Her Rússlands heldur áfram að safnast saman við landamærin að Úkraínu, þrátt fyrir diplómatískar tilraunir Vesturlanda síðustu vikur til að koma í veg fyrir innrás Rússa í Evrópuríkið.
Her Rússlands heldur áfram að safnast saman við landamærin að Úkraínu, þrátt fyrir diplómatískar tilraunir Vesturlanda síðustu vikur til að koma í veg fyrir innrás Rússa í Evrópuríkið.
Her Rússlands heldur áfram að safnast saman við landamærin að Úkraínu, þrátt fyrir diplómatískar tilraunir Vesturlanda síðustu vikur til að koma í veg fyrir innrás Rússa í Evrópuríkið.
Innrás sem vofir nú yfir.
Samkvæmt nýjustu greiningu varnarmálaráðuneytisins í Kænugarði, sem fréttastofa CNN fékk að líta augum á þriðjudag, hefur Rússland nú sent fleiri en 127 þúsund hermenn á svæðið.
Í lok desember og það sem af er janúar er herinn einnig sagður hafa flutt „birgðir skotfæra, færanleg sjúkrahús og öryggisþjónustur“ að landamærunum, sem í greiningunni er talið „staðfesta undirbúning sóknaraðgerða“.
Telja yfirvöld í Kænugarði einnig að Rússland styðji nú fleiri en 35 þúsund aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu og haldi sjálft út um þrjú þúsund manna herliði þeim til stuðnings innan landamæranna.
Stjórnvöld í Kreml hafa aftur á móti alltaf neitað því að herlið á þeirra vegum sé að störfum í Úkraínu.
Til viðbótar herliðinu hefur fleiri eldflaugavörpum verið komið fyrir við landamærin, samkvæmt því sem fram kemur í greiningunni. Um miðjan þennan mánuð voru þannig að minnsta kosti 36 Iskander-eldflaugavörpur nærri Úkraínu. Iskander-flaugar geta hæft skotmörk af allt að 500-700 kílómetra færi.
Innan þeirra marka er höfuðborgin Kænugarður.
Þá er einnig varað við því að ný víglína geti hafa myndast við landamærin í norðri, þ.e. að Hvíta-Rússlandi.
„Líta ætti á yfirráðasvæði Hvíta-Rússlands sem fullgilt athafnasvæði rússneskra stjórnvalda sem geta notað það til að útvíkka sóknir gegn Úkraínu,“ segir í greiningu úkraínska varnarmálaráðuneytisins.
Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í sendiráði Bandaríkjanna í Kænugarði í gær að Vladimír Pútín Rússlandsforseti gæti fært átök nágrannaríkjanna á annað stig með afar skömmum fyrirvara.
Sagðist hann einnig myndu ekki færa rússneskum kollega sínum skriflegt svar við kröfum Rússa, þegar hann og Sergei Lavrov koma saman til fundar í Genf á morgun. Fundur ráðherranna gæti verið eitt síðasta tækifærið til að afstýra þeirri innrás sem bandarísk stjórnvöld óttast að vofi yfir.
Fyrr í gær hafði talsmaður Kremlar, Dimitrí Peskov, lýst því yfir að Rússland byggist við skriflegu svari við tillögum sínum.
Kröfur Kremlar voru tilkynntar á aðventu jóla, en þess er meðal annars krafist að Atlantshafsbandalagið skuldbindi sig lagalega til að leyfa Úkraínu aldrei að ganga í bandalagið. Bandaríkin megi auk þess ekki koma á fót nýjum herstöðvum í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna.
„Það er ekki ljóst hver meginkrafa Rússlands er,“ sagði Blinken í Kænugarði en bætti svo við: „Ég held að við ættum að hafa betri hugmynd um það, kannski, eftir föstudaginn.“
Gærdagurinn var þó ekki á enda. Joe Biden Bandaríkjaforseti átti síðar eftir að halda tveggja klukkustunda blaðamannafund. Lengd fundarins kom mörgum að óvörum, enda hefur forsetinn gefið mun minna færi á spurningum blaðamanna en fyrirrennarar sínir í embætti undanfarin rúm þrjátíu ár.
Klukkutímarnir tveir dugðu þó ekki til að skýra þá línu sem forsetinn vill setja hvað varðar þessa yfirvofandi innrás Rússlands. Ummæli hans höfðu raunar þveröfug áhrif og voru einungis fallin til að bæta við þá óvissu sem ríkir um hvernig Vesturlönd muni bregðast við, fari svo að Pútín skipi fyrir um innrás í Úkraínu.
Sagði hann Rússland myndu borga það dýrum dómi, leggi her landsins í allsherjar innrás. Öðru máli gegni aftur á móti um minniháttar innrás (e. minor incursion).
„Rússland mun þurfa að svara til saka ef það ræðst inn – og það veltur á því hvað það gerir. Það er eitt ef það er minniháttar innrás og við endum á að þurfa að rífast um hvað skuli gera og hvað skuli ekki gera, og svo framvegis,“ sagði Biden á blaðamannafundinum. „En ef þeir gera í alvörunni það sem þeir eru færir um að gera ... það er að fara að verða stórslys fyrir Rússland ef þeir ráðast frekar inn í Úkraínu.“
Talsmaður Hvíta hússins, Jen Psaki, reyndi að draga úr óvissunni strax eftir fund forsetans með sérstakri yfirlýsingu.
Í henni segir að hvers konar hreyfingu rússneska hersins inn í Úkraínu muni fylgja hörð viðbrögð Bandaríkjamanna.
„Ef eitthvað rússneskt herlið færir sig yfir úkraínsku landamærin, þá er innrás hafin að nýju, og henni verður mætt með skjótu, ströngu og sameinuðu viðbragði Bandaríkjanna og okkar bandamanna,“ sagði Psaki.
Blinken reyndi svo að skýra enn frekar afstöðu Bandaríkjanna í dag þegar hann ávarpaði blaðamenn í Berlín eftir hádegi. Endurtók hann nánast orð fyrir orð skeytið frá Psaki hér að ofan.
Þýski utanríkisráðherrann Annalena Baerbock tók undir varnaðarorð kollega síns á blaðamannafundinum í dag. Sagði hún Þjóðverja brýna fyrir Rússum að taka skref í átt að því að draga úr stigmögnun deilnanna.
„Frekari herská afstaða, frekari árásir, myndu hafa grafalvarlegar afleiðingar,“ sagði Baerbock.
„Það er ekkert minna í húfi en það að varðveita frið í Evrópu,“ bætti hún við.
En þó mikið sé sagt þá er raunar að líkindum töluvert meira í húfi.
Ráðamenn í Kína eru nefnilega taldir fylgjast grannt með gangi mála á þessum vesturlandamærum Rússlands.
Rétt eins og Pútín, sem vill ólmur hafa hemil á þeirri lýðræðisþróun sem hefur átt sér stað í Úkraínu, óttast Xi Jinping þróunina í eyríkinu Taívan, handan hins 180 kílómetra breiða Taívansunds.
„Þetta gerir Úkraínudeiluna að örlagaríkri prófraun fyrir mátt Bandaríkjanna á heimsvísu. Fjögur ár af „America First“-ringulreið Donalds Trumps á erlendri grundu, ásamt pólitískri og samfélagslegri skautun og lélegu viðbragði við kórónuveirufaraldrinum á heimavelli, hafa knúið þá upplifun um allan heim að Bandaríkin séu stórveldi sem komið er að fótum fram – of sundrað, of mikið teygt og hreinlega of þreytt til að standa við fjarlægar skuldbindingar sínar.“
Á þessa leið ritar Michael Schuman, sem hefur lengi skrifað um málefni Kína, í grein á vef bandaríska tímaritsins Atlantic færir hann rök fyrir því að útkoma þessarar deilu um framtíð Úkraínu geti vel haft áhrif á það hvort og hvernig Kína reynir að innlima Taívan í stjórnkerfi meginlandsins að nýju.
„Þetta narratíf, sem klúðursleg brottför hersins frá Afganistan undir stjórn Bidens ýtti einungis undir, virðist hafa náð fótfestu hjá kínverskum ráðamönnum og er orðið reglulegt þema í áróðri ríkisins,“ skrifar Schuman.
„Á meðan Xi, Pútín og aðrir einræðisherrar verja auknum krafti í að brjóta bandaríska valdið á bak aftur, þá standa Bandaríkin frammi fyrir erfiðustu áskorun á forystuhlutverk sitt í heiminum, allt frá falli Sovétríkjanna.“