ráðgjöf fyrir, en stofnmæling með núverandi fyrirkomulagi talninga á humarholum hófst þegar stofninn var þegar í mikilli lægð.

Gögn úr afla og stofnmælingaleiðangri benda einnig til að nýliðun sé mjög lítil. Á sama tíma hefur veiðihlutfall, skilgreint sem fjöldi humra í afla deilt með heildarfjölda humra í stofnmælingaleiðangri, minnkað úr 1,9% í 0,2% frá árinu 2016.

Innflutningur á humri 2012 til 2021
Innflutningur á humri 2012 til 2021 mbl.is

Afli á sóknareiningu mælist jafnframt sá minnsti frá árinu 1970 og þó svo að útgefnar aflaheimildir hafi aðeins numið 143 tonnum reyndist ekki auðvelt að ná þeim afla. Hafrannsóknastofnun endurskoðaði því grunn ráðgjafar og lagði til að humarveiðar yrðu ekki heimilaðar árin 2022 og 2023.

Eins og tvö síðustu ár leggur Hafrannsóknastofnun til að veiðar með fiskibotnvörpu verði áfram bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi til verndar humri.

mbl.is