„Einræðisherra, sem hefur einsett sér að endurreisa heimsveldi, mun aldrei útmá ást fólks á frelsinu. Grimmd mun aldrei mala niður viljann til að vera frjáls. Í Úkraínu fæst aldrei sigur fyrir Rússland. Því að frjálst fólk neitar að lifa í heimi vonleysis og myrkurs.“
„Einræðisherra, sem hefur einsett sér að endurreisa heimsveldi, mun aldrei útmá ást fólks á frelsinu. Grimmd mun aldrei mala niður viljann til að vera frjáls. Í Úkraínu fæst aldrei sigur fyrir Rússland. Því að frjálst fólk neitar að lifa í heimi vonleysis og myrkurs.“
„Einræðisherra, sem hefur einsett sér að endurreisa heimsveldi, mun aldrei útmá ást fólks á frelsinu. Grimmd mun aldrei mala niður viljann til að vera frjáls. Í Úkraínu fæst aldrei sigur fyrir Rússland. Því að frjálst fólk neitar að lifa í heimi vonleysis og myrkurs.“
Svo mælti Joe Biden Bandaríkjaforseti undir lok ræðu sinnar í Varsjá, þar sem hann ávarpaði fjölda manna sem saman voru komnir til að hlýða á leiðtoga frjálsa heimsins.
„Við munum eiga öðruvísi framtíð, bjartari framtíð, sem reist er á lýðræði og gildum. Á von og ljósi. Á velsæmi, virðingu og frelsinu í möguleikunum,“ bætti forsetinn við.
En ávarpið var ekki alveg á enda. Vel má ímynda sér að uppi hafi orðið fótur og fit í Hvíta húsinu, er forsetinn ákvað að bæta nokkru við ávarpið sem ekki hafði verið skrifað á blaðið, áður en hann kvaddi viðstadda:
„Í Guðs bænum, þessi maður getur ekki verið áfram við völd.“
Ummælin þóttu undir eins gefa til kynna mikla stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda. Eins konar hvinur fór um Twitter, þar sem blaðamenn og stjórnmálaskýrendur vörpuðu hver á fætur öðrum ljósi á þessi ummæli og mögulegt sögulegt gildi þeirra. Sums staðar mátti jafnvel sjá þeim líkt við fræg orð Reagans, sem hann beindi til Gorbatsjovs í Berlín fyrir 35 árum: „Brjóttu niður þennan múr.“
En ummælin fengu ekki að standa lengi. Eða öllu heldur merking þeirra. Embættismaður frá Hvíta húsinu var nefnilega fljótur að stíga fram eftir að ræðunni lauk. Fullyrti sá að forsetinn hefði ekki raunverulega átt við það að Pútín væri ekki lengur vært á valdastóli.
„Meining forsetans var sú að það mætti ekki leyfa Pútín að beita valdi sínu gagnvart nágrönnum sínum eða á svæðinu,“ höfðu fréttamiðlar eftir embættismanninum, en nafni hans var haldið leyndu. „Hann var ekki að tala um völd Pútíns í Rússlandi, eða stjórnarskipti.“
Með öðrum orðum: Forsetinn meinti ekki það sem hann sagði, ef marka má Hvíta húsið.
Ljóst má vera að dregin hefur verið sú lína beggja vegna Atlantshafsins, eða að minnsta kosti í Washington og Lundúnum, að ekki megi ýja að nokkurs konar stjórnarskiptum í Kreml.
Þannig hafa stjórnvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi lagt sig í líma við að gefa ekki í skyn að þau vilji annan mann í brúnni í Moskvu, jafnvel þótt Biden sjálfur hafi til að mynda kallað hann stríðsglæpamann. Það hefur breski forsætisráðherrann Boris Johnson einnig gert, auk þess sem hann hefur líkt hegðun Pútíns við síðustu ár serbneska stríðsglæpamannsins Slobodans Milosevic á valdastóli.
Samt sem áður hefur Downingstræti einnig þurft að bera svipuð ummæli til baka. Var það gert hinn 28. febrúar, aðeins nokkrum dögum eftir innrásina, þegar talsmaður forsætisráðherrans sagði viðskiptaþvinganir Vesturlanda til þess gerðar að steypa Pútín af stóli.
„Aðgerðirnar sem við erum að kynna, sem stórir hlutar heimsins eru að kynna, eru til að fella Pútínstjórnina,“ tjáði talsmaður Downingstrætis blaðamönnum með skilyrði um eigin nafnleynd.
Samdægurs neitaði talsmaðurinn því að stjórnarskipti í Kreml væru meginmarkmiðið. „Við sækjumst ekki eftir neinu á borð við stjórnarskipti. Það sem við erum að tala skýrt um hér er hvernig við stöðvum Rússland frá því að reyna að sölsa undir sig lýðræðisríki. Það hafa allan tímann verið skilaboðin.“
Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, sem lengi hefur mótmælt setu landa síns á valdastóli í Kreml, gagnrýndi Biden fyrir að reyna að hverfa frá ummælum sínum.
„Enginn leiðtogi í hinum frjálsa heimi ætti að hika við að segja það hreint út að heimurinn væri mun betri staður ef Pútín væri ekki lengur við völd í Rússlandi. Góð aðferð til að koma því til leiðar er að segja einmitt það,“ skrifaði Kasparov um málið á Twitter.
„Einræðisherrar merja niður jafnvel minnsta merki um andstöðu, svo þeir geti sagt: „Ef ekki ég, hver þá?“ Að tuttugu árum liðnum þá virkar þetta. En við verðum öll að ímynda okkur Rússland eftir Pútín, svo það geti gerst. Engin normalísering, engir samningar, ekkert. Hann er ólögmætur og hann er stríðsglæpamaður,“ skrifaði skákmeistarinn.
„Biden er ekki Trump, sem þarf þýðanda frá ensku yfir í ensku! Enginn einræðisherra er lögmætur. Ekki taka eitthvað til baka þegar þú hefur rétt fyrir þér og ert í rétti. Ekki spila diplómatíska leiki við fjöldamorðingja.“
Tom Nichols, stjórnmálaskýrandi og prófessor við Naval War College í Bandaríkjunum, skrifar á vef tímaritsins Atlantic og bendir á að Biden eigi það gjarnan til að tala beint frá hjartanu, sem sé geðþekkur eiginleiki, að minnsta kosti gagnvart þeim sem styðja hann og dá.
Segir hann forsetann þannig reglulega gera sig sekan um þá skyssu stjórnmálamanna, að mæla óvarlega jafnvel þótt þeim ratist satt á munn.
„Þetta var ekki stundin fyrir slíkt augnablik, og jafnvel þeir sem telja að Biden hafi sýnt trausta forystu í þessari krísu ættu að viðurkenna að ummæli forsetans voru óþvinguð mistök (e. unforced error).“
Hann heldur áfram og segir að með hverjum deginum sem stríð Rússlands gegn Úkraínu dregst á langinn verði áfram fyrir hendi hættan á átökum milli austurs og vesturs sem geti stefnt heiminum í voða.
„Pútín, hvers strategísku markmið eru nú fallin saman, getur enn myrt fleiri Úkraínumenn í reiði sinni yfir niðurlægingunni. Hann gæti reynt að egna Atlantshafsbandalagið til átaka. Eitthvert þeirra fjögurra kjarnorkuvelda sem eiga hlut í átökunum gæti gert mistök eða orðið misskilningi að bráð. Núna er ekki tíminn fyrir spuna.“