Steven Meyers, forseti kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands, segir það mikinn heiður, að vera falið að vera fyrsti forseti deildarinnar. Hann telur að nám í kvikmyndalist á háskólastigi feli í sér spennandi tækifæri.
Steven Meyers, forseti kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands, segir það mikinn heiður, að vera falið að vera fyrsti forseti deildarinnar. Hann telur að nám í kvikmyndalist á háskólastigi feli í sér spennandi tækifæri.
Steven Meyers, forseti kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands, segir það mikinn heiður, að vera falið að vera fyrsti forseti deildarinnar. Hann telur að nám í kvikmyndalist á háskólastigi feli í sér spennandi tækifæri.
Hann er nýráðinn deildarforseti kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands en nám í kvikmyndalist mun hefjast við skólann haustið 2022. Hann hefur starfað sem handritsráðgjafi og kvikmyndakennari um árabil. Meyers er fæddur og uppalinn í Michigan í Bandaríkjunum en hefur búið víða, meðal annars í New York, París og Prag, áður en hann settist að lokum að hér í Reykjavík.
Hann er með grunnmenntun í félagsfræði auk diplómanáms í handritagerð og leikstjórn frá tékkneska kvikmyndaskólanum FAMU. Síðar lauk hann MFA-gráðu í sama fagi frá Columbia University School of the Arts.
Hann flutti til Reykjavíkur síðla árs 2006 ásamt eiginkonu sinni Hrönn Sveinsdóttur, framkvæmda-stjóra Bíós Paradísar, þau búa í Vesturbænum í dag með þremur ungum dætrum sínum og hundi. Meyers telur mikinn ávinning af því að hafa stundað nám í tveimur frábærum kvikmyndaskólum í ólíkum heimsálfum.
„Það hefur gefið mér innsýn í hinar ýmsu stefnur og venjur í kvikmyndanámi á seinni námstigum. Sem kvikmyndanemi á sínum tíma gerði ég handfylli af stuttmyndum og skrifaði nokkur handrit sjálfur. Stór hluti ferilsins hefur þó beinst að stofnanahlið iðnaðarins, þar sem ég hef nýtt menntun mína til að styðja við þróun verkefna á sviði kvikmyndagerðar (e. talent development).“
Meyers hefur starfað sem ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Ísland frá árinu 2013, kennt um árabil við Kvikmyndaskóla Íslands og skipulagt fjölda handritanámskeiða og annarra þjálfunarnámskeiða fyrir ungt hæfileikafólk í gegnum sitt eigið fyrirtæki, Kvikmyndaakademíuna í Reykjavík.
„Frá árinu 2016 hef ég, ásamt vini mínum og samstarfsmanni Hafsteini Gunnari Sigurðssyni og fleirum, tekið þátt í að koma kvikmyndanámi á háskólastig innan Listaháskóla Íslands. Ég hef svo frá árinu 2019 unnið með listaháskólanum í að þróa þetta nýja nám.“
Nýja kvikmyndadeildin mun taka á móti fyrstu nemendum sínum í ágúst árið 2022.
„Uppbygging og námskrá mun byggja á áralangri þróunarvinnu innan listaháskólans í samvinnu við hagsmunaaðila úr íslenskum kvikmyndaiðnaði. Þessi vinna fól meðal annars í sér samráð við virta erlenda sérfræðinga og heimsóknir í skóla í nágrannalöndum okkar. Hugmyndafræði námsuppbyggingarinnar er í samræmi við ályktanir sem dregnar eru úr skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytis um kvikmyndafræðslu árið 2012, þar sem mælt var með áherslu á sex helstu lykilþætti kvikmyndagerðar. Þessi sérsvið iðnaðarins sem kennd verða eru leikstjórn, handritsgerð, framleiðsla, kvikmyndataka, klipping og hljóð. Í upphafi námstímans er áhersla á að allir fái grunnþekkingu á þessum helstu greinum en eftir því sem líður á eykst sérhæfingin. Nemandi ætti því að útskrifast með djúpa þekkingu og hæfni á því sérsviði sem hann velur sér. Stefnt er að því að taka 12 til 15 nemendur í námið næsta haust. Um er að ræða þriggja ára nám til bakkalárgráðu og mun meistaranámi verða bætt við í fyllingu tímans.“
Meyers telur mikilvægt að hafa í huga að kvikmyndadeildin verður til innan framsækins listaháskóla með öllu sem því fylgir, bæði fyrir deildina og háskólann í heild sinni.
„Einn ávinningur þessa er að deildin verður strax tengd svæðisbundnum samvinnuverkefnum og alþjóðlegum samstarfsnetum sem hvetja til skipta á nemendum, kennurum og hugmyndum. Þessi hugmyndafræði mun einnig verða virkjuð innan háskólans, þar sem nemendur verða hvattir til samstarfs þvert á faggreinar og deildir, sem og við önnur fræðisvið og aðra háskóla hér á landi.“
Kvikmyndadeildin verður staðsett innan sviðs kvikmyndalista, tónlistar og sviðslista þar sem mikið er af augljósum snertiflötum á milli þeirra listgreina.
„Við erum einnig fús að kanna samstarf á milli kvikmynda og annarra deilda, svo sem arkitektúrs, hönnunar, myndlistar og listkennslu. Að vera staðsett inni í listaháskólanum gerir okkur kleift að vinna þvert á greinar.
Þetta mun stórefla kvikmyndanám landsins og búa til alls konar spennandi tækifæri.“
Hann segir starfið í listaháskólanum hafa verið einstakt ferðalag fyrir hann persónulega.
„Þörfin fyrir kvikmyndanám á háskólastigi er mikil og hafa margir unnið að uppbyggingu þess í langan tíma. Það hefur verið heiður og forréttindi að fá að vera hluti af uppbyggingu deildarinnar hingað til og það er sérstaklega auðmýkjandi að vera falið að vera fyrsti forseti deildarinnar. Það er gríðarleg ábyrgð en líka mjög spennandi að taka þátt í að byggja upp þessa deild frá grunni.“
Opnað verður fyrir umsóknir um miðjan febrúar fyrir skólaárið 2022 til 2023.
„Nemendur þurfa að jafnaði að hafa lokið stúdentsprófi og sýna áhuga og skapandi hæfileika í umsókn sinni. Þetta er háskólamenntun þannig að við munum leita að hugmyndaríku, skapandi og hæfileikaríku ungu fólki með metnað og sýn. Það segir sig sjálft að við stefnum að nemendahópi án aðgreiningar sem endurspeglar fjölbreytileikann í íslensku samfélagi.“
Umsækjendur eru beðnir um að tilgreina hvaða áherslugrein þeir vilja helst útskrifast með.
„Þá er átt við leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóð. Nemendur munu svo vinna að verkefnum sínum í teymum. Fyrsta árið er áherslan á grunngreinar kvikmyndagerðar. Á öðru ári er áherslan á sérhæfingu nemandans og kennslan verður nákvæmari og markvissari í hverri sérgrein. Á þriðja ári verður lögð áhersla á rannsóknarverkefni og þróun og gerð útskriftarverkefna. Aðaláherslan í náminu er á kvikmyndagerð sem frásagnarform. Þó mun einnig rými skapast til tilrauna- eða heimildamyndagerðar, eða annarra forma kvikmyndalistar sem nemendur kjósa að leggja áherslu á, á námstímanum. Námið er nemendamiðað og mun þróun þess og mótun taka mið af óskum nemenda og ríku samtali við fagvettvanginn.“
Meyers segir áhugaverð tækifæri að finna í iðnaðinum ekki síst þar sem hann telur kvikmyndir eitt helsta frásagnarform okkar tíma.
„Að segja sögur okkar, sem einstaklingar og sem þjóð, er mikilvæg leið til að staðsetja okkur í umheiminum. Því betur sem við skiljum hvernig á að nota tól og tungumál kvikmynda, til að segja sögu, því betur í stakk búin erum við til að skrásetja söguna á þessu frásagnaformi.“
Eins og fyrr segir var námið ólíkt í Prag miðað við New York þótt Meyers sjái augljósa brú á milli skólanna sem hann lærði í.
„Columbia-háskólinn var stofnaður af tékkneskum innflytjendum sem flúðu kommúnismann sem ríkti í Prag árið 1968. Í því samhengi má nefna Milos Forman, Vojtech Jasny og Frank Daniel sem kenndi handritsgerð. Af þessari kynslóð kvikmyndagerðafólks var Milena Jelinek sem kenndi mér, en hún var nemandi Franks Daniels. Hún lést því miður í fyrra vegna fylgikvilla kórónuveirunnar. Hún hafði mikil áhrif á mig líkt og annar leiðbeinandi minn í handritsgerð, Brendan Ward, sem lést einnig nýverið.“
Hann er þakklátur fyrir að hafa lært og tileinkað sér nálgun kennara við Columbia-háskóla við handritsgerð.
Meyers er ekki einn af þeim sem sat límdur við sjónvarpið sem barn, heldur óx áhugi hans á kvikmyndum með tímanum.
„Mér fundust kvikmyndir yfir höfuð leiðinlegar. Ég man að mér fannst Raiders of the Lost Ark skemmtileg, þegar hún kom út, annars horfði ég ekkert sérstaklega á kvikmyndir fyrr en ég var kominn í menntaskóla og háskóla og fór að skoða erlendar kvikmyndir og listmyndir í gegnum háskólakvikmyndafélagið. Á þessum tíma kynntist ég kvikmyndagerðarmönnum á borð við Bergman og Godard og þeirra verk töluðu virkilega til mín. Seinna, þegar ég bjó í New York og París, varði ég miklum tíma í litlu listhúsunum sem var í raun og veru hluti af menntun minni sem kvikmyndanjótanda.“
Hann segir alls konar upplifun fólgna í því að vinna við kvikmyndagerð rétt eins og lífið sjálft.
„Hvert skot er einstakt í eðli sínu og kvikmyndahópar þróa sína eigin menningu. Stundum gengur allt frábærlega og stundum ekki, rétt eins og lífið er alls konar.“
Spurður um bakgrunn þeirra kennara sem munu kenna við kvikmyndadeildina í listaháskólanum er ósk hans að ná til hæfileikaríkra einstaklinga úr iðnaðnum.
„Æskilegt er að kennarar deildarinnar hafi ríka þekkingu og reynslu af faginu en einnig góða og fjöbreytta menntun og bakgrunn. Fagfólk sem hefur áhuga á uppbyggingu og námsþróun kvikmyndalistar.
Það er mikilvægt að þróa kennslumenninguna hér þar sem við höfum ekki verið með nám á þessu stigi áður. Ég er sérstaklega áhugasamur um að fá efnilegt fólk úr yngri kynslóðum, sem lokið hefur háskólanámi í kvikmyndagerð og er að hefja feril sinn hér heima. Við munum einnig vera með erlenda gestakennara reglulega en hreyfanleiki nemenda og kennara innan Evrópu er mikilvægur hluti námsins.“
Ný kvikmyndastefna hefur haft jákvæð áhrif á iðnaðinn og má þar ekki síst nefna hækkun endurgreiðslu á kostnaði við að gera kvikmyndir í landinu. Aukin hækkun mun laða enn þá fleiri verkefni til landsins og er kvikmyndadeildin meðal annars stofnuð svo hægt sé að mæta þessari auknu þörf sem verður með árunum ef miðað er við stefnu stjórnvalda.
„Það er frábær tími til að gera kvikmyndir á Íslandi núna og verður vonandi áfram um komandi tíð,“ segir Steven Mayers.